Ég fór að skoða vegginn í Breiðholti, þennan græna sem varpar skugga inn í stofur nágranna sinna. Ég lagði bílnum og tók hann inn. „Þarna er hann,“ sagði ég: „Veggurinn“ og Hófí, kærastan mín, minnti mig á að við værum á hraðferð. Veggurinn er ljótur, það þarf enginn að velkjast í vafa um það.
Þar sem ég sat og horfði á vegginn gat ég ekki annað en velt því fyrir mér hversu spesifísk þessi dystópía er. Nágrannar veggjarins hafa sent fyrirspurnir, ábendingar og kvartanir til skipulagsyfirvalda um gang mála svo mánuðum skiptir og þeir voru fullvissaðir um að veggurinn yrði ekki svona hár. Það væri nánast útilokað að fimm hæða, gluggalaust vöruhús myndi rísa á reitnum. „Það er bjúrókrasían,“ sagði ég við Hófí. „Við eigum ekki séns á móti bjúrókrasíunni. Hún er fjölhausa skrímsli, ef við höggvum á eitt vaxa tvö í þess stað. Og það er engin leið fyrir leikmann að fá nokkra innsýn í eðli skrímslisins, það lýtur einhverjum lögmálum sem okkur er ekki ætlað að skilja.“
„Kapítalið er ekki manneskja og er þar af leiðandi ófært um að skilja þarfir manneskjunnar
Hófi sagði að ef við vildum ná að kaupa okkur jólatré fyrir matarboðið mættum við engan tíma missa. „En kannski er það kapítalið. Í skynsömu samfélagi myndi þetta aldrei gerast. Í samfélagi þar sem við sjáum hvert annað sem fólk og berum virðingu fyrir þörfum hvert annars hefði þessi veggur aldrei risið og sólarljós og útsýni út um manns eigin glugga væru ekki forréttindi,“ sagði ég. „En kapítalið er ekki manneskja og er þar af leiðandi ófært um að skilja þarfir manneskjunnar.“
Mér fannst veggurinn vera að stækka fyrir augum mér. Allt í einu var veggurinn orðinn tíu hæðir, svo tuttugu og áður en ég vissi var veggurinn búinn að gleypa sólina. Samspil peningaafla og ómarkvissrar stjórnsýslu sjáanleg frá tunglinu þangað til að veggurinn sló tunglið af sporbaug sínum og möndulhalli jarðar verður 0 gráður. Ég heyri fólk öskra, þau hljóta að vera að kalla á hjálp. Nei, hvað eru þau að segja? „Við erum að vinna að viðbragðsáætlun til þess að ferlarnir okkar geti betur brugðist við þegar svona lagað gerist.“ Landið allt öskrar þetta í kór, heimurinn allur.
Ég ranka við mér í Garðheimum. Við veljum jólatré. Á heimleiðinni sé ég vegginn, hann er enn fimm hæðir.
Athugasemdir