Sjálfstæðisflokkurinn dalar í nýrri könnun Prósents og mælist nú með 12,3 prósent fylgi. Þrír flokkar mælast stærri, eins og reyndar í flestum könnunum að undanförnu. Könnun Prósents var framkvæmd dagana 1.-7. nóvember fyrir Morgunblaðið og mbl.is.
Samfylkingin mælist áfram stærsti flokkur landsins með 21,6 prósent fylgi, fylgisaukning Viðreisnar gengur aðeins til baka frá síðustu könnun Prósents og mælist flokkurinn nú með 17,1 prósent og Miðflokkurinn bætir ögn við sig frá því í síðustu viku og mælist nú með 15,1 prósent.
Á hæla Sjálfstæðisflokksins kemur Flokkur fólksins, en fylgi Ingu Sæland og félaga mælist nú 11,5 prósent í þessari könnun. Flokkurinn hefur mælst sérstaklega vel í könnunum Prósents að undanförnu, en til samanburðar má nefna að í könnun sem Maskína birti í gær mældist fylgið 8,9 prósent.
Sósíalistaflokkurinn mælist stærri en Framsókn
Tíðindi eru í botnbaráttunni í þessari nýju könnun. Í síðustu könnun Prósents, sem birtist fyrir viku síðan, mældist fylgi Sósíalista, Pírata og Vinstri grænna undir 5 prósentum á landsvísu og útlit fyrir að flokkarnir næðu ekki mönnum inn á þing.
Það breytist nú. Sósíalistaflokkurinn mælist með 6,7 prósent fylgi, hartnær þremur prósentustigum meira en í síðustu viku, og skýst upp fyrir Framsókn sem er á nákvæmlega sama stað og fyrir viku síðan með 5,8 prósent fylgi.
Píratar ná einnig yfir fimm prósenta þröskuldinn og mælast með 5,7 prósent fylgi. Fylgi Vinstri grænna er á svipuðum slóðum og í síðustu könnunum Prósents, eða um 2,5 prósent. Lýðræðisflokkur Arnar Þórs Jónssonar mælist svo með 1,4 prósent fylgi.
Úrtakið í könnun Prósents var 2.400, 1.207 svöruðu og er svarhlutfallið því rétt rúmlega 50 prósent, samkvæmt því sem fram kemur í umfjöllun á mbl.is.
Athugasemdir