Þessi grein birtist fyrir meira en mánuði.

Upprunalönd risaeðlanna fundin: Þær voru fyrst ekki annað en murrandi smákvikindi einhver

Ný rann­sókn leið­ir í ljós margt ný­stár­legt um risa­eðlurn­ar kunnu

Upprunalönd risaeðlanna fundin: Þær voru fyrst ekki annað en murrandi smákvikindi einhver
„Gervikrókódíll“ — Þetta er ekki risaeðla.

Við þekkjum öll forsögu spendýranna, formæðra okkar og -feðra. Þau voru ekki annað en murrandi smákvikindi einhver sem skutust um lággróður og kjarr og gleyptu í sig skordýr og orma og pöddur og þvíumlíkt smælki meðan risaeðlurnar stóru og glæsilegu þrömmuðu þungt um grundir.

Og það var ekki fyrr en loftsteinninn ógurlegi hafði rist upp jörð á Yukatan-skaga fyrir 66 milljónum ára og risaeðlurnar dóu út í kjölfarið sem svigrúm skapaðist fyrir spendýrin að þróast og stækka fyrir alvöru.

Nú hafa niðurstöður nýrrar og ítarlegar rannsóknar á uppruna risaeðlanna hins vegar gefið til kynna að þær sjálfar hafi komið til sögunnar á ótrúlega svipaðan hátt. 

Rannsóknin var gerð af breskum vísindamönnum og niðurstöðurnar birtust á dögunum í vefritinu Current Biology. 

Hún snerist fyrst og fremst um að finna út hvar á Jörðinni risaeðlurnar, sem við skulum kalla héðan í frá dínósárusa, hefði komið fram.

„Gervikrókódíll“ af þessari tegundgat orðið tíu metra langur.

Gríðarlegur fjöldi af steingervingum dínósárusa hefur verið grafinn úr jörðu en mjög hefur þótt skorta á steingervinga frá upphafsárum þeirra.

Elstu steingervingarnir sem fundist hafa gefa nefnilega til kynna að þeir séu af tegundum sem þá þegar höfðu verið að þróast í einhverjar tugmilljónir ára. Og því vissi enginn nákvæmlega hvenær og sérstaklega ekki hvar þessi nýi dýraflokkur hafði komið fram.

En með flóknum samanburði á upplýsingum úr steingervingafræði, erfðafræði, jarðfræði og líffræði hefur bresku vísindamönnunum nú tekist að búa til líkan sem þeir telji að geti rakið ættir dínósárusanna allt aftur til upphafsins.

Nú víkur sögunni meira en 200 milljónir ára aftur í tímann. Þá höfðu allar núverandi heimsálfur Jarðarinnar um töluverða hríð verið samansafnaðar í eitt risastórt meginland sem við höfum kallað Pangaeu eða einfaldlega Pangeu.

Það þýðir einfaldlega Aljörð.

Sjáið kort af Pangeu hér örlítið neðar.

Erkieðlurnar voru engin lömb að leika sér viðog gátu orðið ansi stórar þótt ekki væru þær risaeðlur.

Á Tríastímabilinu (milli 200-250 milljón) árum komu svonefndar erkieðlur (archosaurs) fram og urðu allsráðandi á Pangeu. Stærstar þeirra voru pseudosuchian-skriðdýr sem þýðir eiginlega gervikrókódílar. Það var þó sannarlega ekkert gervilegt við þær skepnur því stærstu tegundirnar voru allt að tíu metra langar og heldur grimmilegar útlits.

Þessi dýr voru ekki dínósárusar. Einfaldasta leiðin til að greina á milli dínósárusa og annarra stórra skriðdýra sem uppi voru á þeim tíma er að skoða fætur þeirra. Allar erkieðlur, þangað til kom að dínósárusunum, voru með fjóra fætur sem stóðu út frá skrokknum, líkt og fætur krókódíla gera.

Fætur eru ólíkir, það er ljóst.

Dínósárusar eru aftur á móti með fætur sem snúa niður sem felur meðal annars í sér að þeir eru snarari í snúningum og liðugri en „venjulegar“ eðlur eða önnur skriðdýr.

Skriðdýrin með útstæðu fæturna höfðu dreifst um allar koppagrundir á Tríastíma. Þá var mjög heitt á Jörðinni, um það bil þrem gráðum hærra en nú sem þýddi meðal annars að hvergi var snjó eða ís að sjá. Þar sem hlýir sjávarstraumar léku um strendur var mjög gróðursælt og raunverulegir frumskógar náðu þá miklu norðar en þeir gera nú.

