Vinkona mín er á leiðinni í heimsókn til mín í London. Hún sendi mér nýverið skilaboð. „Þarf ég að sækja um þetta ETA?“
Ég hafði ekki minnstu hugmynd um í hvað hún vísaði. Með aðstoð eins af undrum nútímans, Google, tók það mig aðeins örfáar sekúndur að komast til botns í málinu. Um var að ræða enn eitt skref mannkyns í afturhvarfi þess til fortíðar.
Ómögulegur samtími
Hinn 23. júní árið 1971 hafði lögregla afskipti af manni sem lagði bifreið sinni við Langholtsveg. Við leit fannst í bílnum smyglvarningur, 11 kjúklingar og 36 dósir af Mackintosh-sælgæti. Maðurinn var færður niður á lögreglustöð til yfirheyrslu.
„O tempora, o mores,“ – hvílíkir tímar, hvílíkir siðir – stundi rómverski stjórnmálamaðurinn Marcus Tullíus Cíceró á fyrstu öld fyrir Krist er hann barmaði sér yfir samtíma sínum (eða eins og frasinn útleggst í staðfærðri samtíðaþýðingu: bölvaðir snjallsímar, andskotans internet). Saga þeirrar skoðunar að samtíminn sé ómögulegur er löng. Gutenberg og gervigreindin, færibandið og farsíminn. Úrtölumenn hafa alltaf haft hátt. Sjaldan hafa þeir þó haft erindi sem erfiði líkt og nú.
Donald Trump heldur veröldinni í heljargreipum. Hver verður næsta skotmark í Tollaleikunum, tollaútgáfunni af Squid Games?
Ekki er langt síðan alþjóðaviðskipti þóttu hátindur vestrænnar siðmenningar. En skjótt skipast veður í lofti.
„Namm, namm, útlent gott“
Árið 1971 seldi fríhöfnin í Keflavík þrjú og hálft tonn af Mackintosh á mánuði. Vegna innflutningsbanns á sælgæti gátu Íslendingar aðeins keypt hið sívinsæla konfekt ættu þeir leið til útlanda.
En í kjölfar inngöngu Íslands í EFTA var innflutningur leyfður. Dagblaðið Vísir fjallaði um málið: „„Namm, namm, útlent gott,“ segja sjálfsagt íslenzkir sælkerar þegar þeir sjá erlendu sælgæti stillt út í glugga verslana hérlendis innan skamms.“ Blaðamaður Vísis virtist þó þegar farinn að sjá fortíðina í rósrauðum bjarma. Þótt innflutningur yrði takmarkaður, auk þess sem sjötíu prósenta innflutningstollur legðist á erlenda sælgætið, velti hann því fyrir sér hvort nammið yrði nokkuð „eins eftirsótt þegar það er flutt inn á löglegan hátt, en ekki fengið frá Sigga frænda sem kom frá London, eða Dísu systur sem kom frá Ameríku“.
O tempora, o mores. Leikfangaverslunin Build a Bear var að opna í Smáralind; hvað er gaman að fara til útlanda ef maður getur keypt M&M og bangsa í Hagkaup? O tempora, o mores. Það er nú meira ruslið á þessu Netflix; sú var tíðin að fimmtudagar voru sjónvarpslausir, við borðuðum ýsu í öll mál, splæstum í hamsatólg um helgar og Ora-bollur í dós á tyllidögum. Hvers vegna þurfti að slökkva á stillimyndinni? O tempora, o mores. Þessir foreldrar með nefið ofan í snjallsímanum. Hvað varð um rafmagnsleysið sem tryggði fjölskyldum reglulega náðarstund þar sem spilað var Yatzy og snarlað á Bugles. Þessi ofurunnu matvæli gerðu mér aldrei mein. O tempora, o mores. Hvers vegna eru allir að borða þetta ólseiga súrdeigsbrauð? „Make normalbrauð great again!“ Var bjórlíkið nokkuð svo slæmt?
„Það er að verða viðtekin skoðun að landbúnaðarbyltingin hafi verið ein stærstu mistök mannkynssögunnar“
Svo langt teygir sig trúin á að allt hafi verið betra í gamla daga að það er að verða viðtekin skoðun að landbúnaðarbyltingin hafi verið ein stærstu mistök mannkynssögunnar, en vinsældir fullyrðingarinnar má rekja til metsölubókarinnar Sapiens eftir hinn geysivinsæla sagnfræðing Yuval Noah Harari, sem fullyrðir að fyrir tíð landbúnaðar hafi maðurinn lifað nánast dönsku „hygge“ lífi sem hamingjusamur veiðimaður og safnari.
Dæmin sýna þó að fortíðin er ekki sá hlýi faðmur sem margir vilja vera láta.
Donald Trump reynir nú með tollum að „make America great again“. Bretar minntust þess fyrir viku að fimm ár eru liðin frá því að þeir reyndu með Brexit að „take back control“ og hverfa aftur til fortíðar. Skoðanakönnun sem gerð var af því tilefni sýndi að 62 prósent Breta telja útgönguna úr Evrópusambandinu hafa verið misheppnaða. Aðeins 9 prósent telja hana hafa skilað árangri.
Senn munu Íslendingar sem hyggjast heimsækja Bretland þurfa að sækja um ETA, rafrænt ferðaleyfi, áður en þeir leggja land undir fót. Þótt ekki sé um að ræða sérlega íþyngjandi kvöð er erfitt að sjá að þessi afleiðing Brexit sé nokkrum til hagsbóta.
Vel má vera að Mackintosh-ið smakkist betur sé það ólöglega innflutt eða aðgengi að því skert. En þótt Mackintosh-ið hafi smakkast betur í gamla daga þýðir það ekki endilega að veröldin hafi verið betri.
Athugasemdir (3)