Ég hef ekkert lært. Og ef ég hef einhvern tíma lært eitthvað þá hef ég verið fljótur að gleyma því. Þess í stað geri ég sömu mistökin aftur og aftur.
Áður en ég held lengra ætla ég að fá mér meira kaffi, þó að ég viti alveg að það er örugglega ekki gott fyrir mig, ég verð æstur og leiðinlegur ef ég drekk of mikið kaffi. Og best að fá sér eitthvað sætt með því, þó að það sé ekki heldur skynsamlegt og pottþétt ekki hollt. Maður borðar allt of mikið af sykri.
Tilgangslaus menntun
Er ekki reynsla líka ofmetin, sérstaklega ef maður nær ekkert að læra af reynslunni? Flestir læra því miður aldrei neitt af reynslunni. Eða alla vega allt of sjaldan. Og menntun? Er hún ekki líka frekar tilgangslaus og úreldist allt of hratt? Ég fór í myndlistarskóla en þar lærir maður svo sem ekki mikið. Kannski eitthvað um listasögu sem gleymist fljótt og svo er ekki beint hægt að læra að verða listamaður, maður verður bara að gera eitthvað og sjá svo hvað kemur í ljós, hvort að þetta sé eitthvað eða bara eitthvert fúsk og drasl. Eða misheppnað dót og allt of líkt einhverju sem fyrir löngu er búið að gera og jafnvel oft. Og ekkert svo sem merkilegt heldur, kannski bara of líkt því sem náunginn á næsta borði er að gera.
Sjálfsgagnrýni og mistök
Svo maður verður bara að prófa sig áfram. Gera nokkur mistök og vona að einhvern tíma komi eitthvað sem er ekki svo slæmt, eitthvað nýtt eða skemmtilegt. Þarf ekkert að vera sniðugt en gott að það sé ekki leiðinlegt. Það væri eitthvað. En svo er það efinn. Að efast alltaf um sjálfan sig og það sem maður er að gera, að það sé ekki nógu gott og nógu frumlegt. Og það er erfitt að gera eitthvað sem maður er nógu ánægður með sjálfur, hvað þá aðrir. Fyrst er það sjálfsgagnrýnin og eins og hún sé ekki nóg þá er það gagnrýnin frá öðrum eða jafnvel það sem er enn verra: þögnin. Afskiptaleysi er eiginlega verra en slæm umsögn, að eitthvað sé ekki einu sinni þess virði að minnast á það. Stundum er sagt að slæmt umtal sé verra en ekkert en ég er ekki alveg sannfærður um að það sér rétt. Alla vega væri leiðinlegt og niðurbrjótandi að fá stanslaust slæma umfjöllun. Væri þá ekki skárra að upplifa bara afskiptaleysi og áhugaleysi? Eða hvað? Ég er ekki viss.
Velgengni og siðblinda
Hólið er gott en of mikið hól gerir auðvitað engum gott. Stígur manni til höfuðs og verður til þess að sjálfsgagnrýnin verður engin og þá fyrst er maður í vondum málum. Einhver sem er allt of ánægður með sjálfan sig hefur ekki lært neitt. Nema hann sé bara siðblindur eða óbjargandi besserwisser. Velgengnin má heldur ekki stíga manni til höfuðs, það getur komið í bakið á manni. Þá er nú skárra að vera hógvær og lítillátur þó að það sé ef til vill ekki vænlegt til frama eða stórkostlegra afreka. Það er nú svo sem enginn að ætlast til þess.

Maður ætti vissulega að vera búinn að læra að lengi getur vont versnað. En það þýðir samt ekkert að gefast upp og það er alltaf skárra að halda áfram, þrauka og bíta á jaxlinn. Því heimur batnandi fer, svona heilt yfir, ólíkt því sem margir virðast halda, að allt sé að fara til fjandans og flest hafi verið betra áður fyrr. Nei nei, tölfræðin segir okkur að hlutirnir færist hægt og bítandi til betri vegar, ótrúlegt en satt. Með nokkrum reglulegum og óreglulegum bakslögum auðvitað, misstórum.
Ósýnilegar bjartar hliðar
Og svo er það bara að kunna að meta það góða í lífinu, það fallega og ekki síst það skemmtilega. Horfa á björtu hliðarnar sem eru þarna einhvers staðar, misósýnilegar en þær eru þarna ef betur er að gáð. Og ef til vill getur maður lagt sitt af mörkum, eitthvað pínu pons, þó að það sé ómerkilegt og dropi í hafið þá er það alltaf betra að vera góð manneskja, gera allavega sitt besta. Safnast þegar saman kemur og margt smátt gerir vissulega eitt stórt. Það er að minnsta kosti í áttina.
„Ef til vill getur maður lagt sitt af mörkum, eitthvað pínu pons
Best að fá sér hafragraut, hann er allavega hollur og volgur. Og jafnvel lýsi með, gott í skammdeginu og svona almennt. Jafnvel eplabita líka, fullkomið. Góð undirstaða.
Og að vera bara ánægður með sitt, hverju maður hefur áorkað, lagt eitthvað aðeins af mörkum, þó að það virðist ómerkilegt. Já, er það ekki bara ágætt, allavega eitthvað.
Kannski að maður ætti að byrja að læra eitthvað, á lífið sko. Nýta það sem lífið hefur kennt manni. Það er aldrei of seint, eða er það nokkuð?
Athugasemdir