Fargjöld í Strætó munu hækka þann 8. janúar næstkomandi. Hækkunin er 3,1 prósent á stökum fargjöldum en 3,7 prósent á tímabilskortum.
Þetta þýðir að stakt fargjald hækkar úr 650 krónum upp í 670 krónur. Þá munu 30 daga nemakort og kort fyrir ungmenni og aldraða kosta 5.600, sem er 200 krónum meira en áður. Verð á Klapp plastkortum helst óbreytt í 1.000 krónum.
„Ákvörðun um gjaldskrárbreytingu var tekin af stjórn félagsins á fundi þess 13. desember sl. og er í takt við áætlaða hækkun neysluverðsvísitölu þessa árs. Gjaldskrárbreytingarnar taka til þjónustu Strætó á höfuðborgarsvæðinu en engar breytingar verða á gjaldskrá á landsbyggðinni,“ segir í tilkynningu frá Strætó.
Verðskrá Strætó hækkaði um 11 prósent að meðaltali í upphafi árs 2024, en stakt fargjald hækkaði þá úr 570 krónum upp í 630 krónur. Önnur verðhækkun átti sér stað 1. júlí 2024 en þá hækkaði fargjaldið upp í núverandi verð, 650 krónur.
Athugasemdir (1)