Það er ekkert leyndarmál að valdamesti maður heims er narsissisti, eins og yfir 200 heilbrigðisstarfsfólk varaði við fyrir forsetakosningar í Bandaríkjunum. Hvort sem það er oflætið, yfirlætið, þörfin fyrir aðdáun, markaleysi, skortur á samkennd eða yfirgengileg tilhneigingin til að nota fólk, eru þetta allt grunneinkenni persónuleika mannsins sem Bandaríkjamenn völdu til valda.
Vandinn við narsissista er að þeir ná oft árangri í stjórnmálum. Og áður en fólk veit af, er það farið að skilgreina sig sjálft út frá narsissistanum og hegða sér út frá hans forsendum, sem eykur enn áhrif hans.
Virði og virðing
Mörg okkar þekkjum að hafa átt samskipti við mismikla narsissista í lífi eða starfi. Önnur sérkenni narsissistans er að hann sýnir óhóflega viðkvæmni við gagnrýni, eins og mátti sjá þegar Bandaríkjaforseti brást ókvæða við beiðni biskups í Washington um að hann sýndi óttaslegnum minni máttar miskunn. Narsissistinn leggur áherslu á sjálfan sig í öllum umræðum og hann hefur tilhneigingu til að lofa upp í ermina á sér. Enn eitt er að narsissistinn reynir að stjórna öðrum, meðal annars með því að koma öðru fólki úr jafnvægi, oft með tveggja þrepa árás á sjálfsvirðingu fólks sem snýst um að sýna fyrst vanvirðingu og nýta síðan viðbrögð fólks til að réttlæta lítið virði þess.
Þegar fólk er undir áhrifum narsissista er erfitt að fara ekki úr jafnvægi, en mikilvægt er að vita að þetta hefur ekki með virði manns að gera, heldur er þetta vegna þess að hann sér ekki sjálfstætt virði í fólki. Fyrir honum eru aðrar manneskjur leið hans að eigin markmiðum. Þegar hann hefur fært til mörkin með yfirgangi getur hann nýtt sér þetta fólk sem sitt verkfæri, þar til það missir alfarið virði sitt. Í samskiptum við narsissista er ekki hægt að vinna, því hörð viðbrögð jafnt sem eftirgjöf leiða til skertrar sjálfsvirðingar.
Rétt viðbrögð
Nú þegar heimurinn er undir álögum narsissismans er eitt mikilvægasta verkefnið að verja sig fyrir honum.
Það er ekki skynsamlegt að búast við því að einstaklingur með narsissíska persónuleikaröskun muni breytast án inngrips og eigin vilja. Reiði gagnvart þeim er hluti af virkninni og gerir narsissistann að miðdeplinum í spennandi atburðarás. Þá er staðfest að narsissistinn hefur áhrif og þar með vald. Á tímum samfélagsmiðla jafngildir áheyrn tilvist. Þar trompar athygli traust.
„Hann hefur yfir að ráða öflugasta her jarðarinnar og hótar að beita honum, meðal annars gegn nágrannaþjóð okkar
Breytingin sem blasir við okkur er að narsissisti hefur raunveruleg völd. Hann hefur yfir að ráða öflugasta her jarðarinnar og hótar að beita honum, meðal annars gegn nágrannaþjóð okkar.
Viðbrögð margra eru að byrja að dansa eftir lagi narsissistans, vitandi að nú hefur hann óvéfengjanlegt umboð bandarísku þjóðarinnar.
Úkraína þarf á Bandaríkjunum að halda og hefur tekið upp þá meðvituðu stefnu að strjúka sjálfi Bandaríkjaforseta. Strax eftir forsetakjörið sagði Selenskí Úkraínuforseti að Trump hefði verið „mun sterkari“ en Kamala Harris: „Hann sýndi að hann getur það vitsmunalega og líkamlega,“ sagði Selenskí.
Narsissisminn nær til Íslands
Fyrrverandi forsætisráðherra Íslands setti á sig bindi eitt kvöldið í nóvember og hringdi myndsímtal í verðandi forseta Bandaríkjanna, vegna þess að óttinn við að verða fyrir tjóni af valdi narsissistans er gildismatinu yfirsterkari. Hagsmunir eru móðir siðferðisins og faðirinn vald.
