Ég er frá Úkraínu og hef búið á Íslandi í eitt og hálft ár. Þetta er fyrsta starfið mitt á Íslandi, hér á kaffihúsinu á Kjarvalsstöðum. Ég kann vel við mig hérna, hér get ég kynnst íslenskri menningu og fólkinu, ég reyni að tala og skilja íslensku og fólkið og hugarfar þess. Þetta er alveg nýtt fyrir mér. Þetta er áskorun að tala tungumálið en fólkið hér hjálpar mér. Ég átti íslenskan kærasta en við erum nýhætt saman. Svona er lífið bara.
Stríðið hefur haft stressandi áhrif. Fjölskyldan mín er enn þá í Kiev, þau geta ekki farið neitt. Ég vildi ekki fara frá þeim, ég gat ekki hugsað mér að fara ef þau myndu svo deyja. En örlögin leiddu mig hingað. Vinkona mín sem býr hér bauð mér í heimsókn og ég kom hingað í frí. Þremur dögum eftir að ég kom aftur heim til Úkraínu bókaði ég mér flug, aðra leiðina, til Íslands. Og hér er ég.
„Ég gat ekki hugsað mér að fara ef þau myndu svo deyja. En örlögin leiddu mig hingað.“
Mér líður vel á Íslandi. Það skiptir máli að vera hluti af samfélaginu og ég er að reyna það. Ég vil ekki vera fórnarlamb og að fólk líti fyrst og fremst á mig sem flóttamann. Ég er mennsk, ég er manneskja sem er að byrja nýtt líf. Ég segi alltaf að einn daginn muni ég yfirgefa þessa eyju lengst úti í hafi en nú er ég ekki viss. Kannski verð ég bara hér?
Fólkið hér er svo brosmilt, slavneskt fólk brosir ekki. Viðhorf mitt til lífsins breyttist þegar ég flutti til Íslands, ég er jákvæðari manneskja. Ég brosi miklu meira á Íslandi. Lífið er fallegt.“
Athugasemdir