Þessi grein birtist fyrir meira en mánuði.

Morðingi hylltur sem alþýðuhetja: „Viðbrögðin líkjast uppreisn“

Við­brögð al­menn­ings við svip­legu morði á for­stjóra eins stærsta sjúkra­trygg­inga­fé­lags Banda­ríkj­anna hafa kom­ið mörg­um á óvart og hrund­ið af stað mik­illi um­ræðu þar í landi. Sveinn Máni Jó­hann­es­son, nýdoktor í sagn­fræði við Há­skóla Ís­lands, seg­ir árás­ina tala inn í djúp­stæða gremju sem marg­ir Banda­ríkja­menn finna til gagn­vart heil­brigðis­kerf­inu og vinnu­brögð­um einka­rek­inna sjúkra­trygg­inga­fé­laga. Óljóst er hins veg­ar hverju þessi um­ræða muni skila.

<span>Morðingi hylltur sem alþýðuhetja: </span> „Viðbrögðin líkjast uppreisn“
Hetja eða skúrkur? Eftir mikla leit var 26 ára gamall maður, Luigi Mangione, handsamaður vegna gruns um að hafa myrt Brian Thompson, forstjóra UnitedHealthcare. Fjölmiðlar og stjórnmálamenn hafa fordæmt morðið á meðan fjölmargir almennir borgarar hafa réttlætt á ódæðið á í færslum hafa birst víða á samfélagsmiðlum. Mynd: /AFP

Eitt af stærstu fréttamálum ársins er án efa morðið sem var framið í New York snemma í mánuðinum, þar sem forstjóri eins stærsta sjúkratryggingafyrirtækis Bandaríkjanna var ráðinn af dögum fyrir utan hótel í miðbæ Manhattan. Brian Thompson var forstjóri UnitedHealthcare sem er dótturfyrirtæki UnitedHealth Group, sjúkratryggingasamsteypu sem metin er á 560 milljarða Bandaríkjadollara.

Árásin náðist á öryggismyndavél og myndband af morðinu fór fljótlega í mikla dreifingu á frétta- og samfélagsmiðlum og vakti mikinn óhug. Málið hefur fangað athygli fólks víða um heim og þykir hið undarlegasta.

Það sem hefur ekki síður vakið athygli eru óvænt viðbrögð almennings í Bandaríkjum við skotárásinni. Margir virðast sýna árásinni nokkurn skilning og sumir hafa gengið svo langt að fagna morðinu og jafnvel gert grín á kostnað hins látna. Þetta má glöggt greina í fjölmörgum færslum sem hafa verið birtar víða á samfélagsmiðlum.

Sveinn Máni Jóhannessonnýdoktor í sagnfræði við Háskóla Íslands.

Sveinn Máni Jóhannesson, nýdoktor í sagnfræði við Háskóla Íslands, segir í samtali við Heimildina að umræðan sem árásin hefur hrundið af sé stórmerkileg og beri vitni um þá miklu gremju sem kraumi undir yfirborðinu gagnvart heilbrigðiskerfinu í Bandaríkjunum. Óánægjan gangi þvert hið pólitíska litróf og Sveinn segir að það hafi að vissu leyti ekki komið á óvart að hún hafi brotist út með þessum hætti.

Hann segir ofbeldi alltaf hafa einkennt bandarísk stjórnmál en ofbeldið hafi frekar beinst að stjórnmálafólki og síður að fólki úr viðskiptalífinu. Hann segir að skilgreina megi óvænt viðbrögð almennings sem nokkurs konar uppreisn. Óljóst er hins vegar hvaða áhrif þessi uppreisn mun hafa á bandarísk stjórnmál og samfélag.

Skipulögð árás með skýr skilaboð

Eins og áður hefur komið fram er talið að árásin hafi verið vandlega skipulögð og framkvæmd með það að marki að vekja mikla athygli og senda skilaboð út í samfélagið. Ber þar helst nefna skothylki sem lögreglan í New York upplýsti um að hefðu fundist á vettvangi sem árásarmaðurinn merkti með skilaboðunum „delay“, „deny“ og „depose“, sem myndi útleggjast á íslensku sem tefja, hafna og afsetja eða steypa af stóli.