Morgunblaðið, sem oft hefur tekið upp málstað Bandaríkjaforseta, var með svarið í leiðara í síðustu viku. Það var að gagnrýna forseta Íslands fyrir að hafa ekki nægilega mikið gengið til móts við hégóma narsissíska Bandaríkjaforsetans með því að leita eftir að fá að mæta í vígsluathöfn hans.
„En það var líka eftir því tekið að Halla Tómasdóttir forseti sendi Trump ekki heillaóskir við kjör hans í nóvember. Var það nú skynsamlegt, svona í ljósi þess að Trump ætlar að láta til sín taka á alþjóðavettvangi; maður sem sumir segja að sé hégómlegur?
Allt var í heiminum hverfult fyrir, líka hér á norðurhjara, en embættistaka Trumps mun hafa enn frekari áhrif á alþjóðamál og já, Ísland líka. Þeim mun skrýtnari er værukærð stjórnvalda um afstöðu verðandi Bandaríkjaforseta til síns minnsta bróður og bandamanns.“
Í sama streng tók forsetaframbjóðandinn og verðbréfasalinn fyrrverandi, Guðmundur Franklín Jónsson, þegar hann vildi breyta umfjöllun Ríkisútvarpsins til að falla að vilja Bandaríkjaforseta.
„Íslensk stjórnvöld verða einnig að horfast í augu við það hvernig málflutningur fjölmiðla getur haft áhrif á samskipti við mikilvæga bandamenn. Sérstaklega hefur verið bent á ósanngjarnan málflutning Ríkisútvarpsins (RÚV) í áraraðir gagnvart nýkjörnum forseta Bandaríkjanna. Slíkur skaðlegur málflutningur getur grafið undan samskiptum Íslands og Bandaríkjanna og dregið úr trúverðugleika Íslands sem trausts bandamanns,“ sagði hann í aðsendri grein í Morgunblaðinu.
Þannig er orðinn þrýstingur á að undirgangast narratífu narsissistans.
Við getum ímyndað okkur að ef til valdbeitingar kæmi, hver yrðu fyrst á Íslandi til að láta gildismatið víkja og virði annarra með.
Auðræðið
Vald beygir sannleika og siðferði eins og þyngdarafl tíma og rúm.
Á Íslandi liggur hættan á auðræði ekki lengur eingöngu í gegnum eignarhald útgerðarmanna á stærstu einkareknu ritstjórninni undir flokkstengdri stjórn og því hvernig auðlindafjölskyldur útgerðarinnar kaupa upp eignir í íslensku viðskiptalífi, heldur er hliðrænn veruleiki samfélagsmiðla undir valdi ríkustu manna heims sem nú eru í samkrulli við valdamesta mann heims.
„Vald beygir sannleika og siðferði eins og þyngdarafl tíma og rúm
Samruni stjórnmála-, auð- og tæknivalds er að verða í Bandaríkjunum. Forsetinn hefur boðað jafnvirði 70 billjóna króna samvinnuverkefni í þróun gervigreindar, Stargate aðgerðaáætlunina. Þróun gervigreindar hefur ekki síst áhrif á sjálfvirknivæðingu starfa, sem getur í reynd fækkað störfum hjá þeim hópi sem kaus forsetann vegna loforða hans um að færa störf heim.
Önnur áhrif skipta líklega meira máli. Gervigreind knýr og stýrir upplýsingaflæði til almennings, líka á Íslandi. Síðan mun hún fá aukið vægi í hernaði.
Heimur þar sem gríðarleg valdasamþjöppun er möguleg og þar sem fjarlægð og ógagnsæi er milli geranda og þolanda valdbeitingar er einstaklega hættulegur undir narsissisma.
