Kerfisbundin vandamál nútímans kalla á miklar breytingar þar sem velsældarhugsun getur leitt fram lausnir sem liggja þvert á ólíka geira samfélagsins. Þau efnahagskerfi sem flestar þjóðir heims fylgja hafa leitt af sér hnattræn vandamál sem sjást nú best í hlýnun jarðar, auðlindaþurrð, hnignun á líffræðilegum fjölbreytileika og auknum ójöfnuði. Hópur alþjóðlegra sérfræðinga skilgreindu níu takmörk jarðarinnar árið 2009 og nú er orðið ljóst að við erum komin yfir 6 af þessum mörkum og alveg að komast yfir það sjöunda.
Tilgangur velsældarhagkerfa er því að skapa velsæld íbúanna og náttúrunnar innan marka jarðarinnar. Nýsamþykktur Sáttmáli framtíðarinnar hjá Sameinuðu þjóðunum tekur upp velsældar hugtakið í nokkrum greinum. Velsældarhagkerfi eru í raun hagkerfi sem geta stutt að sjálfbærri þróun og því þarf kerfishugsun og samtvinnun þekkingar sem tengist umhverfinu og náttúrunni, hagkerfi, viðskiptum og fjármálum og samfélagslegum þáttum.
Velsældarhagkerfið
Árið 2017 skrifaði ég grein um nýja hagræna hugsun sem ég kallaði Sældarhagkerfi í Kjarnann, sem nú er kallað Velsældarhagkerfi. Eins og fram kom í greininni tók ég þátt í að stofna Bandalag velsældarhagkerfa (Wellbeing Economy Alliance - WEAll) í Pretóríu í Suður Afríku í nóvember árið 2017 og fór uppbygging bandalagsins af stað með krafti árið 2018. Ég var í stjórn þess og hef verið sendiherra WEAll (e. Wellbeing Economy Ambassador) frá byrjun. Í WEAll samtökunum eru stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklingar sem hafa unnið mikið starf við að byggja upp hugmyndafræðina fyrir velsældarhagkerfi.
Samtök ríkisstjórna um velsældarhagkerfi
Árið 2018 var stofnað bandalag ríkisstjórna velsældarhagkerfa (Wellbeing Economy Governments coalition – WEGo) sem hafa velsældarhugsun í sinni stefnumótun. Fyrstu löndin voru Skotland, Nýja Sjáland og Ísland en síðan hafa þrjú önnur ríki bæst í hópinn (Finnland, Wales og Kanada) og verið er að fá ríkisstjórnir annarra landa með í hópinn m.a. með aðstoð OECD.
Velsældarmiðstöðvar
Einnig hafa verið stofnaðar velsældar miðstöðvar (e. WEAll Hubs) í nokkrum löndum víða um heim. Í Danmörku var stofnuð miðstöð í vor undir heitinu trivselsøkonomi og á fyrsta opinbera fundinn mættu 1500 manns úr flestum geirum samfélagsins. Stofnfundurinn var einnig studdur af nýrri hugveitu í Danmörku sem ber heitið WELA (Wellbeing Economy Lab). Í Noregi er nýbúið að stofna WEAll miðstöð og miðstöðin í Svíþjóð verður sett á fót opinberlega í lok nóvember. Nú er undirbúningsvinna í gangi sem ég tek þátt í við að stofna miðstöð á Íslandi.
Velsældarvísar
Árið 2019 voru valdir 39 velsældarvísar fyrir Ísland, eftir undirbúning og vinnu sem ég tók þátt í fyrir hönd Stjórnarráðsins að tillögu Pírata og voru vísarnir kynntir á alþjóðlegum fundi í Háskóla Íslands sama ár og samþykktir af ríkisstjórninni árið 2020. Síðan hefur einum velsældarvísi verið bætt við svo þeir eru nú 40 og eru félagslegir, efnahagslegir og umhverfislegir. Stjórnarráðið hefur haldið utan um verkefnin sem tengjast velsældarhagkerfi en Hagstofa Íslands sér um mælingar vísanna fyrir Stjórnarráðið.