Margir telja að um sé að ræða vísun í bókina Delay, Deny, Defend: Why Insurance Companies Don’t Pay Claims and What You Can Do About It, sem kom út árið 2010.

Rauk upp í söluSala á bókinni jókst eftir að upplýst var um að árásarmaðurinn hefði skrifað skilaboð sem margir telja vera vísun í bókina á skothylki sem fundust á vettvangi.

Bókin fjallar með gagnrýnum hætti um vinnubrögð bandarískra tryggingafyrirtækja og hvernig slík fyrirtæki leita gjarnan ýmissa leiða til þess að komast hjá því að greiða út bótakröfur til viðskiptavina sinna. Höfundur bókarinnar er bandaríski lögfræðingurinn Jay M. Feinman, prófessor emiritus við Rutgers Law School í New Jersey.

Margir hafa í kjölfarið dregið þá ályktun að árásin hafi verið framin í því skyni að mótmæla framgöngu heilbrigðistryggingafélags á borð UnitedHealthcare og stöðu heilbrigðismála í Bandaríkjunum almennt.

Einkarekin sjúkratryggingafyrirtæki á borð við United Healthcare hafa lengi verið gagnrýnd fyrir vinnubrögð sín og ekki síst framgöngu sína gagnvart skjólstæðingum sínum sem reiða sig á fyrirtækin til að fá læknisþjónustu.

Óvænt viðbrögð almennings á samfélagsmiðlum

Hvað sem því líður virðast skilaboðin sem árásarmaðurinn hafi ætlað sér að senda fallið í frjóan jarðveg. Fljótlega eftir að fregnir af árásinni bárust fór almenningur að tjá sig um málið í færslum á samfélagsmiðlum þar sem ódæðið var ýmist réttlætt með vísan til vinnubragða sjúkratryggingafélagsins og því jafnvel fagnað. Í fjölmörgum færslum sem hafa birst á samfélagsmiðlinum X má glöggt greina ákveðna þórðargleði yfir sviplegum örlögum Thompsons.

Í sumum færslum er bent á að UnitedHealthcare sitji á efsta sæti lista yfir bandarísk tryggingafélög sem hafni hlutfallslega flestum bótakröfum. Í einni færslu sem birt var á X sést graf yfir höfnunarhlutfall mismunandi sjúkratryggingafyrirtækja í Bandaríkjunum; þar sést að UnitedHealthcare hafnar um 30 prósent af bótakröfum sem lagðar eru fram til fyrirtækisins.

Í frétt sem birt var á fréttamiðlinum NBC er sagt frá því að skömmu eftir árásina hafi vörur á borð við boli, peysur, kaffibolla og jafnvel jólaskraut með áprentuðum skilaboðum árásarmannsins farið að birtast í netverslunum á borð við Amazon, Ebay og Etsy. Stjórnendur Amazon brugðust snarlega við þessu með því að taka allan slíkan varning úr sölu á vefsíðu sinni.

Algengt stef í bandarískum stjórnmálum

Sveinn Máni Jóhannesson hefur á sínum fræðimannaferli rannsakað stjórnmála- og hugmyndasögu Bandaríkjanna og viðfangsefni á borð við popúlisma og neyðarstjórnmál. Hann segir að ofbeldi hafi lengi einkennt bandarísk stjórnmál. Þar í landi sé ákveðin hefð fyrir því að einstaklingar og hópar taki málin í sínar eigin hendur og beiti ofbeldi í pólitískum tilgangi. Sveinn bætir því við að í Bandaríkjunum sé byssueign útbreidd og gott aðgengi að ýmsum vopnum greiði leið þeirra sem hafi hug á slíkum aðgerðum.

