Samkvæmt nýrri könnun Prósents eru 45 prósent Íslendinga hlynnt aðild að Evrópusambandinu (ESB). Hærra hlutfall, eða 58 prósent, er hlynnt þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort að hefja eigi aðildarviðræður líkt og ný ríkisstjórn hefur boðað að eigi sér stað eigi síðar en 2027.
Þótt hlutfall þeirra sem vilja að Ísland gangi í Evrópusambandið sé minna en helmingur landsmanna eru talsvert færri, eða 35 prósent, sem eru andvígir aðildinni. Tuttugu prósent hafa ekki myndað sér skoðun.
Samkvæmt niðurstöðum Maskínu eru launþegar í fullu starfi og fólk á eftirlaunum hlynntast aðild en atvinnurekendur andvígastir.
Kjósendur Sjálfstæðisflokks andvígastir atkvæðagreiðslu
Sem fyrr segir vill meirihluti þjóðarinnar, 58 prósent, að kosið verði um aðildarviðræður að ESB. Andvígir atkvæðagreiðslu eru 27 prósent en 15 prósent eru hvorki né. Þau sem kusu Pírata, Samfylkinguna og Viðreisn í síðustu alþingiskosningum eru hlynntust atkvæðagreiðslu um aðildarviðræður en kjósendur Sjálfstæðisflokksins, Lýðræðisflokksins og Miðflokksins eru andvígastir.
Aðeins minni áhugi á atkvæðagreiðslu virðist vera meðal yngsta aldurshópsins, 18-24 ára. Þar er aðeins helmingur sem vill að kosið verði. Mestur áhugi er meðal 45-54 ára, í þeim hópi vilja 65 prósent ganga að kjörborðinu.
Athugasemdir