Þegar ég flutti til Íslands árið 2012 voru útlendingar mun færri en í dag. Innflytjendur voru aðeins 8,9 prósent af íbúum og ferðamenn sáust hér aðallega á sumrin og á Iceland Airwaves.
Ég man þegar ég byrjaði að taka eftir breytingum. Það var að mestu leyti vegna aukinnar þjónustu fyrir ríka útlendinga, ferðamennina. Fyrst heyrðist íslenska sífellt sjaldnar á Laugaveginum, svo voru lundabúðir opnaðar alls staðar. Miðbær Reykjavíkur var í nokkur ár undirlagður framkvæmdum þar sem verið var að byggja hótel fyrir ríka útlendinga.
Á meðan ferðamönnum fjölgaði, fjölgaði einnig innflytjendum, fátækari gerðinni af útlendingum, þótt á Íslandi sé hlutfall innflytjenda sem eru virkir á vinnumarkaði hæst allra OECD-ríkja. En fyrir þá var landslagið ekki eins hlýlegt. Leigan byrjaði að hækka vegna Airbnb og skortur á húsnæði gerði vart við sig. Tungumálaskólum fjölgaði, en ekki nýju kennsluefni. Það er gerð krafa um að innflytjendur læri íslensku, en þegar þeir gera það er oftar en ekki töluð enska til baka.
„Á meðan íslenskt samfélag skilur ekki að það er hættulegt að líta á tuttugu prósent þjóðarinnar sem jaðarsettan hóp, mun það leiða til meira haturs og sífellt óstöðugra samfélags“
Stefna stjórnvalda lofar því miður ekki góðu. Útlendingalög eru gott dæmi um þetta. Nafnið sjálft gefur til kynna að litið sé á innflytjendur sem útlendinga. Á meðan íslenskt samfélag skilur ekki að það er hættulegt að líta á tuttugu prósent þjóðarinnar sem jaðarsettan hóp, mun það leiða til meira haturs og sífellt óstöðugra samfélags, þar sem öllum mun finnast óþægilegt að búa. Á meðan ríki og áróður halda áfram að kenna innflytjendum um vandamál sín, mun þetta vandamál aldrei leysast.
En mannfjöldinn heldur áfram að aukast. Í sögulegu hjarta Reykjavíkur, við Ingólfstorg, er búið að mála nokkurra metra háa veggmynd. Á henni standa ísbjörn og lundi í Reynisfjöru, með norðurljós fyrir ofan. Lundamenningin er farin að taka yfir íslenska menningu. Ferðamennirnir eru hrifnir.
Á sama tíma hefur verið gerð mynd á jörðinni við Hlemm. Maður með ferðatösku og í regnjakka leiðir barn. Er það önnur tilraun til að skrá ferðamenn í landslag Reykjavíkur? Eða er það mynd af hælisleitanda sem er máluð á götunni sem liggur frá Rauða kross-búðinni, í átt að lögreglustöðinni, þar sem hans bíður bara brottvísun?
Athugasemdir