„Það er náttúrulega búið að reyna ráða Donald Trump tvisvar sinnum af dögum, bara á þessu ári. Þar á undan var innrásin inn í þinghúsið 2021, þetta talar inn í ákveðna hefð. Að einstaklingar og hópar taki ráðin í sínar eigin hendur og beiti ofbeldi í pólitískum tilgangi. Það nær aftur til amerísku byltingarinnar og hefur einkennt sögu Bandaríkjanna á flestum stigum.“

Sveinn telur hins vegar að morðið á forstjóra UnitedHealthcare skeri sig úr þessari hefð að því leyti að sú pólitíska árás hafi beinst að einstaklingi úr heimi viðskipta en ekki stjórnmála. Árásarmaðurinn virðist hafa verið einn að verki og bakgrunnur hans virðist ekki dæmigerður ef litið er til annarra árásarmanna af þessum toga. Þrátt fyrir það virðist sá grunaði hafa orðið reiður út í kerfið og gripið til fyrrnefndra aðgerða. Þær aðgerðir hafi talað inni í gremju sem hefur gætt meðal Bandaríkjamanna gagnvart heilbrigðiskerfinu um áratugalangt skeið.

Lítið talað um heilbrigðismál í kosningabaráttunni

„Það sem hlýtur að útskýra að þetta fari á svona flug er að hin hefðbundnu stjórnmál í Bandaríkjunum virðast ekki vera fær um að svara þessari gríðarlegu óánægju sem er um viðskipti fólks við þessi stóru tryggingafélög sem hagnast beinlínis á því að neita fólki um læknisþjónustu,“ segir Sveinn og bendir á að í aðdraganda þing- og forsetakosninganna í Bandaríkjunum í nóvember hafi nánast ekkert verið minnst á heilbrigðismál í kosningabaráttunni.

Sveinn segir sömuleiðis að honum hafi þótt sérlega áhugavert að sjá hversu sterkar tilfinningar málið hefur vakið meðal Bandaríkjamanna og lesa sögurnar þar sem margir deila reynslu sinni af viðskiptum sínum við heilbrigðistryggingafélög sín.

„Ég sá tölur um að bandarísk heilbrigðistryggingarfyrirtæki neiti 248 milljón umsóknum um endurgreiðslu eða læknismeðferð árlega. Það er gríðarlega stór hluti Bandaríkjamanna sem hefur persónulega reynslu af því að vera neitað um læknisþjónustu eða endurgreiðslu og þar af leiðandi fá annaðhvort ekki læknisþjónustu eða lendir í gríðarlegri skuld,“ segir Sveinn. 

Hann bætir við að þetta eigi bara við þá sem eru sjúkratryggðir en fjölmargir Bandaríkjamenn hafa engar sjúkratryggingar. Samkvæmt gögnum frá Sóttvarnarstofnun Bandaríkjanna voru rúmlega 25 milljónir Bandaríkjamanna ekki sjúkratryggðir árið 2023.

Hylltur sem alþýðuhetja

Í færslum á samfélagsmiðlum og varningi sem gengur kaupum og sölum á Internetinu má sjá að Mangione er hylltur sem nokkurs konar alþýðuhetja sem bjóði bandarískum stórfyrirtækjum birginn. Í þessum færslum er skotárásinni lýst sem upptakti einhvers konar byltingar öreiga gegn hinum ríku og valdamiklu í samfélaginu.

Í grein sem birt var á fréttaveitunni Politico í síðustu viku eru færð rök fyrir því að margir þeirra sem hafa tjáð sig á samfélagsmiðlum um árásina líti á árásarmanninn sem nokkurs konar Hróa Hattar-fígúru. Árásamaðurinn verður þannig að nokkurs konar alþýðuhetju sem fer á svig við lögin í baráttu sinni gegn ójöfnuði og félagslegu óréttlæti sem birtist meðal annars í heilbrigðiskerfinu í Bandaríkjunum. Í mörgum af þessum færslum er fleiri leiðtogum í bandarísku viðskiptalífi sagt að vara sig.

