Í samstarfsyfirlýsingu nýs meirihluta í Reykjavík er sérstaklega fjallað um „heimili á hjólum“ í kaflanum um húsnæðismál og til stendur að finna hjólhýsabyggðinni við Sævarhöfða nýjan stað. „Okkur finnst mikilvægt að mæta þessum hópi,“ segir Sanna Magdalena Mörtudóttir, forseti borgarstjórnar og borgarfulltrúi Sósíalistaflokksins.

Tæp tvö ár á iðnaðarplaninu
Íbúum hverfisins var tilkynnt þegar þeim var gert að flytja úr Laugardalnum að þau þyrftu aðeins að vera á Sævarhöfða í tvo til þrjá mánuði, en síðan eru liðnir 20 mánuðir – bráðum tvö ár. Hjólhýsabyggðin hefur þennan tíma verið á óhirtu iðnaðarplani við hlið 40 metra sílóa þar sem gamla sementsstöðin var áður til húsa. Komið var upp rafmagnstenglum og borga þau 15 þúsund krónur á mánuði fyrir aðgang að rafmagni. Aðra þjónustu er þar ekki að fá. Íbúar hafa síðustu misseri barist fyrir því að hjólhýsabyggðinni verði fundin mannsæmandi staðsetning og hafa þeir verið afar ósáttir við afstöðu fyrri borgarstjóra.
Sanna segir að fyrsta skrefið nú sé að heyra í þeim sem búa á Sævarhöfða „sem er óboðleg staðsetning, og útfæra þetta nánar í samráði við hjólabúa. Það er mjög mikilvægt að við finnum góða staðsetningu í nálægð við helstu samgöngur. Við sammæltumst um að það þyrfti að finna betri staðsetningu,“ segir hún og vísar til nýs meirihluta í Reykjavík. Hann er myndaður af fimm flokkum; Samfylkingunni, Pírötum, Vinstri grænum, Sósíalistaflokknum og Flokki fólksins, en fulltrúar þeirra tveggja síðastnefndu höfðu endurtekið krafist úrbóta fyrir íbúa hjólhýsabyggðarinnar en ekki fengið hljómgrunn. Þessir flokkar komu inn í meirihlutasamstarf í borginni í fyrsta skipti eftir að Framsókn sleit síðasta meirihluta í byrjun febrúar.
Hjólabúar fagna
Nokkur ár eru síðan til varð lítið samfélag fólks sem býr í hjólhýsum eða húsbílum og hafðist við á tjaldsvæðinu í Laugardal í Reykjavík. Fyrst um sinn voru þau þar aðeins á veturna en viku fyrir ferðamönnum á sumrin. Þegar kórónuveirufaraldurinn geisaði fengu þau að búa á svæðinu allt árið um kring, og borguðu leiguverð fyrir langtímastæði. Þegar ferðaþjónustan tók aftur við sér var ákveðið að framlengja ekki leigusamninga þeirra og þeim vísað burt, meðal annars með þeirri röksemdafærslu að það færi ekki saman að hafa íbúa og ferðamenn á sama svæðinu.

Geirdís Hanna Kristjánsdóttir, íbúi á Sævarhöfða og formaður Samtaka hjólabúa, sem eru félagasamtök sem berjast fyrir réttindum þeirra sem vilja búa á hjólum, í hjólhýsum eða húsbílum, segist fagna þeim fregnum að hjólhýsabyggðinni verði fundinn nýr staður. Enn hefur enginn fundur verið haldinn með íbúum um málið og veit hún því ekkert um framhaldið, en er vongóð. Geirdís, sem enn fremur er varaborgarfulltrúi Sósíalista, hefur harðlega gagnrýnt að borgin komi ekki til móts við fólk sem reynir að bjarga sér með því að búa í hjólhýsi, á húsnæðismarkaði þar sem er bæði dýrt og erfitt að fá íbúð.
Samhljómur hjá nýjum meirhluta
Einar Þorsteinsson, þáverandi borgarstjóri, gaf ekki kost á viðtali fyrir umfjöllun Heimildarinnar um hjólhýsabyggðina í desember heldur vísaði í fyrri orð sín um að það komi ekki til skoðunar að finna annað svæði fyrir hjólhýsabyggð í borginni. Hann hafði meðal annars beint íbúunum á tjaldsvæði í nágrannasveitarfélögum og sagði að það væri ekki hlutverk borgarinnar að niðurgreiða úrræði fyrir fólk sem kjósi að búa í hjólhýsi.
„Það gengur ekki að þau séu þarna á Sævarhöfðanum
Sanna segist ekki geta svarað fyrir afstöðu fyrri meirihluta en mikill samhljómur sé í áherslum nýja meirihlutans vegna málsins: „Við sem komum að þessu samstarfi erum sammála um að það þurfi að finna betri staðsetningu fyrir þennan hóp. Það er mjög ánægjulegt að fara í þetta verkefni því það gengur ekki að þau séu þarna á Sævarhöfðanum.“
Hún segir nokkrar staðsetningar þegar vera til skoðunar en ekkert liggi hins vegar fyrir um hvorki endanlega staðsetningu né hvenær íbúarnir geti flutt hýsin á nýjan stað. „En vonandi gengur þetta hratt og örugglega,“ segir Sanna.
Athugasemdir