Í skipuriti Stjórnarráðsins frá í haust er velsældarhagkerfið undir Skrifstofu samhæfingar, ásamt Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, Sjálfbærri þróun og þjóðhagsráði. Velsældaráherslur og velsældarvísa má sjá myndrænt á vef Stjórnarráðsins. Sex velsældaráherslur eru nú hafðar í forgrunni við fjármálaáætlanagerð – og eru þær andlegt heilbrigði, öryggi í húsnæðismálum, virkni í námi og starfi, kolefnishlutlaus framtíð, gróska í nýsköpun, og betri samskipti við almenning. Vert er að benda á að OECD heldur utan um gögn um velsæld í ríkjum innan samtakanna, en Ísland er þar ekki með.
Velsældarráðstefnur
Árin 2023 og 2024 voru haldnar alþjóðlegar ráðstefnur í Hörpu á vegum Stjórnarráðsins og Landlæknisembættisins undir heitinu Wellbeing Economy Forum. Í bígerð er að halda slíkar ráðstefnur á Íslandi næstu 3 árin. Þar koma innlendir og alþjóðlegir gestir saman og ræða um velsæld frá ýmsum sjónarhornum, en þó mest út frá heilsu.
Stefna og áherslur Pírata
Píratar vilja halda áfram með undirbúningsvinnu fráfarandi ríkisstjórnar og setja metnað í að velsældarhagkerfið á Íslandi vaxi út frá öllum víddum sjálfbærni - samfélags, umhverfis og efnahags – enda hefur velsældarhagkerfið verið hugsað til að ná utan um sjálfbærni á heimsvísu, að okkur takist að ná Heimsmarkmiðunum og leysa loftslagsvandann.
Í stefnu Pírata er lögð áhersla á sjálfbærni, velsældarhagkerfið og að setja skýr og mælanleg markmið í loftslagsmálum og við viljum setja þessar áherslur í stjórnarsáttmálann. Því er mikilvægt að Píratar verði þátttakandi í næstu ríkisstjórn.
Hvernig lítur velsældarsamfélag út?
Ímyndum okkur að við eigum okkur öll þennan velsældardraum fyrir landið okkar. Ef stefnan er tekin upp 2025 lítum þá til tveggja kjörtímabila - og sjáum fyrir okkur Ísland svona árið 2033: Grunnkerfi samfélagsins, þar á meðal skólar, heilbrigðiskerfi og félagskerfi hafa verið reist við og þar líður fólki vel í vinnunni. Börnin okkar fá þá athygli og aðstoð sem á þarf að halda innan skóla og utan og eru hamingjusöm. Húsnæði er aðgengilegt, byggt á vistvænan máta, vel haldið við og ungt fólk er ekki á hrakhólum. Þeir sem svo kjósa búa í kjarnasamfélögum (e. cohousing) þar sem fólk býr í minna húsnæði en hefur aðgang að sameiginlegum rýmum svo sem eldhúsi þar sem allir geta eldað og borðað saman (sem vilja). Í slíku húsi/húsaþyrpingu er sameiginlegt þvottahús með segjum 2 þvottavélum í stað 20. Önnur sameiginleg rými gætu verið t.d. fundarherbergi, gestaherbergi, sjónvarpsherbergi, sauna og kaldur pottur og leiksvæði fyrir börn. Svona samfélög minnka neyslu og auka samveru og því er einmanleikinn meira og minna úr sögunni. Mannréttindi og virðing fyrir öll eru tryggð.
Almenningssamgöngur hafa stórbatnað út um allt land og vegum er vel viðhaldið. Borg og bæir eru bæði göngu- og hjólavæn. Bílaumferð hefur stórminnkað og notkun jarðefnaeldsneytis er úr sögunni. Flutningar á vörum til landsbyggðarinnar eru nú á sjó.
Stofnaðir hafa verið samfélagsbankar þar sem áhersla er lögð á sanngjörn lán í stað arðs fjárfesta. Allir borgarar fá grunnlaun sem gætu kallast borgaralaun - þar með aldraðir, öryrkjar og námsmenn. Allar tekjur þar fyrir ofan eru bónus. Þeir sem svo kjósa geta nýtt tímann í að rækta sitt grænmeti, læra eitthvað skemmtilegt, sinna útivist, stofna fyrirtæki, og hafa tíma með börnunum sínum, mökum sínum og barnabörnum. Allir eru nú með fjögurra daga vinnuviku. Skattkerfið er sanngjarnt og þeir sem fá lægstu tekjur borga minnsta skatta en þeir sem fá mjög háar tekjur borga hæsta skattinn - þar með fjármagnstekjuskatt. Komið hefur verið í veg fyrir skattaundanskot til skattaskjóla. Fjárfestingar eru fyrir verkefni sem bæta samfélag og náttúru. Jöfnuður hefur aukist gríðarlega og þjóðinni líður vel.
Bændur fá borgaralaun og geta því haft meiri tíma til að hugsa um land og dýr - sem er það sem gleður hjarta þeirra. Stór hluti bænda hefur tekið upp umhverfisvænan landbúnað eins og t.d. auðgandi landbúnað (e. regenerative agriculture) þar sem beit dýra er stýrt yfir túnin og innkaup á tilbúnum áburði hafa stórminnkað. Það sparar gjaldeyristekjur, bindur kolefni í jarðvegi, eykur líffræðilega fjölbreytni og minnkar kostnað fyrir bændur. Bændur eru nú farnir að fá greiðslur í gegn um kolefnisbókhald sem tengist landnýtingu. Dýravelferð hefur batnað því ekki bara nautgripir, kindur og hestar eru í stýrðri beit, heldur eru svín og hænur líka á landinu. Verksmiðjubúskapur með dýr hefur stórminnkað og dýravelferð aukist.
Farið hefur verið í stórátak í náttúruvernd. Skógar hafa aukist á landinu - því skógrækt hefur verið stunduð á örfoka landi og söndum. Votlendi hefur verið endurheimt út um allt land. Vel gróið mólendi hefur verið varðveitt fyrir fuglana okkar. Hálendisþjóðgarður hefur verið stofnaður og firðirnir okkar friðaðir frá sjókvíaeldi. Hvalveiðar hafa verið bannaðar. Þar sem hvalir eru næringarpumpa hafsins hafa fiskveiðar aukist. Líffræðilegur fjölbreytileiki hefur stóraukist á landi og í sjó.
Allir sem nýta sameiginlegar auðlindir borga sanngjarnt auðlindagjald að hætti Norðmanna - hvort sem auðlindirnar eru fiskurinn í sjónum, orka eða nýting á vatni eða strandsvæðum. Hluti gjaldsins rennur nú til nærsamfélaga. Ný stjórnarskrá hefur verið tekin upp með auðlindaákvæði. Enginn getur “átt” sameiginlegar auðlindir. Strandveiðar hafa stóraukist.
Vegna aukinnar náttúruverndar blómstrar nú ferðamannabransinn. Fjöldi landvarða er nú miklu fleiri í þjóðgörðum landsins. Ferðamenn borga gjald líkt og gert er í mörgum löndum, t.d. Austurríki, Sviss og Bútan sem og í þjóðgörðum Bandaríkjanna. Það gjald rennur til nærsamfélagsins til uppbyggingar þjónustu, aðstöðu og göngustígum með meiru.
Nánara yfirlit yfir hvernig velsældarhagkerfi gæti litið út má finna í New Economy, New Systems (kafli 3, Ragnarsdottir og Parker 2022) og hjá WEAll. Vert er að taka fram að það er ekki hægt að nota sömu lausnirnar alls staðar. Maðurinn hefur skapað það hagkerfi sem nú ríkir og hefur stórskaðað náttúruna og samfélögin okkar. Auðurinn flæðir frá hinum fátæku til þeirra ríku. Því getum við unnið saman að því að byggja upp nýja haghugsun.
Mig langar til að kalla svona Ísland sældarsamfélag í stað velsældarsamfélags. Viltu vera memm?
Athugasemdir (1)