Þegar ég kvaddi yfirmanninn minn á gamla vinnustaðnum mínum fyrir ári síðan sagði hann við mig: „Mundu svo bara að borga staðgreiðsluna og skilagreinarnar 15. hvers mánaðar og vaskinn 5. annan hvern mánuð. Þá verður þetta ekkert mál.“ Ég brosti og hló og sagði eitthvað „Haha, já, akkúrat! Takk!“ en inni í mér hugsaði ég FOKK – hvað er hann að tala um?
Þetta ár sem er að líða hefur nefnilega verið ár breytinga og áskorana. Ár stemningar, stolts og gleði. Ár margra hatta og handabanda – árið sem ég stofnaði fyrirtæki. Hönnunarstofuna Strik Studio – sem verður eins árs í næsta mánuði. Ef það væri barn væri það líklega að reyna að byrja að labba og ólíklega með leikskólapláss en það er nú önnur saga. En já, stofna fyrirtæki – með lítið sem ekkert í hendi með þremur gaurum. Tvo þeirra hafði ég bara þekkt í nokkrar vikur. En jújú, þessi séns var tekinn, ekkert mál. Hoppað út í djúpu laugina án þess að halda fyrir nefið.
„Það góða er, að í rekstri getur maður alltaf spurt einhvern sem veit. Eða notað Google. Það er nefnilega ekki hægt í púslinu.
En þegar ég ákvað að gera það vissi ég að sama hvað þá þyrfti ég að halda kúlinu. Ég var að fara rækilega út fyrir þennan svokallaða þægindaramma en ég gat ekki látið það vera stóra málið eða tilganginn. Þannig ég hef reynt að hugsa ekki mikið um það. Frekar þá um hvað ég er að læra mikið og hvað er gaman. Og hversu ógeðslega öfundsjúk ég væri ef einhver annar hefði stofnað Strik Studio með fyrrnefndum gaurum og ég væri bara enn þá að gera það sama. Mikilvægast af öllu er að muna að vandamálin sem koma upp eru alltaf töluvert minni en maður heldur fyrst. Og, viti menn, í hverjum mánuði hefur „FOKK“ augnablikunum og skilaboðunum til þjónustuvers Payday fækkað. Og á meðan ég man: Guð blessi þjónustuver Payday.
En allavega – hver er þá lærdómur þessa árs? Hvað tek ég með mér? Það er nefnilega þannig að ég púsla alltaf í kringum jólin. Tek eitthvað eitt púsl í stærri kantinum og reyni að leysa það á milli jólaboða. Núna er ég að púsla 1.000 stykkja púsli með Mjallhvíti og dvergunum sjö og það getur vissulega tekið á taugarnar. Ekki eru bara dvergarnir átakanlega erfiðir viðureignar heldur eru svo líka alls konar litlar myndir með og dýr og tré og blóm og svona sem þarf að finna út úr. Eitt kvöldið fattaði ég að þetta fyrsta ár í rekstri hefur verið eitt risastórt púsluspil. Í fyrsta lagi eru þetta auðvitað margir hlutir, verkefni, fundir, hlutverk og hittingar sem þarf að púsla saman svo að heildarmyndin komi í ljós. En svo er það óvissan. Þú opnar kassa með þúsund stykkjum með alls konar litum og mynstrum og við fyrstu sýn virðist þetta vera óskiljanlegt og stundum næstum því óyfirstíganlegt. Þú veist samt alveg hvernig þetta á að líta út, en hvernig? Þá er best að byrja bara að raða þessu saman. Eitt púsl í einu. Maður byrjar á rammanum og þegar hann er kominn er hægt að vinna með restina. Inn á milli tekur maður púsl úr hrúgunni, horfir á það og hugsar – hvað í ósköpunum er þetta? Eins og til dæmis þegar ég heyrði fyrst um skilagreinar. En það góða er, að í rekstri getur maður alltaf spurt einhvern sem veit. Eða notað Google. Það er nefnilega ekki hægt í púslinu.
Athugasemdir