Ásgeir H. Ingólfsson, skáld og blaðamaður, féll frá í nótt. Skömmu fyrir áramót greindist hann með krabbamein og nýverið fékk Ásgeir að vita að meinið væri ekki tækt til meðferðar.
Í félagi við vini sína fékk Ásgeir þá hugmynd að halda viðburðinn Lífskviðu, mannfagnað og listviðburð, og var hann fyrirhugaður í dag. Að ósk fjölskyldu Ásgeirs fer viðburðurinn eigi að síður fram þó forsendur hans séu breyttar.
„Vonumst til að sjá sem flesta og minnast mæts manns. Húsið verður opið frá tvö í dag og upplestur hefst uppúr sjö í kvöld,“ skrifa vinir hans í viðburðinn á Facebook þar sem tilkynnt er um fráfall Ásgeirs. Lífskviða fer fram á Götu sólarinnar við Kjarnaskóg á Akueyri.
Ásgeir var í viðtali í Heimildinni sem kom út í gær þar sem hann sagði frá því hvernig hann brást við þeim fregnum að hann væri að fara að deyja og hugmyndinni að Lífskviðu.
Þar benti hann á að hann væri ógiftur, barnlaus og ætti engar eignir. „Þegar ég heyri fyrst orðið krabbamein, að ég sé með krabbamein, þá eru engin börn sem ég þarf að hafa áhyggjur af og það er enginn arfur sem ég þarf að skipta. Það sem ég á eftir eru öll mín ókláruðu verk; þau sem ég er kominn áleiðis með og þau sem eru enn á byrjunarstigi,“ sagði hann.
„Ég held að við séum allt of mörg þar að hugsa, þegar við fáum að vita að við erum að fara að deyja, að við eigum ekkert meira eftir til að gefa“
Það er því ákveðin heimspeki sem liggur að baki Lífskviðunni. „Ég held að við séum allt of mörg þar að hugsa, þegar við fáum að vita að við erum að fara að deyja, að við eigum ekkert meira eftir til að gefa. Það er kannski rétt miðað við þann strúktúr sem við höfum komið okkur upp í kapítalismanum þar sem það að deyja þýðir, jú, að fólk syrgir og allt það, en að fólk gerir erfðaskrá og er að hugsa um þá peninga sem það á.
Fyrir mörg okkar eru mestu verðmætin hins vegar bundin í tölvum, stílabókum; í tölvunni eigum við myndir og myndbönd, texta og ljóð, uppskriftir og tónlist, alls konar bara eftir áhugasviði fólks. Kannski getur einhver farið í þessi gögn síðar en kannski ekki.
Það sem mig langaði að gera var að finna ljósmæður og ljósfeður og ritstjóra fyrir allt sem ég á, til að hjálpa mér að koma því í eitthvert form eða halda áfram með verkin sem ég byrjaði á. Kannski getur einhver klárað skáldsöguna sem ég er bara búinn að skrifa fyrstu tíu blaðsíðurnar af.“
Lífskviðan var því hugsuð sem fögnuður sköpunar þar sem Ásgeir ætlaði að deila sínum verkum, og því sem komið er af þeim, en einnig er von á fjölda annarra listamanna sem ætla að lesa upp ljóð, flytja tónlist, sýna myndlist.
Viðtalið við Ásgeir má lesa hér í heild sinni:
Athugasemdir