„Hann er grunaður um fjárdrátt og svo sem margt annað sem mætti skoða í hans málum. Það sem okkur grunar er að hann hafi stundað fjárdrátt hérna alveg frá lok árs 2021 og að þetta séu verulegar upphæðir.“
Þetta segir Snæbjörn Brynjarsson, leikhússtjóri Tjarnarbíós, í samtali við Heimildina. Leikhúsið hyggst kæra Sindra Þór Sigríðarson, fyrrverandi framkvæmdastjóra leikhússins, fyrir fjárdrátt sem talinn er hafa átt sér stað frá árinu 2021.
Snæbjörn segir að upphæðin sé meira en 13 milljónir en ekki er hægt að fara út í nákvæma heildarupphæð sem stendur. „Ég er sjálfur í miklu áfalli og gáttaður á upphæðinni. Ég hafði ekki ímyndunarafl í að halda að það væri eitthvað glæpsamlegt í gangi né heldur að þetta væri á þessum skala.“
Grunur vaknaði eftir uppsögn Sindra
Sindra var sagt upp og lét af störfum um áramótin, en þá hafði Snæbjörn, sem hóf störf í haust, unnið með honum í nokkra mánuði. Eftir að Snæbjörn sneri aftur til starfa eftir jólafrí rakst hann á undarlega hluti í reikningum Tjarnarbíós og ákvað þá að fá endurskoðendaskrifstofu til að skoða málið.
„Nú hef ég verið að skoða þetta með endurskoðendum og lögmanni og við sjáum ástæðu til þess að leggja fram kæru. Ég vona að lögreglurannsókn á málinu muni gefa okkur einhverja heildarmynd af þessu.“
Sindri hafði verið framkvæmdastjóri leikhússins frá upphafi árs 2021 og varð prókúruhafi undir lok þess árs. „Þetta er langt tímabil sem þetta hefur átt sér stað á. Svo virðist vera alveg síðan Friðrik Friðriksson lét af störfum hérna. Þá var stutt millibilsástand áður en nýr leikhússtjóri var ráðinn inn þar sem Sindri tók við stöðu framkvæmdastjóra og sá um að greiða út laun og reikninga og allt annað sem viðkom rekstrinum,“ segir Snæbjörn.
Hafnaði ekki ásökununum
Leikhússtjórinn bætir því við að hann hafi fundað með Sindra og lögmanni og að þar hafi Sindri ekki neitað þessum ásökunum.
„Hann fetti fingur út í einhverjar einstakar færslur en hann virtist hafa ímyndað sér að hann gæti kannski samið sig einhvern veginn út úr þessu. Ég hef fyrst og fremst haft hagsmuni Tjarnarbíós og listamannanna hérna efst í huga. Fyrir mér er mjög mikilvægt að endurheimta sem mest af þessum peningum og það var það sem við lögðum upp með – en í ljósi þess hvað þetta eru alvarleg brot finnst mér ég ekki geta farið aðra leið en að kæra þetta,“ segir Snæbjörn, sem býst við því að kæran verði lögð fram í fyrramálið.
Spurður hvaða áhrif málið muni hafa á leikhúsið, sem er lítil og óhagnaðardrifin starfsemi styrkt af Reykjavíkurborg, segir Snæbjörn að öllu verklagi verði breytt. „Við þurfum alveg að endurskoða hvernig við skipum í stjórn. Við þurfum líka að tryggja að enginn einn aðili hafi aðgang að bankareikningum og svoleiðis – við erum nú þegar búin að bæta úr því.“
Þá segir Snæbjörn að þegar fram líði stundir sé hann tilbúinn að hitta alla listamenn og verktaka sem hafi verið í húsinu á þessum tíma sem um ræðir og fara yfir með þeim það sem varði þeirra mál. „Þannig að allt sé uppi á borðum og enginn þurfi að vera með ósvaraðar spurningar. Ég auðvitað harma rosalega þetta mál.“
Athugasemdir