Ég held að það sjái flestir í hendi sér að það er fáránlegt að þú ætlir að rukka verð sem þú þorir síðan ekki að fólk heyri af. Ef þú stendur við verðið þegar þú ert að rukka – þá er skrítið að þú standir ekki við það opinberlega.“

Þetta segir Benjamín Julian, verkefnastjóri verðlagseftirlits ASÍ, í samtali við Heimildina. Í vikunni var fjallað um að Melabúðin hefði sett sig upp á móti verðtöku á vegum ASÍ í búðinni.
„Við erum að skoða verð á mjög breiðum grunni og svo birtum við greiningar úr því. Sem liður í því höfum við verið að kíkja inn í fleiri búðir á matvörumarkaði, til dæmis Melabúðina. Það gerist síðan um daginn að verðtökumanninum okkar þar var sagt að hætta,“ útskýrir Benjamín.
Aðspurður segir hann að slík afstaða einskorðist ekki við Melabúðina en að það sé sjaldgæft að verðtaka sé ekki leyfð. Þetta viðmót hafi þó mætt ASÍ áður í þessari tilteknu búð. „Þau vilja ekki að fólk viti verðlag verslunarinnar áður en það kemur til þeirra.“
Benjamín bendir á að enginn myndi ganga blindandi um búð og kaupa vörur. „Þú myndir alltaf vilja vita hvað þú ert að kaupa og á hvaða verði, það er hluti af því að vita áður en þú ferð að versla hvar verslanirnar standa.“
„Ég kommenta svo sem ekkert á gæðin, það er eitthvað sem hver fyrir sig verður að meta“
Melabúðin hefur svarað ASÍ og sagt óskiljanlegt að hnýtt sé í litla hverfisverslun sem geri út á gæði og þjónustu, í stað þess að beina spjótum að stærri aðilum á matvörumarkaði.
„Ég kommenta svo sem ekkert á gæðin, það er eitthvað sem hver fyrir sig verður að meta. En úrvalið skarast að næstum öllu leyti við aðrar verslanir þegar það kemur að strikamerkjavörum. Það truflar mig ekkert á hvaða grunni fólk fer út að versla, ég vil bara að þau viti hvað þau eru að fara að borga áður en þau labba af stað,“ segir Benjamín.
„Við erum hérna til þess að upplýsa fólk um hvað það er að koma sér í með því að fara í mismunandi verslanir og það truflar okkur náttúrlega þegar það er verið að gera okkur það erfitt.“
Benjamín segir að lokum að sér finnist afstaða Melabúðarinnar undarleg. „Mér finnst þetta dapurlegt og smá skrítið. Mér finnst ekkert gaman að fréttirnar okkar snúist um þetta. Ég vil bara að við getum gefið heiðarlegar og góðar fréttir um það hvernig verðlag er á Íslandi, sem er okkar hlutverk og vinna. Ég hef engan áhuga á því að lenda í einhverju orðaskaki við verslunareigendur út af einhverju svona.“
Athugasemdir