Þegar ég reyndi að hugsa um hvað hefði borið hæst í íslensku samfélagi á árinu þá datt mér fátt í hug sem hreyfði sérstaklega við mér. Undanfarin fimm ár eða svo hef ég sérhæft mig í sögu sautjándu og átjándu aldar og því meira sem ég les og kynnist samfélaginu eins og það var fyrir 300 árum hef ég orðið sannfærður um að mörg þeirra vandamála mannfélagsins sem heltaka opinbera umræðu á Íslandi með reglubundnu millibili séu ekki raunveruleg heldur einhvers konar síbylja.
Þetta kann að hljóma hrokafullt og auðvitað eru margir á Íslandi sem búa við þröngan kost, ætlunin er ekki að gera lítið úr því, en eftir því sem ég dvel meira í fortíðinni hefur vettvangur dagsins í auknum mæli tekið á sig mynd dægrastyttingar fyrir fréttafíkla í stað einhvers sem máli skiptir.
Orkumálin og hvalveiðar þá og nú
Orkumál voru töluvert til umræðu á árinu, og sitt sýnist hverjum um hvort hægt sé að tala um orkuskort á Íslandi. Það er auðvitað ekki gott, en þá má minna sig á það að fyrir 300 árum sótti íslenskt hagkerfi nær alla sína orku til ljóstillífandi plantna. Vöðvaafl fengum við með áti á dýrum og afurðum þeirra, auk fisks, ýmissa hlunninda og smávegis af innfluttum kolvetnum. Hitaorka var fengin með því að ganga á auma birkiskóga landsins auk þess sem mór var brenndur og jafnvel þang. Við fiskveiðar gátu menn nýtt sér orku vinds og sjávarfalla en þá er það eiginlega upptalið. Við vorum sennilega eitt þeirra ríkja í Evrópu þar sem minnst orka var beisluð í þágu hagkerfisins. Nú rífast Íslendingar hins vegar um það hvort við ættum að fara flytja orku út til Evrópu eða ekki.
Þetta var enn annað árið þar sem hvalveiðar Kristjáns Loftssonar voru í deiglunni og margir eru á því að við ættum að hætta að veiða hvali af hugmyndafræðilegum ástæðum. Það kann að vera rétt en fyrir 300 árum deildu Íslendingar ekki um siðferðislegar forsendur hvalveiða, heldur um það hvernig ætti að skipta hvölum sem rak á fjörur—í harðæri gat slíkt skilið milli lífs og dauða. Við búum hins vegar við þau forréttindi í dag að geta nálgast málið á heimspekilegum forsendum.
Húsnæðismálin í aldanna rás
Íslenski fasteignamarkaðurinn var aftur ofarlega á baugi (eins og hann hefur sennilega verið frá landnámi). Eitthvað í gangverki hagkerfisins — gjaldmiðill, ferðaþjónusta, eldgos á Reykjanesskaga, covid eða frekir verkalýðsforingjar? Um þetta er fólk ekki sammála — gerir það að verkum að vextir eru jafnan háir á Íslandi og ungt fólk á sífellt erfiðara með að kaupa sína fyrstu íbúð. Miðað við umræðuna mætti ætla að þetta væri séríslenskt vandamál en miðað við kynni mín af útlendingum er fólk jafnan ósátt við stöðuna á fasteignamarkaðnum þar sem það býr.
Hvað sem því líður þá var það ekki stefna stjórnvalda á Íslandi fyrir 300 árum að fólk eignaðist sitt eigið heimili. Langflestir Íslendingar voru leigjendur á jörðum sem mikill minnihluti landsmanna auk konungs og kirkju átti. Ábúðaröryggi var lítið, oft samið til árs í senn, og algengt var að leiguliðar þyrftu að inna af hendi vinnukvaðir—svo sem að róa til fiskjar á báti landeigenda, tína æðardún eða stunda sölvatekju—til þess að greiða fyrir búsetu á jörð. Einhver kynni að segja að staðan í dag væri einungis tilbrigði við þetta sama stef en ljóst má þó vera að hún hefur batnað töluvert.
Hinar raunverulegu forsendur frelsis og framfara
Skipti þá árið 2024 einhverju máli? Franski sagnfræðingurinn Fernand Braudel taldi að sögulegum tíma mætti raða í þrjú misþykk lög. Efsta og þynnsta lagið er saga atburða og einstaklinga, sem á sér stað frá ári til árs og skiptir oft minna máli en margir halda— er að miklu leyti hjóm og hávaði. Í það lag myndu flokkast kosningar, uppreisnir, stríð og flest það sem fjallað er um í fréttaannálum hvers árs. Í miðjunni var saga hagsveiflna, ríkja og heimsvelda sem má fjalla um á skala áratuga og jafnvel alda. Dýpsta lagið, samkvæmt Braudel, á sér svo stað á jarðsögulegum skala; þar undir eru hægfara breytingar á umhverfi og loftslagi sem mannsaugað nemur ekki en hafa engu að síður grundvallaráhrif á söguna.
Ef við þysjum út og virðum fyrir okkur þetta dýpsta lag þá er kaldhæðni örlaganna auðvitað að hinar stórkostlegu framfarir og frelsisaukning sem hefur átt sér stað síðustu þrjár aldir eða svo, sem hefur gert það að verkum að fjöldi jarðarbúa hefur meira en tífaldast og Íslendingar hafa getað leyft sér að flýja til afrískra eyja í svartasta skammdeginu og fílósófísera þaðan um veiðar á langreyðum, hafa byggst á því að leysa úr læðingi milljónir ára af orkubirgðum á nokkrum áratugum og raska þannig alvarlega skilyrðum til mannlífs á jörðinni. Engar auðveldar lausnir virðast vera við þessari klemmu en 2024 var sannarlega enn annað árið þar sem okkur mistókst að svo mikið sem skilja forsendur hennar.
Athugasemdir (2)