Sveinn segir að um langt skeið hafi samfélagsleg ólga í Bandaríkjunum brotist út í ofbeldisfullum aðgerðum sem einstaklingar og hópar hafa beitt hverju sinni. Þessar aðgerðir hafi þó einna helst beinst að stjórnmálamönnum og leiðtogum stjórnmálahreyfinga, ekki síst forsetum Bandaríkjanna.

„Núna beinist reiðin að yfirmanni fyrirtækis, sem er mjög áhugavert. Það minnir mann meira á til dæmis Baader-Meinhof í Þýskalandi og aðrar slíkar hreyfingar sem beindu aðgerðum sínum að bankamönnum, iðnjöfrum og öðrum,“ segir Sveinn og bætir því við að hann sé ekki viss um að slíkar árásir eigi sér mörg fordæmi í bandarískri sögu. Þar megi helst nefna blóðug átök milli verkalýðshreyfinga og atvinnurekanda sem áttu sér stað undir lok 19. aldar í Bandaríkjunum, á hinu svokallaða Gyllingartímabili (e. Gilded Age), meðal annars fyrir tilstilli anarkista.

Viðbrögðin þvert á flokkslínur

Annar þáttur sem greinendur hafa tekið eftir að einkennir þessa umræðu er að reiðin sem skotárásin talar inn í gengur þvert á flokka. Fólk sem staðsetur sig ýmist yst til vinstri og til hægri í bandarískum stjórnmálum, hópar sem ná sjaldan saman um nein málefni, virðast vera sammála um að um sé að ræða eðlilega afleiðingu af þeirri miklu óánægju sem gætir um starfsemi heilbrigðistryggingafélaga í Bandaríkjunum.

„Þetta virðist höfða til fólks sem kýs báða flokka. Þetta er ekki flokkspólitískt, eigum við ekki að kalla þetta uppreisn. Viðbrögðin líkjast uppreisn. Af því þetta fer svo þvert gegn því sem er siðferðislega rétt að gera, sem er ekki að fagna morðum. Þannig að mörgu leyti er þetta uppreisn þó svo þetta sé bara á netinu,“ segir Sveinn.

Hann bætir við að hann skynji þessa umræðu á þann veg að margir túlki árásina sem nokkurs konar útrás fyrir áratugalanga gremju út í heilbrigðistryggingafélögin.

„Flestir eru á móti morði á fólki, það hlýtur að vera, en það sem virðist vera að gerast er að mörgum finnst heilbrigðisiðnaðurinn, tryggingaiðnaðurinn, svo slæmur að það sem hann er búinn að gera sé jafngilt því sem þessi ungi maður gerði. Það er svona tilfinningin sem ég fæ, að það sé verið að greiða í sömu mynt.“

Óljóst hver áhrifin muni verða

Spurður hvort umræðan, sem hefur stigmagnast ört á undanförnum vikum, muni hafa einhver teljandi áhrif á bandarísk stjórnmál og samfélag segir Sveinn að erfitt sé að spá fyrir um það. Hins vegar kæmi það honum ekki á óvart að umræðan muni hafa takmörkuð áhrif og skila litlu hvað varðar pólitískar stefnubreytingar í heilbrigðismálum.

Þrátt fyrir að málið hafi valdið miklum hita og usla á samfélags- og fréttamiðlum telur hann afar ólíklegt, sérstaklega í ljósi þess að Repúblikanar hafa náð meirihluta í báðum deildum Bandaríkjaþings og forsetastólnum, að breytingar verði gerðar á málaflokknum.  

„Það er náttúrulega gallinn við þessa stjórnmálamenningu hvað hún er bundin við samfélagsmiðla, er einstaklingsmiðuð og einangrandi. Þannig að erfitt er að byggja hreyfingu í kringum þetta en það er aldrei að vita hvað getur gerst,“ segir Sveinn og bætir við að stjórnmálin þar í landi séu gjarnan óútreiknanleg. Þá telur hann, miðað við umfang umræðunnar, að pólitísk tækifæri séu til staðar til þess að stíga inn og tala inn í þessa reiði sem gætir meðal fólks.

„Erfitt að byggja hreyfingu í kringum þetta en það er aldrei að vita hvað getur gerst.“
Sveinn Máni Jóhannesson

Spurður hvort viðbrögðin við árásinni gætu leitt til fleiri slíkra voðaverka segir Sveinn það ekki útilokað. 

„Að það dúkki upp einn og einn einstaklingur sem býr við ákveðna félagslega einangrun og mögulega einhver geðræn vandamál, það er ekkert ólíklegt að það muni aukast sérstaklega eftir þessa gífurlegu athygli og í rauninni hrós sem þessi einstaklingur hefur fengið,“ segir Sveinn. Hann telur aftur á móti skipulagðar árásir á stærri skala ólíklegar.

Þá telur hann vera ofsögum sagt að árásin sem framin var í byrjun mánaðarins og viðbrögðin við henni séu upphaf að útbreiddari átökum og jafnvel borgarastyrjöld sem margir í Bandaríkjunum hafa haft áhyggjur af muni brjótast út.

Rof á minni skala myndaðist á Íslandi í kjölfar hrunsins

Spurður hvort finna megi einhverjar hliðstæður úr íslenskri stjórnmálasögu við það sem hefur verið að eiga sér stað í Bandaríkjunum undanfarna daga og vikur segir Sveinn að blessunarlega sé íslenskur stjórnmálakúltúr afar friðsamlegur í alþjóðlegum samanburði. Hann segist hins vegar sjá nokkur líkindi í þeim siðferðilega ágreiningi milli almennings og fjölmiðla í Bandaríkjunum og þeim sem skaut kollinum hér landi á árum eftir efnahagshrunið 2008.

„Þegar fólk var að mótmæla fyrir utan heimili tiltekinna stjórnmálamanna og mögulega vinna einhvers konar skemmdarverk á heimilum þeirra. Það er svona það fyrsta sem mér dettur í hug og þar svona höfum við séð almenning annars vegar og stjórnmála- og fjölmiðlastéttina hafa dálítið ólíkar hugmyndir um hvar línan eigi að vera. En þetta er á töluvert minni skala, til allrar hamingju,“ segir Sveinn og tekur fram að þessi ágreiningur hafi aðeins átt við afmarkaðan hluta almennings hér landi.

„Þetta er náttúrulega alltaf ákveðin spurning um það hvar þessi lína er dregin, þó svo augljóslega við séum komin langt út fyrir hana þegar það er farið að skjóta fólk.“

Kjósa
27
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir (2)

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
  • JE
    Jóhann Einarsson skrifaði
    Arđsemiskrafan er banvæn jafnvel í Mekka kapítalismans. Græđgin étur börnin sín ,,in the end".
    2
  • HL
    Hjalti Leifsson skrifaði
    Neytanir heilsutryggingafélaga og þögn stjórnmálamanna koma úr einum og sama jarðveginum: Stærstu fyrirtæki Bandaríkjanna eru stjórnmálafígúrur, með lobbýisma, mútum og áróðri hafa þau meiri áhrif en prinsipp stjórnmálamanna á lagasköpun og ríkisrekstur. Þessvegna hafa þau "tjáningarfrelsi". Þetta var stjórnmáladrifið morð, og ég vil benda á að stefnur annara fyrirtækja í geiranum gagnvart kúnnum linuðust í kjölfarið.
    9
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Fyrsta barnið fætt á Seyðisfirði í yfir 30 ár - „Fór allt á besta veg miðað við aðstæður“
1
Fréttir

Fyrsta barn­ið fætt á Seyð­is­firði í yf­ir 30 ár - „Fór allt á besta veg mið­að við að­stæð­ur“