Sjálfhverfa en ekki einangrunarhyggja
Einn mikilvægur misskilningur um trumpisma er að hann sé í eðli sínu einangrunarsinnaður, vegna áherslu á að leggja tolla, minnka framlag til alþjóðamála og færa störf heim. Sérfræðingar um allan heim gerðu þannig ráð fyrir að hættan af trumpismanum væri afmörkuð og fælist í sinnuleysi Bandaríkjanna gagnvart því að viðhalda vestrænum gildum í umheiminum. Trumpisminn setti Bandaríkin í fyrsta sæti (America First) og hinn stóraukni mikilfengleiki (Make America Great Again) fælist í því að horfa inn á við. Nú blasir hins vegar við að mikilfengleikinn felst í því að stækka landsvæði Bandaríkjanna og „Ameríka fyrst“ innifelur að yfirtaka önnur ríki með valdi, ef þörf þykir.
Þetta er vegna þess að einangrunarhyggja trumpismans er fylgifiskur sjálfhverfu, frekar en ráðandi eiginleiki narsissismans í hjarta hans.
Narsissistinn lofaði að enda innrás Rússa í Úkraínu á fyrsta sólarhring sem forseti. Niðurstaðan var að hann hótaði Rússum í raun minni afleiðingum en hann hótaði bandalagsríkinu Danmörku ef það gæfi ekki eftir nágrannalandið okkar, Grænland, til Bandaríkjanna. „Það gæti þurft að gera eitthvað,“ sagði hann, eftir að hafa neitað því að útiloka beitingu hervalds til að yfirtaka Grænland.
En hann ætlaði að hækka tolla og beita sköttum ef Pútín hætti ekki að reyna að innlima Úkraínu með innrás. Enda er fátt hægt að segja þegar Bandaríki Trumps hafa í reynd hótað að gera það sama við Grænland og Pútín gerði við Úkraínu.
Að halda í virðið
Í gær biðu ráðstefnugestir á efnahagsráðstefnunni í Davos í Sviss í ofvæni eftir ræðu Bandaríkjaforsetans, þar sem hann boðaði að Nató-ríki ættu að verja 5 prósent af þjóðarframleiðslu í hernaðarútgjöld og að tollar yrðu lagðir á alla framleiðslu, nema hún yrði færð til Bandaríkjanna, þar sem skattar yrðu einnig í lágmarki.
Að mörgu leyti er stefna forsetans lík öðru, hreinum viðskiptum, þar sem öllu er beitt í samningaviðræðum. Svokölluðum transaktionalisma, sem felur í sér að ekkert sé gert út frá siðaviðmiðum eða algildum gildum, heldur sé allt gert til þess að ná fram markmiðum sínum hverju sinni. Þessi viðskiptahyggja lítur í reynd fram hjá virði fólks og metur allt út frá fjárhagslegu virði. Þar er vald sannleikurinn.
„Traust hefur fjárhagslegt virði og kemur í veg fyrir að orku sé sóað í átök
En þegar traust er fjarlægt út úr samskiptum og því skipt út fyrir alla hugsanlega valdbeitingu verður til tap fyrir alla. Traust hefur fjárhagslegt virði og kemur í veg fyrir að orku sé sóað í átök, óvissu eða víxlverkandi undirbúning átaka.
Narsissismi og transaktionalismi eru núna ráðandi afl í heiminum. Þó svo að Bandaríkjaforseti megi ekki bjóða sig fram að nýju til forseta vegna takmörkunar stjórnarskrárinnar á fjölda kjörtímabila er rétt að gera ráð fyrir að hann eða fjölskyldumeðlimir hans muni finna leið til að vera áfram við völd. Sömuleiðis má gera ráð fyrir að gildismat rúms helmings Bandaríkjamanna muni áfram ala af sér leiðtoga sem í grundvallaratriðum sneiða hjá virði og rétti annarra.
Það sem við getum gert er að meina narsissismanum um að nema land og forðast að ganga honum á hönd með því að halda fast í sjálfsvirðinguna. Í fleiri ráðleggingum sérfræðinga til fólks um hvernig á að umgangast narsissista er lögð áhersla á að setja mörk, leita hjálpar og læra á einkennin. Hluti af því er að mynda samstöðu með öðrum löndum, til dæmis Norðurlöndunum og Evrópuþjóðum. Hvergi er mælt með því að nálgast narsissistann og undirgangast ofríki hans og fölsun á veruleikanum.
Því um leið og við föllumst á óttann útsetjum við okkur fyrir álögunum.
Athugasemdir (3)