Þessi grein birtist fyrir rúmlega 12 mánuðum.

Innlit á kosningavökur: Veldi Viðreisnar og svanasöngur Vinstri grænna

Á með­an Þor­gerð­ur Katrín Gunn­ars­dótt­ir dans­aði und­ir tón­um Qween með Retro Stef­son söng Una Torfa­dótt­ir, dótt­ir Svandís­ar Svavars­dótt­ur for­manns Vinstri grænna, mögu­lega svana­söng flokks­ins. Blaða­mað­ur Heim­ild­ar­inn­ar kíkti á kosn­inga­vök­ur tveggja flokka í mjög ólíkri stöðu.

<span>Innlit á kosningavökur:</span> Veldi Viðreisnar og svanasöngur Vinstri grænna
Kosninganótt Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, kom dansandi og klappandi á kosningavöku Viðreisnar á Hótel Borg í nótt. Undir ómaði Qween með Retro Stefson. Verður Þorgerður Katrín drottningin í nýrri ríkisstjórn? Mynd: Golli

Hverjum datt í hug að kjósa á þessum árstíma? Það er skítkalt, niðamyrkur og vindkælingin. Maður minn! Jú, alveg rétt, það var Bjarni Benediktsson. Það er samt ekki alfarið honum að kenna að hér er ég, klukkan 22 á laugardagskvöldi á kjördegi að mana mig upp í fara á kosningavöku Viðreisnar.

Þetta er í annað sinn sem ég fer út úr húsi þennan kjördaginnn, ég arkaði í KR-heimilið í ljósaskiptunum til að greiða atkvæði. Það var ekki margt um manninn í Frostaskjóli, kjörsókn var um 50 prósent í Reykjavík þegar ég hafði skilað mínu atkvæði í kjörkassann. Ég mætti Silju Báru Ómarsdóttur hverfiskjörstjóra á, það er fáir sem elska kosningar jafn mikið og hún. „Ég er orðin ansi sjóuð þessu,“ viðurkennir hún skælbrosandi. Forsetakosningar, bæði hér heima og í Bandaríkjunum, hafa átt hug hennar allan stóran hluta ársins og nú þingkosningar hér heima. Svo er hún sjálf líklega á leiðinni í kosningabaráttu í rektorskjöri. En það er önnur saga. 

Aftur að kosningavökum gærkvöldsins. Af hverju varð Viðreisn fyrir valinu sem fyrsti viðkomustaður? Þegar kjördagur rann upp var útlit fyrir að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður flokksins sem boðar „hægri hagstjórn og vinstri velferð“, kæmist í lykilstöðu hvað varðar stjórnarmyndunarviðræður eftir kosningar (engar áhyggjur samt, Heimildin sótti fleiri kosningavökur). Sjálfri fannst mér líka áhugavert að sjá hvers konar fólk myndi sækja kosningavöku Viðreisnar, flokks sem tók flugið í skoðanakönnunum eftir að boðað var til kosninga, úr 11,1 prósent fylgi 13. október í 17,6 prósent daginn fyrir kjördag samkvæmt þjóðarpúlsi Gallup. 

Handgerða rósa C-iðÓfáar myndir voru teknar við handgerða Viðreisnar C-ið á Borginni í nótt.

Ég dúðaði mig því upp í annað skipti og hélt út í vetrarnóttina. Klukkan var nú reyndar bara rétt að verða 22 þannig það var ennþá kvöld. Það á samt ekki að vera dimmt á kosninganótt. Það á að vera bjart, vor í lofti og ekki skemmdi þegar próflokafögnuð bar upp á sama dag og kosningar. Það er hins vegar ekki raunin núna, flestir nemendur eru enn í lokaprófum en mér sýndist unga fólkið ekki láta það á sig fá. Unga fólkið var mætt á Hótel Borg þar sem appelsínugula viðvörun Viðreisnar breiddi úr sér með blöðruvöndum og risavöxnu handgerðu rósa C-i sem tók einn mann allan daginn að fullkomna, að því er skipuleggjandi kosningavökunnar tjáði mér.

Við fyrstu sýn fannst mér ég hafa villst inn í tímavél, mér leið eins og ég væri mætt í kosningapartý Höllu Tómasdóttur í Grósku. Dúndrandi, taktföst tónlist og mikil mannmergð. Ungt fólk í útvíðum buxum, ungir menn með klippingu sem ég á erfitt með að átta mig á og ungar konur með fullkomlega greidd tögl (e. slicked-back). 

Það er góð og falleg orka í loftinu á Borginni. „Þú verður að fá hrós, þetta er sturlaður kjóll!“ segir viðkunnalegur ungur maður (samt ekki með þeim yngstu) þegar hann heilsar vinkonu sinni sem er í appelsínugulum rykktum kjól. Á næsta borði kemur yngri maður askvaðandi og hristir hendurnar. „Ég lykta eins og hvítvín.“ Það reyndist þrautin þyngri að ferja hvítvín í gegnum mannfjöldann. Vinkona hans er með lausn og spreyjar á hann ilmvatni. Sætur keimur umlykur andrúmsloftið á Borginni. 

