Rimu Charaf Eddine Nasr og Nouru systur hennar verður vísað úr landi til Venesúela þann 21. janúar næstkomandi. Systurnar komu til Íslands á venesúelskum vegabréfum fyrir tæpum tveimur árum. Í Venesúela eru þær fæddar en fluttu fljótlega aftur til heimalandsins Sýrlands. Þær hafa því lítil sem engin tengsl við landið og hvorug þeirra talar spænsku. Á Íslandi búa bæði foreldrar þeirra og systkini.
Heimildin hafði samband við Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra og óskaði eftir því að ræða við hana um mál Rimu. Það svar barst hins vegar að ráðherrann hyggðist ekki tjá sig um einstök mál.
„Ég er að ganga í gegnum, sennilega, eitt stærsta áfall lífs míns,“ sagði Rima við Heimildina í desember um yfirvofandi brottvísun sína, en fjallað var um mál Rimu eftir að hún hlaut tilnefningu til framúrskarandi ungra Íslendinga árið 2024.
Viðurkenninguna, sem er veitt af Íslandsdeild alþjóðlegu ungmennahreyfingarinnar JCI, fékk Rima fyrir að hafa verið mjög virk í sjálfboðaliðastarfi – bæði fyrir Rauða krossinn og félagasamtökin Læti! Þar hefur hún meðal annars lagt sitt af mörkum við að aðstoða arabískumælandi börn sem komu mörg hver nýlega frá stríðshrjáðum svæðum.
„Athöfnin heiðraði mig og mér fannst fólk sjá mig sem manneskju. Stærstan hluta af lífi mínu leið mér eins og ég mætti ekki segja neitt, hafa skoðun á neinu, eða mega vera eins og ég er,“ segir Rima.
Tveir valkostir, hvorugur auðveldur
Spurð hvað hún muni til bragðs taka ef henni verður brottvísað segist Rima ekki vita það. „Við höfum verið að einblína á það sem við getum gert hér á Íslandi. Við höfum ekki leitt hugann að því hvað við munum gera ef við þurfum að fara. Það er alveg óljóst.“
Verði þær sendar til Venesúela eru tveir valkostir sem standa systrunum til boða – að dvelja þar eða fara til Sýrlands. „Sama hvað við veljum mun mér ekki líða vel. Ef ég vel að vera í Venesúela þá verður það ekki auðvelt. Það er ekki heldur auðvelt að vera í Sýrlandi, þótt þar þekki ég fólk og kunni tungumálið. Þar er enn svo mikill glundroði. Mig skortir hugrekki til að fara þangað.“
Sem kunnugt er var einræðisstjórn Bashars al-Assads steypt af stóli snemma í síðasta mánuði og Assad flúði úr landi. Um árabil hefur geisað blóðug borgarastyrjöld í Sýrlandi og enn er óljóst hvað framtíðin ber í skauti sér.
Nú stendur yfir undirskriftasöfnun til að mótmæla brottvísun systranna. Dómsmálaráðherra er þar hvattur til að endurskoða mál þeirra og hætta við brottvísunina. Þegar þetta er skrifað hafa á sjöunda hundrað skrifað undir.
Fékk viðurkenningu frá forsetanum
Á verðlaunaafhendingunni í desember veitti Halla Tómasdóttir forseti, verndari verðlaunanna, öllum þeim sem voru tilnefnd til verðlaunanna, þar á meðal Rimu, viðurkenningu. Heimildin sendi nýlega forsetaembættinu fyrirspurn um það hvað forsetanum fyndist um yfirvofandi brottvísun Rimu.
„Sem kunnugt er hefur forseti ekki tök á því að grípa inn í mál einstaklinga sem eru til meðferðar í kerfinu. Forseti á hinsvegar í virku samtali við fulltrúa stjórnvalda og beitir sér leynt og ljóst fyrir því að mennska og kærleikur séu ávallt höfð að leiðarljósi í okkar samfélagi,“ sagði í svari frá embættinu.
Rima segir í samtali við Heimildina að hún hafi sjálf haft samband við forsetann. „Ég skrifaði henni bréf og sendi á skrifstofuna hennar. Ég er enn að bíða eftir svari.“
Athugasemdir