Jón Gunnarsson hefur tekið sér launalaust leyfi frá þingstörfum og hefur Sigþrúður Ármann tekið sæti á Alþingi sem hans varamaður. Jón var nýverið ráðinn aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar sem sinnir um þessar mundir þremur ráðuneytum, matvæla-, félags- og vinnumarkaðs- og forsætisráðuneyti. Jón hefur starfsaðstöðu í matvælaráðuneytinu en auk hans hefur Bjarni tvo aðra aðstoðarmenn, Hersi Aron Ólafsson og Áslaugu Maríu Friðriksdóttur.
Um stöðu Jóns og hlutverk fer, líkt og um aðra aðstoðarmenn ráðherra, samkvæmt lögum um Stjórnarráð Íslands, segir í svari matvælaráðuneytis við fyrirspurn Heimildarinnar um starfskjör Jóns. Og í svari forsætisráðuneytis segir að hann njóti sömu kjara og aðrir aðstoðarmenn ráðherra.
Laun aðstoðarmanna voru í fyrra yfir 1,5 milljónir króna á mánuði.
Varð undir í slagnum um 2. sætið
Jón sóttist eftir að sitja áfram í öðru sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir bauð sig hins vegar óvænt fram í það sæti og hlaut það í kosningu flokksmanna. Jón afþakkaði nokkuð annað sæti á listanum.
Nokkrum dögum síðar var þó upplýst að hann tæki fimmta sæti á listanum og að hann yrði sérstakur fulltrúi Bjarna Benediktssonar í matvælaráðuneytinu.
Athugasemdir (2)