Þar sem sjávarstraumir voru kaldir var hins vegar mun þurrara og þar voru gresjur og eyðimerkur á stórum svæðum. Þegar leið á Tríastímann var Pangea farin að klofna og innhafið sem við kennum við Þetys var í óða önn að skera hana í tvennt. Hlutarnir tveir, er við köllum Gondwanaland í suðri og Lárasíu í norðri voru þó enn sameinaðir um svæði sem nú eru Norður-Ameríka og Evrópa.

Hinar nýju niðurstöður í Current Biology benda til þess að dínósárusar hafi verið komnir fram þegar líða tók á Tríastímann en þeir hafi í nokkra milljónatugi ára verið nær eingöngu svolítil kvikindi á stærð við hænsfugla eða í hæsta lagi litla hunda. 

Og hafi lifað í óttaslegnu sambýli við gervikrókódílana og aðrar stóra erkieðlur nákvæmlega eins og spendýrin lifðu í sambýli við dínósárusuna 150 milljón árum síðar.

En bresku vísindamennirnir hafa með líkanagerð sinni ekki bara rakið sig aftur til arfgerðar fyrstu dínósárusanna.

Þeir hafa sem sé líka skilað svari við spurningunni hvar dínósárusarnir komu fram og við hvaða aðstæður. 

Hingað til hefur helst verið talið að dínósárusar hafi byrjað að þróast á fremur þurrum og ekki mjög gróðurríkum steppum. Líklega þar sem nú heita Argentína og suðurhluti Afríku sem þá lágu saman suðvestanvert á Pangeu.

Onei, segja vísindamennirnir. Miklu líklegra er að hinir niðurfættu dínósárusar, murrandi hálfkvikindin einhver, hafi komið fram töluvert norðar eða miðbaug þar sem hið núverandi Amasónsvæði í Suður-Ameríku og Vestur-Afríka lágu þá saman. 

Jörðin fyrir 200-250 milljón árum.Sjá má móta fyrir núverandi heimsálfum hér og hvar. Stjarnan hvíta sýnir svæðið þar sem breska rannsóknin bendir til að risaeðlurnar hafi komið fram. Rauðbrúna strikið sem liggur nokkurn veginn frá núverandi Skotlandi um Norður-Afríku ströndina, um Bandaríkin (nú Appalchiu-fjöll) og til norðurhluta Suður-Ameríku, voru þá hæstifjallgarður heims, ámóta og Himalæja-fjöllin núna. Einmitt mjög í námunda við þann mikla fjallgarð eru talin hafa orðið gríðarleg eldgos fyrir 201 milljón árum og áttu víst mikinn þátt í að útrýma forverum risaeðlanna.

Þar var gríðarmikið frumskógavæði þar sem var bæði funheitt en líka mikill raki í loftinu svo þar hefur verið mjög frjósöm jörð. 

Og þarna fæddust dínósárusarnir og þaðan náðu þeir að dreifast um alla Jörðina eftir að ægilegar hamfarir höfðu riðið yfir fyrir 201 milljón ára.

Það voru ekki alveg jafn skelfilegar hamfarir og þegar loftsteinninn skall á Yukatan, en þó nærri því. Nærri öll stór skriðdýr Jarðar drápust, þar á meðal stóru gervikrókódílarnir þó krókódílarnir sjálfir lifðu af.

Allt í einu voru stór landsvæði Jarðar auð og tóm og hinir litlu dínósárusar nýttu sér það út í ystu æsar.

Þeir fluttu hvarvetna inn þar sem tómt var orðið og notuðu tækifærið til að stækka og þroskast. Og á undraskömmum tíma urðu til óteljandi nýjar tegundir og sumar risastórar.

Sannkallaðar risaeðlur.

Kjósa
30
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Flækjusagan

Mest lesið

Helmingi dýrari matarkarfa eina ráðið við sjúkdómnum
1
Skýring

Helm­ingi dýr­ari mat­arkarfa eina ráð­ið við sjúk­dómn­um

„Við höf­um oft íhug­að mjög al­var­lega að flytja bara út af þessu,“ seg­ir Anna Gunn­dís Guð­munds­dótt­ir um þær hindr­an­ir sem fólk með selí­ak mæt­ir hér á landi. Dótt­ir henn­ar, Mía, er með sjúk­dóm­inn sem er ein­ung­is hægt að með­höndla með glút­en­lausu fæði. Mat­arkarfa fjöl­skyld­unn­ar hækk­aði veru­lega í verði eft­ir að Mía greind­ist. Þá er það þraut­in þyngri fyr­ir fólk með selí­ak að kom­ast út að borða, panta mat og mæta í mann­fögn­uði.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár