Allt bendir til þess að tíma Vinstri grænna sé lokið í íslenskum stjórnmálum og formaðurinn hafi kvatt Alþingi í nótt, í það minnsta í bili. Svandís Svavarsdóttir mætti í sjónvarpssal RÚV fyrr í nótt til þess að rýna í stöðuna og ræða næstu skref.
„Lýðræðið hefur talað og þjóðin,“ sagði Svandís.
„Þetta eru sögulegar kosningar. Við erum að sjá svo stórar breytingar á kerfinu, við erum að tala um þessa gamalgróna flokka sem hafa fylgt þjóðinni í öld eða svo vera í áður óþekktri stöðu. Við sjáum að vinstri vængurinn er í þeirri stöðu að þurfa virkilega að endurskipuleggja sig og hugsa um sína stöðu.“
Hún sagði það hafa haft áhrif að VG hafi mælst undir fimm prósenta mörkunum frá því í maí. Það hafi verið við ramman reip að draga þegar skilaboðin hafi verið þau að atkvæði greitt VG félli dautt niður.
Lýsti áhyggjum af umhverfismálunum
Verst væri þó að ákveðnir málaflokkar ættu ekki sterka málsvara á Alþingi, eins og þingið virðist verða. „Ég hef áhyggjur, sérstaklega af umhverfis- og náttúruverndarmálum. Ég hef áhyggjur af því að þetta þing sem er að raðast upp er ekki virkilega að taka utan um þá málaflokka sem snúast um framtíðina, þessa lengri framtíð, þessa náttúru sem er hvergi annars staðar og loftslagið, vegna þess að það er rödd sem skiptir máli,“ sagði Svandís.
Vinstri grænir ná ekki 2,5 prósenta mörkunum sem þarf til að eiga rétt á 12 milljóna grunnframlagi í úthlutun fjár úr ríkissjóði til stjórnmálasamtaka.
Niðurstaðan er alveg klár, sagði Svandís, en viðfangsefni Vinstri grænna; félagslegt réttlæti, jöfnuður og vinstri stefnan, umhverfismál og kvenfrelsi myndu finna sinn farveg. „Það liggur alveg fyrir. Við erum ekkert að fara að leggja niður þessi sjónarmið eða þessi baráttumál sem hafa fylgt okkur um aldir, liggur mér við að segja.“
Þungt yfir ríkisstjórninni
Aðspurð hvað biði hennar vildi hún leyfa nóttinni að klárast áður en slíkum spurningum yrði svarað. „Ég mun halda upp á það í næstu viku að hafa verið formaður í tvo mánuði,“ áréttaði hún. Það hafi verið þungt í kringum fráfarandi ríkisstjórn um þó nokkurt skeið.
Sjálfstæðisflokkurinn náði vopnum sínum á síðustu dögum en flokkarnir sem mynduðu ríkisstjórn með honum fengu slæma útreið í kosningunum. Vinstri græn falla út af þingi og Framsóknarflokkurinn missir átta þingmenn af þrettán, nú þegar 143 þúsund atkvæði hafa verið talin. Hverfandi líkur eru á að Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, nái inn á þing.
Báðir flokkarnir höfðu gert sér von um að ná sér á strik á endasprettinum og von var í lofti á kosningavöku Vinstri grænna í upphafi kvölds. Þegar líða tók á nóttina varð þyngra yfir stuðningsfólki flokksins og tár féllu í salnum.
Verða að finna nýjan farveg
„Þá er þessum 25 ára kafla lokið,“ sagði Svandís í útsendingu RÚV. „Að minnsta kosti er komið hlé í hann, en við verðum að finna farveg fyrir þessi sjónarmið.“
Bjart hafi verið yfir grasrótinni að undanförnu og mikill hugur í fólki. Hún sé því bjartsýn að það takist að finna þessum mikilvægu baráttumálum farveg. „Þegar það þarf að gróðursetja upp á nýtt þá þarf að stinga upp jarðveginn og það tekur á. Við erum á þeirri vegferð að vökva og sinna jarðveginum.“
Athugasemdir