Sigmundur Davíð steig á svið á kosningavöku Miðflokksins til að þakka sínu fólki fyrir stuðninginn. Bjart var yfir formanninum, sem dillaði sér brosandi í takt við tónlistina. „Þetta er ótrúlegt,“ sagði hann og vísaði til þess að Miðflokkurinn fékk mest fylgi í krakkakosningunum, eða um 25 prósenta fylgi. „Mig minnir að í síðustu kosningabaráttu höfum við verið með 0,3 prósent,“ sagði Sigmundur. „Þetta vonandi veit á gott.“
Fagnað var fyrir formanninum í Valsheimilinu, þar sem Sigmundur Davíð var einmitt kjörinn formaður Framsóknarflokksins árið 2009. Skömmu síðar komu fyrstu tölur í ljós, þar sem Miðflokkurinn mældist með 12,8 prósenta fylgi.
Hann varaði þó við því að enn væri nóg eftir. „Við gætum þurft að vera hér í dálítið langan tíma og ef þið ætlið að bíða eftir niðurstöðunum þá verður húsvörðurinn í fyrramálið ekkert endilega mjög sáttur við ykkur. Þetta verður löng nótt og jafnvel löng helgi.“
Athugasemdir