Klukkan er tuttugu mínútur í tíu að kvöldi kjördags og ég geng ákveðnum skrefum að Valsheimilinu þar sem kosningavaka Miðflokksins mun fara fram. Ég geng hratt, það er nístingskuldi og ég þakka sjálfri mér fyrir að hafa farið í úlpu frekar en kápu. Ég átta mig ekki nákvæmlega á því hvert ég er að fara, en fer þangað sem ég sá annað fólk ganga.
„Við erum alveg harðir með skilríki, er það ekki?“
Ég elti tvo unga menn sem virðast vita hvert þeir eru að fara. Þeir ganga á undan mér upp stiga sem virðist leiða að veislusalnum. Í dyrunum stöðvar þá hins vegar svartklæddur maður með talstöð.
„Góða kvöldið. Eruð þið með skilríki?“ spyr dyravörðurinn.
Strákarnir verða kindarlegir. Þeir eru ekki með skilríki.
„Þarf maður að vera með skilríki, eða?“ spyr annar þeirra.
„Já, það verður áfengi hérna. Það verður að vera 18 með skilríki,“ skýrir dyravörðurinn, en kallar samt á samstarfsmann sinn til að vera alveg viss.
„Við erum alveg harðir með skilríki, er það ekki?“
„Alveg grjótharðir,“ svarar kolleginn.
Hingað er aðeins fullorðnu fólki hleypt inn og strákunum er vísað frá. Ég lauma mér framhjá dyravörðunum. Engin tilraun er gerð til að skilríkja mig.
Hafði ekki tíma til að skoða þetta
Í salnum eru hvít dúkalögð borð og grænum og bláum ljósum hefur verið komið fyrir, litirnir minna á norðurljós.
Fólk tínist inn á sama tíma og ég. Í fyrstu sé ég ekki eina konu, þessi samkunda virðist umsetin jakkafataklæddum körlum á öllum aldri, en einkum ungum. Satt að segja er alveg furðulega mikið af mjög ungu fólki hérna. Mætingin virðist vera ágæt. Ég eygi Snorra Másson, oddvita flokksins í Reykjavík suður, lengra inni í salnum, sem og einhverjar konur.
„Hæ!“ Kona um þrítugt kemur og faðmar mig. Ég er með eindæmum ómannglögg og er í nokkrar sekúndur að kveikja. „Við vorum einu sinni að vinna saman,“ bætir hún við þegar hún sér óttablandinn svip minn.
Ég spyr hana hvernig það kom til að hún kæmi hingað. Hún skýrir að maðurinn hennar sé viðriðinn flokksstarfið. Hann sé þó ekki í framboði. Ég spyr hana hvort hún hafi sjálf kosið Miðflokkinn.
Hún kinkar kolli. „Ég hafði ekki tíma til að skoða þetta,“ skýrir hún þegar ég spyr hana af hverju hann hafi orðið fyrir valinu.
Athugasemdir (1)