Hvað lærði ég á árinu 2024, sem er nú senn liðið?
Persónulega var árið mér erfitt, missir og sorg settu svip sinn á það. Það tekur langan tíma að vinna úr slíku og margt annað fellur í skuggann af slíkum áföllum. Þá er ómetanlegt að eiga traust bakland og góða að, og færir mér enn heim sanninn um að án fjölskyldu, vina og heilsu eigum við ekki neitt.
Annars höfum við öll verið að fylgjast með því sama á árinu. Ólympíuleikum, afdrifaríkum kosningum um allan heim, fáránlega umfangsmiklum tónleikaferðum, eldgosum, jarðskjálftum, gervigreindarmennum og týndum köttum. Litlum og stórum atburðum og málefnum sem við gerum mishátt undir höfði, missum okkur yfir á samfélagsmiðlum í hið klassíska íslenska kortér og gleymum jafnharðan.
Undir þessu öllu hefur svo hljómað, eins og einhver hryllileg ógeðssinfónía, sprengidrunur og þjáningaróp fólksins sem Ísraelar eru að fremja þjóðarmorð á í Palestínu, með fullri vitund og velþóknun áhrifamikilla yfirvalda víða um heim og hér heima líka. Þjóðarmorð í beinni útsendingu í símum okkar allra. Sem gerir allt annað að hjómi og hégóma. Ég hefði ekki trúað því fyrirfram að heimsbyggðin léti þetta gerast. Og halda áfram að gerast.
Og stríð geisa víðar um heim, milljónir eru á flótta til að bjarga lífi sínu, eða í leit að betra lífi. Það er með miklum ólíkindum að fylgjast með íslensku stjórnmálafólki sem fæðst hefur með heilu silfurhnífaparasettin í munni loka augunum fyrir því að við erum öll hluti af þessari jörð og mannkyninu sem hana byggir og getum ekki fríað okkur ábyrgð á alþjóðastjórnmálum, fólki á flótta og loftslagsmálum frekar en aðrir. Af hverju þurfum við að kjósa æ ofan í æ svona illa gefna kapítalista til að stjórna landinu? Ég og fleiri anda þó væntanlega léttar eftir að sólstöðustjórnin tók við völdum, mér líður eins og Frodo eftir að hann eyðilagði hringinn í Mordor þegar ég vakna og sjallarnir eru ekki lengur við völd. Ég næ loks andanum.
Tveir frasar sem ég tek með mér inn í nýja árið eru a) sársaukinn ferðast milli kynslóða þar til einhver er tilbúinn að takast á við hann, og b) byltingu strax!
Sá fyrri ætti að tala til alls hins miðaldra millistéttarfólksins sem býr við þann lúxus að geta stundað sjálfsvinnu og keypt sér alls konar andlega ráðgjöf. Sá seinni á einfaldlega alltaf við. Það þarf alltaf að vera að bylta ástandi einhvers staðar. Fólk er nefnilega oftast tregt til breytinga og rígheldur í gamlar aðstæður, hversu vondar sem þær eru.
Uppgötvun ársins: Kneecap. Hljómsveitin er geggjuð, bíómyndin sú besta sem ég sá á árinu. Sjáið hana strax. Og lærið nokkra frasa í írsku í leiðinni. Írar eru bestu frændur okkar og írska fallegasta málið.
Hjólhýsadvöl ársins: Í Portrane á Írlandi, með gufubaði við ströndina og sjósundi á hverjum degi.
Persóna í leikriti sem mig langar mest að kynnast-ársins: Óli Gunnar í Óbærilegum léttleika knattspyrnunnar, sem ég sá tvisvar, og vildi óska að ég þekkti hann í alvöru.
Menn gærdagsins: Súrir pungar sem stíga nú fram hver á eftir öðrum til að lýsa yfir vantrausti á nýja stjórnarsamstarfið, vantrú á nýja stjórnarsáttmálann og almennri gremju með að vera ekki lengur aðal. Hverjum er ekki sama hvað ykkur finnst?
Annars er ég nokkuð hress. Komin á þann góða stað í lífinu að HAMA (hræðslan við að missa af, eða á ensku fear of missing out) hefur vikið fyrir GAMA (gleðin yfir að missa af, eða á ensku, joy of missing out) og finnst kaffið langbest í mínu eigin eldhúsi. Kannski klárast breytingaskeiðið á nýja árinu, ég væri alveg til í það Athbhliain faoi mhaise daoibh!
Höfundur er skáld
Athugasemdir