Ákvarðanir sem tengjast lífslokum eru meðal þeirra erfiðustu sem einstaklingar og fjölskyldur standa frammi fyrir. Í meðfylgjandi grein verða reifuð helstu rök með dánaraðstoð.
Dánaraðstoð felur í sér virðingu fyrir sjálfsákvörðunarrétti einstaklinga
Sjálfsákvörðunarréttur er grundvallaratriði í lýðræðislegu samfélagi og felur í sér rétt einstaklinga til að taka ákvarðanir um eigið líf, svo sem hvernig þeir kjósa að lifa og hvaða meðferðir þeir þiggja. Það er rökrétt framhald að þeir hafi einnig rétt til að velja hvernig og hvenær lífinu lýkur, sérstaklega þegar þeir standa frammi fyrir óbærilegum þjáningum.
Dánaraðstoð fjölgar valkostum við lok lífs
Með lögleiðingu dánaraðstoðar skapast valkostur sem ekki er til staðar í dag. Slík löggjöf myndi ekki hafa áhrif á þá sem eru andvígir dánaraðstoð. Í lýðræðissamfélagi er það réttur hvers einstaklings að fylgja eigin sannfæringu – þeir sem eru andvígir dánaraðstoð hafa fullan rétt til að vera það áfram. Þeir verða hins vegar að sætta sig við það að aðrir geti viljað nýta sér þennan valkost.
Dánaraðstoð dregur úr ótta við fyrirsjáanlegar óbærilegar þjáningar
Alvarlega veikir einstaklingar upplifa oft kvíða og ótta við óbærilegar þjáningar sem gætu beðið þeirra. Vissan um að þeir geti valið að forðast þessar aðstæður veitir þeim hugarró, tilfinningu fyrir stjórn og dregur úr vanlíðan. Þessu voru gerð góð skil í umfjöllun þáttarins Kveikur í september 2024 þar sem fram kom að viðmælandi upplifði valdeflingu að vita af möguleikanum á dánaraðstoð þótt ekki kæmi til þess að hann væri nýttur.
Dánaraðstoð getur dregið úr sorg og áfallastreitu ástvina
Rannsóknir frá Hollandi og Oregonfylki í Bandaríkjunum sýna að ástvinir krabbameinssjúkra sem fengu dánaraðstoð upplifðu vægari sorgareinkenni og minni áfallastreitu en þeir sem ekki höfðu slíkan valkost. Það veitti þeim huggun að vita að ástvinur þeirra fékk að kveðja lífið á sínum eigin forsendum. Þeir töldu mikilvægan þátt í sorgarferlinu að hafa fengið að vera viðstaddir á dánarstund og kveðja ástvin sinn. Sumir nefndu að opinskáar umræður um dauðann hefðu auðveldað þeim að sættast við yfirvofandi andlát og takast á við missinn. Aðrir nefndu þakklæti fyrir tækifærið til að sættast, rifja upp dýrmætar minningar og njóta síðustu samverustunda.
Dánaraðstoð eyðir lagalegri óvissu og gerir ferlið faglegt
Rannsóknir frá löndum þar sem dánaraðstoð er óheimil sýna að læknar grípa stundum til þess að gefa sjúklingum of stóra skammta af verkjalyfjum til að flýta fyrir andlátinu. Reynslusögur sem berast okkur í Lífsvirðingu gefa til kynna að slíkt kunni einnig að eiga sér stað hér á landi. Þegar dánaraðstoð var lögleidd í Hollandi árið 2002 fögnuðu læknar þeirri lagabreytingu þar sem hún eyddi öllum gráum svæðum, gerði ferlið faglegra og tryggði skýra framkvæmd sem hafin er yfir allan vafa.
Lög um dánaraðstoð minnka líkur á misnotkun
Með góðum lagaramma og vel útfærðri umgjörð er hægt að tryggja að ferlið sé réttlátt og fari fram í fullu samræmi við vilja sjúklingsins. Þetta eykur traust almennings á kerfinu, ver heilbrigðisstarfsfólk fyrir óvissu og siðferðilegum álitamálum og kemur í veg fyrir aðgerðir sem gætu annars leitt til misnotkunar.
Dánaraðstoð stuðlar að opinskárri umræðu um dauðann
Í mörgum menningarheimum er dauðinn enn tabú. Lögleiðing dánaraðstoðar getur verið hvati að því að normalísera umræðu um dauðann sem órjúfanlegan hluta af lífinu. Með lögleiðingu dánaraðstoðar skapast tækifæri til dýpri samtala um lífsgæði, mannlega reisn og hvað það þýðir að lifa og deyja á eigin forsendum.
Dánaraðstoð getur eflt samband læknis og sjúklings
Einstaklingar sem hafa möguleika á dánaraðstoð upplifa að læknar þeirra virði óskir þeirra. Þeir finna að þeir hafa vald yfir eigin ákvörðunum og að læknarnir séu til staðar til að styðja þá, frekar en að taka ákvarðanir fyrir þá. Lögleiðing dánaraðstoðar krefst þess að læknar og sjúklingar ræði saman á opinskáan hátt um lífsgæði, þjáningar, óskir og væntingar í tengslum við lífslok. Slíkar samræður stuðla að dýpri skilningi og trausti á milli sjúklings og læknis.
Lögleiðing dánaraðstoðar getur dregið úr sjálfsvígum
Í samfélögum þar sem dánaraðstoð er óheimil, líkt og hér á landi, eru dæmi um að einstaklingar með ólæknandi sjúkdóma taki eigið líf vegna ótta við að geta ekki stjórnað eigin lífslokum. Þetta þýðir að þeir glata dýrmætum tíma með fjölskyldu og vinum á lokaskeiði lífsins. Sjálfsvíg getur leitt til áfallastreitu og sektarkenndar fyrir fjölskyldur og ástvini. Með lögleiðingu dánaraðstoðar er þeim sem glíma við óbærilegar þjáningar veitt öruggt og mannúðlegt úrræði.
Vaxandi stuðningur heilbrigðisstarfsmanna við dánaraðstoð á Íslandi
Stuðningur við dánaraðstoð hefur aukist meðal heilbrigðisstarfsmanna undanfarin ár, bæði á Íslandi og í öðrum löndum. Hann endurspeglar breytt viðhorf til mannúðar, lífsgæða og réttinda sjúklinga við lífslok. Samkvæmt könnun sem heilbrigðisráðherra lét framkvæma og var birt í júní 2023 lýstu 56% lækna, 86% hjúkrunarfræðinga og 81% sjúkraliða yfir stuðningi við lögleiðingu dánaraðstoðar.
Mikill meirihluti íslensks almennings styður lögleiðingu dánaraðstoðar
Kannanir sýna stöðugan og afgerandi stuðning íslensks almennings við dánaraðstoð. Samkvæmt könnun sem Maskína gerði fyrir Lífsvirðingu síðla árs 2022 voru 76,2% svarenda fremur eða mjög hlynntir dánaraðstoð, á meðan aðeins 6,6% voru fremur eða mjög andvígir. Í könnun heilbrigðisráðherra sem birt var í júní 2023 kom fram að 75,6% svarenda voru alfarið, mjög eða frekar hlynntir lögleiðingu dánaraðstoðar á Íslandi.
Athugasemdir