„Þetta hafði mikil áhrif á mig að vera inni og fylgjast með kannski 15 til 20 manna starfsliði reyna endurlífgun á sjúklingi. Stundum tókst það vel en stundum ekki. Þarna verður maður áþreifanlega var við hvað það er stutt á milli lífs og dauða.“
Þetta sagði blaðamaðurinn Jóhannes Kr. Kristjánsson í nýjasta þætti Pressu á föstudag, þar sem hann ræddi við Ragnhildi Þrastardóttur um bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi en þar hefur hann eytt fjórum mánuðum á vettvangi.
„Gengur ekki til lengdar“
Lengi hefur verið rætt um að neyðarástand ríki á bráðamóttökunni. Spurður út í stöðuna segir Jóhannes að starfsfólkið sé að gera sitt besta. „Ég held að klemman sem að starfsfólkið er í er að það teygir sig alltaf lengra og lengra til að redda aðstæðunum sem eru komnar upp, að finna pláss fyrir næsta sjúkling. Það eru engin pláss til að koma inn sjúklingum sem eru að koma inn með sjúkrabílum.“
Jóhannes segir að æ oftar komi það fyrir að það verði mjög erfitt ástand. „Það gengur ekki til lengdar. Hvorki fyrir sjúklingana sem geta skaðast og ekki síst fyrir starfsfólkið sem gefst upp að lokum. Þau reyna sitt besta en við erum held ég að fara að nálgast þann tímapunkt að þetta gengur ekki lengur.“
Gamalt fólk liggur á göngum bráðamóttöku
Hann skýrir að á göngum deildarinnar liggi sjúklingar á nóttunni. Það sé þó lítill svefnfriður. „Ef að það kemur akút tilfelli – þá verða læti þarna. Neyðarhnappurinn er að fara í gang og ómar út um alla deild. Þannig að þetta er náttúrulega engin staða. Oft á göngunum er gamalt fólk sem er að bíða eftir innlögn inn á aðrar deildir sem eru fullar vegna þess að það er ekki hægt að koma þessu gamla fólki fyrir. Það eru ekki til hjúkrunarheimili og það kemst ekki heim til sín.“
Jóhannes segir að starfsfólkið taki stöðuna nærri sér. „Það vill að engir sjúklingar liggi lengi inni á bráðamóttökunni, vegna þess að þetta er bráðamóttaka – þarna á fólk ekki að liggja lengi. Það á að fá áframhaldandi meðferð á öðrum deildum spítalans en það er ekki hægt eins og staðan er.“
Horfa má á þáttinn í heild sinni hér að neðan:
Athugasemdir