Á BorginniBarinn á Hótel Borg var þéttskipaður á kosninganótt.

Unga fólkið, aðal rannsóknarlöggan, grínistinn og ríkissáttasemjari

Unga fólkið þekkir kannski ekki sögu Borgarinnar en inn kemur maður með glampa í augunum. „Ég hef ekki komið hingað inn í 30 ár.“ Hann heilsar frambjóðendum, Grími Grímssyni yfirlöregluþjóni rannsóknarlögreglunnar, og Aðalsteini Leifssyni, fyrrverandi ríkissáttasemjara. 

Lögga á þingGrímur Grímsson er einn af 34 nýjum þingmönnum sem taka sæti á Alþingi þegar þing kemur saman eftir kosningar.

Allir salirnir á Borginni eru að fyllast. Í fyrstu voru tveir salir í notkun en fljótlega var sá þriðji opnaður, mun fyrr en til stóð að sögn Söru Sigurðardóttur, skipuleggjanda kosningavökunnar. „Það er strax pakkað!“ og klukkan er bara rétt rúmlega 22. Röðin á barinn lengist og það þarf strax að sópa upp glerbrot. 

Klukkan nálgast ellefu og formaðurinn er væntanleg í salinn. „Freedom, freedom“ ómar í hjóðkerfinu og þegar sést glitta í Þorgerði fer fólkið að kyrja: „Togga, Togga, Togga!“ og inn kemur dansandi Þorgerður Katrín sem heilsar og faðmar kjósendur. Næsta lag tekur við og Þorgerður dansar áfram við Qween með Retro Stefson.

Drottningin er mætt. Fyrir ofan hana er frosinn Bjarni Benediktsson á stórum skjá í útsendingu RÚV. 

„Togga, Togga, Togga!“
kyrjaði stuðningsfólk Viðreisnar þegar formaðurinn gekk í salinn

Í innsta salnum er aðeins rólegri stemning. Þar er kveikt á kosningavöku RÚV og engin önnur tónlist hljómar undir. Búið er að raða upp nokkrum röðum af stólum og á fremsta bekk sitja Jón Gnarr, sem skipar 2. sæti í Reykjavík suður, ásamt Jógu eiginkonu sinni og að minnsta kosti einum syni, mögulega fleirum. Það vantar bara Klaka, heimilishundinn. 

FOMO á kosninganótt

Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, formanni Miðflokksins, bregður fyrir á skjánum að veita viðbrögð við fyrstu tölum. „Við erum að missa af þessu!“ segir enn eini ungi maðurinn við hóp vina sinna sem ég stórefast um að séu með kosningarétt. Það er erfitt að þjást af FOMO (e. Fear of Missing out) á kosninganótt en Miðflokkurinn ákvað að halda sitt partý í seilingarfjarlægð frá miðbænum, í Valsheimilinu. 

Sjálf fékk ég smá FOMO (ekki vegna Miðflokksins reyndar) en mér var líka orðið mjög heitt og ég þurfti nauðsynlega að pissa en nennti ómögulega í klósettröðina. Ég ákvað að hoppa yfir í Iðnó á kosningavöku VG. Þar var engin röð á klósettið. Áður en ég geng inn í salinn lít ég yfir hópinn sem er þarna samankominn. Það er fámennt miðað við Hótel Borg en þarna er alls konar fólk. Ég brosi til eldri konu með skjannahvítt hár í tagli (ekki slicked-back þó), hring í nefinu, þykka silfurkeðju um hálsinn, klædd grænum kjól og bleikum sokkabuxum. Það er verið að lesa fyrstu tölur í Suðvesturkjördæmi. 100 atkvæði. Það má heyra saumnál detta. Þetta er búið. Orri Páll Jóhannsson, þingflokksformaður VG, segist samt vera bjartsýnn. „Ég held að við merjum þetta.“ Þegar fyrstu tölur í Reykjavík Suður voru lesnar upp hópuðu frambjóðendur og helsta stuðningsfólk sig saman á fremsta hringborðinu rétt eins og um leikhlé í liðsíþrótt væri að ræða. Flokkurinn nær ekki inn þingmanni. Það féllu tár í Iðnó. „Lýðræðið hefur talað og þjóðin,“ sagði Svandís þegar ljóst var í hvað stefndi. 

DóttirUna Torfadóttir söng fyrir gesti á kosningavöku Vinstri grænna í Iðnó. Mögulega í síðasta sinn?

Vinstri græn fengu 2,4 prósent atkvæða þegar lokatölu lágu fyrir og ná því ekki 2,5 prósent þröskuldinum sem tryggir stjórnmálasamtökum fjárstuðning frá ríkinu. Hvað verður um Vinstri græn sem stjórnmálaafl? Svandís var ekki á staðnum þegar fyrstu tölur í hennar kjördæmi voru lesnar upp, hún var á leiðinni í leiðtogakappræður á RÚV. Una Torfadóttir, dóttir Svandísar, var enn í Iðnó, búin að syngja fyrir gesti, en baðst undan spjalli við blaðamann, tilfinningarnar voru að bera hana ofurliði. Svandís sagði svo í Facebook-færslu sem hún birti eftir hádegi í dag að greiningar á pólitískri stöðu bíða betri tíma. Við sjáum hvað setur. 