Fyrsta barn­ið í yf­ir þrjá ára­tugi fædd­ist á Seyð­is­firði í dag eft­ir snjó­þunga nótt þar sem Fjarð­ar­heið­in var ófær. Varð­skip­ið Freyja var einnig til taks ef flytja þyrfti móð­ur­ina á Nes­kaups­stað. „Þetta er enn ein áminn­ing­in um ör­ygg­is­leys­ið sem við bú­um við,“ seg­ir ný­bök­uð móð­ir­in.
Nei, Hitlers-kveðja Musks var EKKI ævaforn rómversk kveðja
2
Flækjusagan

Nei, Hitlers-kveðja Musks var EKKI æva­forn róm­versk kveðja

Hin við­ur­styggi­lega nas­ista­kveðja Elons Musks dag­inn sem Don­ald Trump var sett­ur í embætti hef­ur að von­um vak­ið mikla at­hygli. Kannski ekki síst vegna þess að kveðj­una lét Musk flakka úr ræðu­stól sem var ræki­lega merkt­ur for­seta Banda­ríkj­anna. Hin fasíska til­hneig­ing margra áhang­enda Trumps hef­ur aldrei fyrr birst á jafn aug­ljós­an hátt — enda lét Musk sér ekki nægja að heilsa...
Sigmundur Davíð ver Musk með hæpnum samanburði
3
Greining

Sig­mund­ur Dav­íð ver Musk með hæpn­um sam­an­burði

Á með­an að öfga­menn og nýnas­ist­ar víða um heim upp­lifa vald­efl­ingu og við­ur­kenn­ingu og fagna an­kanna­legri kveðju Elons Musks spyr fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráð­herra Ís­lands hvort ís­lensk­ir fjöl­miðl­ar ætli í al­vöru að flytja þá fals­frétt að handa­hreyf­ing sem leit út eins og nas­ista­kveðja, frá manni sem veit­ir öfga­full­um sjón­ar­mið­um vængi flesta daga, hafi ver­ið nas­ista­kveðja.
Yfirgangstal með óþægilega hliðstæðu
4
StjórnmálBandaríki Trumps

Yf­ir­gangstal með óþægi­lega hlið­stæðu

Embætt­i­staka Don­alds Trumps vek­ur upp spurn­ing­ar sem við Ís­lend­ing­ar þurf­um að hugsa alla leið, með­al ann­ars í ljósi yf­ir­lýs­inga hans gagn­vart Græn­landi og Kan­ada, seg­ir Frið­jón R. Frið­jóns­son borg­ar­full­trúi. Hann kveðst einnig hafa „óþæg­inda­til­finn­ingu“ gagn­vart því að vellauð­ug­ir tækni­brós­ar hjúfri sig upp að Trump, sem nú fer á ný með fram­kvæmda­vald­ið í lang­vold­ug­asta ríki heims.
Sólveig Anna sendi bréf á móðurfélög Subway og Hard Rock Cafe
6
Fréttir

Sól­veig Anna sendi bréf á móð­ur­fé­lög Su­bway og Hard Rock Ca­fe

Fé­lög­in sem reka Su­bway og Hard Rock Ca­fé á Ís­landi eru að­il­ar að SVEIT, sem Efl­ing seg­ir að stað­ið hafi fyr­ir stofn­un gervistétt­ar­fé­lags til að rýra kjör starfs­manna í veit­inga­geir­an­um. Sól­veig Anna Jóns­dótt­ir formað­ur fé­lags­ins hef­ur nú skrif­að bréf út til al­þjóð­legra móð­ur­fé­laga þess­ara tveggja veit­inga­staða­keðja og beð­ið þau um að rann­saka starfs­hætti sér­leyf­is­haf­ana hér­lend­is.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Sigurjón sagði hana einfalda en skemmtilega - Enginn mannanna fékk samþykki
3
Fréttir

Sig­ur­jón sagði hana ein­falda en skemmti­lega - Eng­inn mann­anna fékk sam­þykki

Eng­inn þeirra karl­manna sem komu á heim­ili þroska­skertr­ar konu til að hafa kyn­mök við hana var ákærð­ur. Þó hafði eng­inn þeirra feng­ið sam­þykki henn­ar. Sál­fræð­ing­ur seg­ir hana hafa upp­lif­að sjálfs­vígs­hugs­an­ir á þessu tíma­bili. Óút­skýrð­ar taf­ir á lög­reglu­rann­sókn leiddu til mild­un­ar refs­ing­ar yf­ir Sig­ur­jóni Ól­afs­syni, fyrr­ver­andi yf­ir­manni kon­unn­ar.
Það rís úr djúpinu 1: Gríðarlegt vatnsmagn leynist á 660 kílómetra dýpi, og demantar
5
Flækjusagan

Það rís úr djúp­inu 1: Gríð­ar­legt vatns­magn leyn­ist á 660 kíló­metra dýpi, og dem­ant­ar

Fyr­ir fá­ein­um dög­um birti vef­rit­ið Science Al­ert fregn um rann­sókn, sem raun­ar var gerð ár­ið 2022, en hef­ur ekki far­ið hátt fyrr en nú. Hér er frá­sögn Science Al­ert. Rann­sak­að­ur var ör­lít­ill dem­ant­ur sem fund­ist hafði í dem­antanámu í rík­inu Bótsvana í suð­ur­hluta Afr­íku. Hér er sagt frá þeirri rann­sókn í vef­rit­inu Nature.com. Í ljós kom að dem­ant­ur­inn hafði mynd­ast...

Mest lesið í mánuðinum

Viðskiptaáætlun Carbfix: Földu áform sín fyrir íbúum
2
RannsóknCarbfix-málið

Við­skipta­áætl­un Car­bfix: Földu áform sín fyr­ir íbú­um

Fyr­ir­ætlan­ir Car­bfix eru mun um­fangs­meiri en fram hef­ur kom­ið. Stefnt er að því að dæla nið­ur allt að 4,8 millj­ón­um tonna af kol­díoxí­ði (CO2) og fyr­ir­tæk­ið von­ast til þess að velta hátt í þrjú hundruð millj­örð­um á full­um af­köst­um. Það er hærri upp­hæð en stærsta fyr­ir­tæki lands­ins velt­ir í dag. Á með­al við­skipta­vina er fyr­ir­tæki sem framdi glæp gegn mann­kyni og vill dæla nið­ur CO2 á Ís­landi.
Móðir Kolfinnu Eldeyjar: „Ég segi mína sögu því að samfélagið þarf að vakna“
3
Fréttir

Móð­ir Kolfinnu Eld­eyj­ar: „Ég segi mína sögu því að sam­fé­lag­ið þarf að vakna“

Ingi­björg Dagný Inga­dótt­ir, móð­ir Kolfinnu Eld­eyj­ar Sig­urð­ar­dótt­ur, opn­ar sig um and­lát dótt­ur sinn­ar. Hún seg­ir kerf­in hafa brugð­ist barns­föð­ur sín­um, sem hef­ur ver­ið ákærð­ur fyr­ir að hafa ráð­ið dótt­ur þeirra bana. „Ég vissi strax í hjarta mínu að hann hefði ekki tek­ið með­vit­aða ákvörð­un um að gera svona lag­að“.
Grátbað um myndatöku fyrir barnið sem leiddi í ljós heilaæxli
5
ViðtalMóðursýkiskastið

Grát­bað um mynda­töku fyr­ir barn­ið sem leiddi í ljós heila­æxli

Mán­uð­um sam­an þurfti Hrund Ólafs­dótt­ir að grát­biðja lækni um að senda Sigrúnu, dótt­ur henn­ar, í mynda­töku vegna al­var­legra veik­inda sem voru skil­greind sem mígreni. „Barn­ið bara kvald­ist og kvald­ist og kvald­ist og kvald­ist.“ Þeg­ar hún loks fékk ósk sína upp­fyllta kom í ljós fimm sentí­metra stórt æxli í litla heila Sigrún­ar.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár