Ljúft er að greina frá því að fangelsin voru friðsæl yfir hátíðirnar, án neins alvarlegs atviks eða sjáanlegrar vímuefnaneyslu, sem endurspeglar bein áhrif starfs Afstöðu og aðferða. Við erum mjög stolt af okkar fólki, óháð því hvort sem um er að ræða vistfólk fangelsa eða sjálfboðaliða. Þess ber að geta að snemma á nýju ári, 2025, fagnar Afstaða 20 ára afmæli sínu og horfir félagið fram veginn með bjartsýni og staðráðið að halda áfram að gera líf fanga og þeirra sem standa þeim næst bærilegra. Afstaða er ekki aðeins félag heldur samfélag sem vinnur stöðugt í þágu heildarinnar og vonandi lánast okkur stuðningur nýrrar ríkisstjórnar til þess að gera enn betur.
Árið 2024 var annasamt en til að mynda voru starfrækt vettvangsteymi, lögfræðiaðstoð, ráðgjafaþjónusta og sólarhringssímaþjónusta en starf félagsins er eingöngu unnið af sjálfboðaliðum. Ár hvert erum við að sinna yfir 2000 málum sem er mjög há tala og með stærra hlutverki félagsins í meðferðarmálum í fangelsunum mun sú tala hækka til muna á nýju ári.
Vettvangsteymi Afstöðu hefur eflst mjög á árinu 2024 en það er byggt á hugmyndum um jafningjastuðning, en auk f.v. dómþola er teymið skipað fagfólki (félagsráðgjöfum, geðhjúkrunarfræðingum o.fl. fagstéttum) sem fer reglulega í fangelsin og ræðir við vistmenn. Vettvangsteymið hefur unnið sér traust á jafningjagrundvelli og sinnir meðal annars sálgæslu þegar andlát verður í fangelsunum. Tekið hefur verið á móti erindum sem tengjast fjármálum, húsnæðismálum, atvinnumálum og heilbrigðismálum og hafa félagsráðgjafar okkar veitt aðstoð í samskiptum við félagsráðgjafa á vegum sveitarfélaga, Virk og Vinnumálastofnun svo fáein dæmi séu tekin.
Lögfræðiaðstoð Afstöðu hefur verið aðgengileg nær allan sólahringinn í gegnum síma og tölvupóst þar sem einn lögfræðingur hefur sinnt, í sjálfboðavinnu, öllum þeim erindum sem berast félaginu. Erindin voru á árinu að meðaltali fjögur á dag aðeins þegar kemur að lögfræðiaðstoðinni. Þau erindi sneru að eftirfylgni mála, bréfaskriftum o.s.frv. Einnig hefur hann sinnt umsögnum um lagafrumvörp til nefndarsviðs Alþingis, verið í samskiptum við umboðsmann skuldara vegna skuldamála fanga, sinnt lögfræðiráðgjöf til aðstandenda og annarra auk þess að vera í sambandi við tilnefnda verjendur sem sumir sinna umbjóðendum sínum illa eftir að dómur fellur.
Umsagnir um lagafrumvörp
Í meira en áratug hefur Afstaða lagt áherslu á að koma til nefndarsviðs Alþingis umsögnum um frumvörp til laga er snerta málaflokka félagsins. Alþingi hefur síðan á undanförnum árum sent Afstöðu óskir um að fá umsagnir frá félaginu. Árið 2024 var þar engin undantekning, en eitt mikilvægasta málið á árinu var ósk um umsögn við fyrirhugaða grænbók um breytingar á lögum um fullnustu refsinga. Hugtakið „grænbók“ er fengið frá Evrópusambandinu sem fyrst vinnur s.k. grænbók sem er stöðumats- og valkostagreining á viðkomandi málaflokki en síðar „hvítbók“ þar sem tekin er afstaða til tiltekins máls eða þeirra áskorana sem takast þarf á við. Óvanalegt er þó að óskað sé umsagna við „fyrirhugaða grænbók“. Yfirleitt er óskað umsagna við fyrirliggjandi grænbók þar sem stöðumats- og valkostagreining liggur fyrir. Afstaða sendi í gegnum samráðsgátt ítarlega umsögn um fyrirhugaða grænbók í lok júní á árinu og vonast til að á næsta ári muni ferlið (þ.e. grænbók og loks hvítbók) klárast í formi lagafrumvarps til Alþingis.
Starfshópar
Á árinu hefur formaður tekið þátt í starfi óformlegs starfshóps á vegum ríkislögreglustjóra, fagráði hjá Rauða krossinum og vinnu- og starfshópa ýmissa ráðuneyta. Þá á Afstaða í góðum samskiptum við nefndarsvið Alþingis, umboðsmann Alþingis, umboðsmann barna, Amnesty International og Fangelsismálastofnun. Framhaldsskólar, háskólar, Lögregluskólinn, Fangavarðaskólinn og ýmis samtök hafa einnig leitað til Afstöðu eftir fræðslu. Þá hefur borgaraþjónusta utanríkisráðuneytisins í auknum mæli leitað til Afstöðu vegna íslenskra ríkisborgara sem hafa verið sviptir frelsi á erlendri grundu. Þá á Afstaða í miklum samskipum við félög eins og Matthildarsamtökin, ÖBÍ réttindasamtök, ADHD samtökin og mörg fleiri sem tengjast málefnum Afstöðu.
Hlaðvarp
Í upphafi árs hóf göngu sína að nýju hlaðvarp Afstöðu „Frelsið er yndislegt“. Þáttastjórnendurnir, fengu til sín fjölmarga gesti til að ræða ýmsar hliðar betrunarmála. Komu t.d. í viðtal fyrrverandi vistmenn, starfsmenn, aðstandendur vistmanna sem og aðrir sem koma að málaflokknum; lögfræðingur Afstöðu, umboðsmaður skuldara, kennslustjóri fangelsa, vímuefnaráðgjafi og margir fleiri. Það hefur lengi verið trú Afstöðu að aukin umfjöllun um málaflokkinn muni leiða til upplýstari umræðu bæði meðal almennings og innan stjórnkerfisins. Hlaðvarpið er þannig mikilvægur þáttur í opna umræðu um betrunarmál og hefur á árinu fengið gífurlega góðar viðtökur. Hlaðvarpið mun halda áfram á nýju ári.
Alþjóðastarf
Afstaða hefur um árabil verið í samskiptum við þriðja geirann á Norðurlöndunum. Formaður og lögfræðingur fóru til Finnlands í apríl þar sem alþjóðafulltrúi fangelsisyfirvalda tók á móti þeim. Farið var í heimsókn í fjögur fangelsi auk þess sem systursamtökin RETS og Aggredi voru heimsótt. Þá var fundað með sendiherra Íslands. Formaður og lögfræðingur félagsins fóru til Noregs á 20 ára afmælishátíð verkefnis norska Rauða krossins „Nettverk etter soning“ en Afstaða hafði frumkvæði af því að verkefnið var tekið upp á Íslandi árið 2018 af Rauða krossinum á Íslandi og nefnist þar „Aðstoð eftir afplánun“. Ætlunin er að efla enn frekar samstarf á nýju ári við samtök á Norðurlöndunum sem sinna svipuðu hlutverki og Afstaða þó segja megi að Afstaða sé að mörgu leyti einstakt félag á heimsvísu.
Meðferðargangur
Meðferðargangurinn á Litla-Hrauni, sem opnaður var á ný í nóvember, er dæmi um hvernig Afstaða leggur áherslu á endurhæfingu og samfélagslega endurkomu. Þetta er dæmi um bein áhrif Afstöðu á betrunarstarf innan fangelsana. Vikulegir hópfundir sem sjálfboðaliðar okkar halda eru kjarninn í þessu starfi, þar sem þeir hvetja vistmenn til að taka virkan þátt í sínu eigin bataferli og þar sem farið er yfir stöðu síðustu viku og rætt hvað má gera betur. Þessir fundir eru líka tækifæri til að hvetja vistmenn til að taka þátt í úrræðum sem standa þeim til boða, svo sem AA funda og annað sem í boði er í fangelsunum.
Starfsemi Afstöðu árið 2024 var bæði umfangsmikil og flókin. Gríðarlegur fjöldi vinnustunda liggur að baki og allar í sjálfboðavinnu. Þannig getur það ekki verið um ókomna tíð. Það er von okkar hjá Afstöðu að á afmælisári komi stjórnvöld til með að ljúka því verki sem tvívegis hefur verið á lokametrum en frestað jafn oft vegna óvæntra stjórnarslita, þ.e. að tryggja félaginu fjárhagslegan grunn, til þess að Afstaða geti um ókomin ár sinnt þeim mikilvægu verkefnum sem á borð félagsins rata og með því létt undir hjá stofnunum, sveitarfélögum og ríkisvaldinu sjálfu.
Athugasemdir