Troðið á Borginni

Ég ákvað að kíkja aftur í partýið til Viðreisnar en það reyndist það hægara sagt en gert. Myndarleg röð var fyrir utan Borgina og hópur ungmenna (en ekki hver) tilkynnir að búið sé að loka salnum. Fleirum verður ekki hleypt inn. Klukkan var að ganga tvö.

 „Hvar er Framsókn?“ spyr einn í hópnum. Kosningavaka rótgróna bændaflokksins er á Oche, pílu- og karaoke-stað sem er hluti af alþjóðlegri afþreyingarkeðju. Það þykir of langt að fara í Kringluna en vinahópurinn deyr ekki ráðalaus: „Bjórkvöld í gamla herberginu mínu!“ 

Ég brosi út í annað. Þetta er mitt merki að segja það gott á kosninganótt. Ég ætla ekki að smygla mér inn á kosningavöku Viðreisnar sem vill ekki eða getur ekki tekið við fleirum. Svo þurfti ég líka að mæta á fótboltaæfingu hjá 8. flokki KR klukkan 9 morguninn eftir. Á leiðinni heim verður mér hugsað til Qween og Þorgerðar Katrínar. Ætli það verði þrjár drottningar: Þorgerður Katrín, Kristrún Frostadóttir og Inga Sæland sem leiða næstu ríkisstjórn? Eða verður það karlmannleg seigla sem siglir okkur inn í framtíðina?

Kjósa
12
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Alþingiskosningar 2024

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

„Ég sprautaði mig í fyrsta skipti í meðferð“
5
ÚttektTýndu strákarnir

„Ég spraut­aði mig í fyrsta skipti í með­ferð“

Gabrí­el Máni Jóns­son upp­lifði sig alla tíð utangarðs. Hann féll ekki inn í hefð­bund­inn ramma skóla­kerf­is­ins og var snemma tek­inn út úr hópn­um. Djúp­stæð van­líð­an braust út í reiði og hann deyfði sára höfn­un með efn­um. Þar til hann fékk nóg og náði bata. „Ég gat ekki sætt mig við að vera gæ­inn sem ég hafði fyr­ir­lit­ið og hat­að frá barnæsku.“
„Ég veit ekki hvernig ég lifði af“
6
ÚttektTýndu strákarnir

„Ég veit ekki hvernig ég lifði af“

„Mér voru gef­in erf­ið spil og þeg­ar þú kannt ekki leik­inn er flók­ið að spila vel úr þeim,“ seg­ir Arn­ar Smári Lárus­son, sem glímdi við al­var­leg­ar af­leið­ing­ar áfalla og reyndi all­ar leið­ir til þess að deyfa sárs­auk­ann, þar til það var ekki aft­ur snú­ið. „Ég var veik­ur, brot­inn og fannst ég ekki verð­skulda ást.“ Hann árétt­ar mik­il­vægi þess að gef­ast aldrei upp. „Það er alltaf von.“

Mest lesið í mánuðinum

Týndu strákarnir – sem fundu leiðina heim
3
ÚttektTýndu strákarnir

Týndu strák­arn­ir – sem fundu leið­ina heim

Á átján ára af­mæl­is­dag­inn vakn­aði Fann­ar Freyr Har­alds­son á neyð­ar­vist­un og fékk lang­þráð frelsi eft­ir að hafa þvælst í gegn­um með­ferð­ar­kerfi rík­is­ins. Hann, Gabrí­el Máni Jóns­son og Arn­ar Smári Lárus­son lýsa reynslu sinni af kerf­inu sem átti að grípa þá sem börn og ung­ling­ar. Tveir þeirra byrj­uðu að sprauta sig í með­ferð, samt sam­mæl­ast þeir um að þessi inn­grip séu lík­leg­asta ástæð­an fyr­ir því að þeir lifðu af. Ekk­ert lang­tíma­úr­ræði er fyr­ir stráka sem stend­ur.
„Eiginmaður minn hefur aldrei átt eignarhlut í Skeljungi“
6
Stjórnmál

„Eig­in­mað­ur minn hef­ur aldrei átt eign­ar­hlut í Skelj­ungi“

Hild­ur Björns­dótt­ir, odd­viti Sjálf­stæð­is­flokks í borg­ar­stjórn, fjall­aði ít­rek­að um samn­inga sem vörð­uðu lóð­ir bens­ín­stöðva þrátt fyr­ir að eig­in­mað­ur henn­ar stýrði móð­ur­fé­lagi Skelj­ungs. Lóð­ir bens­ín­stöðva Skelj­ungs hafa síð­an ver­ið seld­ar til tengdra fé­laga fyr­ir vel á ann­an millj­arð króna. Hún seg­ir hæfi sitt aldrei hafa kom­ið til álita.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár