Árlegt átak Landverndar og Grænfánans, Nægjusamur Nóvember, er nú nýhafið í þriðja sinn og mér er hugsað til janúarmánaðar ársins 2020. Þá hélt ég til Gíneu í frí til að dansa með innfæddum og afrófjölskyldunni minni úr Kramhúsinu. Fyrir utan gleði, tónlist, hlý brosandi andlit og heillandi menningu þá var eitt sem ég tók sérstaklega eftir. Það var ströndin í höfuðborginni Conakry þar sem við dönsuðum á hverjum degi. Mér varð strax starsýnt á sandinn og það tók mig smá stund að átta mig á því hvað það væri sem sjórinn hafði náð að vefa svona þétt saman við hann. Þetta voru föt. Líklega mörg tonn, kannski tugir, kannski hundruðir tonna af fötum. Alls staðar. Ég veit hreinlega ekki hvort það var meira af sandi eða fötum á ströndinni. Af og til sáum við mann tína eina og eina flík upp í hjólbörur. Það allra versta við þessa sjón er vitneskjan um það að þetta eru ekki fötin þeirra, Gíneubúa. Þetta eru fötin okkar allra hinna.
Undanfarið hef ég einmitt heyrt fólk tala opinberlega um fatakaup sín og afsaka þau með orðum eins og „Svo sel ég flíkina bara aftur og hún fer í hringrásina”. Það blasti hins vegar við mér svart á hvítu í Gíneu að þessi margumtalaða hringrás virkar alls ekki. Ekki enn að minnsta kosti.
Eigum enn langt í land
Í öðru Vestur Afríkulandi, nánar tiltekið Ghana, er stærsti markaður fyrir notuð föt í heiminum og þar er eins konar endastöð fyrir megnið af fötum sem jarðarbúar losa sig við. Þá hafa gámarnir komið við á nokkrum stöðum þar sem endursöluaðilar hafa valið úr það sem þeim hentar. Það er þó einungis markaður fyrir um 60% af fötunum sem Vestur Afríkubúar fá og innviðir þeirra ráða alls ekki við úrganginn sem fötin skapa. Restinni er hent, í landfyllingu, út í sjó og eitthvað brennt við ófullnægjandi aðstæður og oft nálægt híbýlum fólks.
Einungis örlítið ráp á netinu þarf til að sjá enn verri aðstæður í Ghana en ég sá í Conakry. Öldur hafsins við strendurnar fullar af fötum. Bátarnir komast varla út á sjó og sjómennirnir sem vanir voru að veiða vel af sjávarfangi kvarta hástöfum yfir því að nú veiði þeir bara föt.
Staðreyndin er sú að við erum ekki komin á þann stað að geta talað um hringrás þegar við erum enn að kaupa svona mikið af nýjum fötum. Það er ekki nóg að selja fötin aftur heldur þarf neyslan að minnka mikið.
Nýtum það vald sem við þó höfum
Sem betur fer höfum við öll eitthvað vald þegar kemur að umhverfisáhrifum fataiðnaðarins. Vald til að breyta hegðun okkar, skapa gáruáhrif og leiða samfélagið til breytinga. Hönnuðir hafa vald til að hanna færri og endingarbetri vörur og framleiðendur sömuleiðis. Stjórnvöld hafa vald til að leggja línur, breyta lögum eða reglugerðum þannig að þær hvetji til hringrásarhagkerfis. Vald til að skapa hvata fyrir framleiðslufyrirtæki og innflytjendur. Það verður gott þegar þau fara nýta þetta vald örlítið betur en á meðan við bíðum höfum við sem betur fer öll vald til að velja nægjusemi.
En hvernig stundum við neytendur nægjusemi í fatakaupum? Hér eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga:
-
Viðkomandi ætti að meta hvort sé raunveruleg þörf fyrir fatakaupum - er kannski svipuð flík í fataskápnum eða fjölskyldumeðlims?
-
Skoða möguleikann á að taka gamla flík og laga eða breyta henni svo hún henti betur.
-
Athuga hvort hægt sé að leigja flík sé hún ætluð fyrir sérstakt tilefni sem kemur ekki oft upp.
-
Ef ekkert að ofantöldu gengur ættu allir að byrja í endursölubúðum og gera tilraun til að kaupa notaða flík.
-
Þá er mikilvægt að íhuga - passar flíkin inn í fataskápinn, er hún klassísk í sniði og stíl og myndi viðkomandi nota hana í mörg ár?
-
Síðasti kosturinn ætti að vera að kaupa nýja flík.
Ekki einfalt að velja vistvænt
Þegar kemur að kaupum á nýrri flík er listin að velja vistvænt, vandað og endingargott ekki einföld en þess virði að reyna að nálgast smám saman.
Þá er fyrsta skref að kíkja á þvottamiðann. Þennan pínulitla sem er oftast saumaður í hliðarsaum á fatnaði og þú þarft mögulega að grafa upp lesgleraugun til að lesa á. Já, þú neyðist til að vera týpan sem ert með nefið ofan í flíkinni í miðri búð og lest á pínulítinn miða grettinn á svip. Á þvottamiðanum eru upplýsingar um efni flíkurinnar sem hjálpa þér að meta gæði og umhverfisáhrif fatnaðarins.
Ekkert textílefni er fullkomið þegar kemur að umhverfisáhrifum og oft erfitt að bera saman lífsferilsgreiningar þeirra. Öll efni eru háð einhvers konar fórnarskiptum (e. tradeoff) þegar kemur að vistspori. Þess vegna þarft þú sem neytandi að meta hvað er mikilvægt fyrir þig og já - kanna málin. Vefsíðurnar Good On You og Ethical Consumer innihalda góðan gagnagrunn byggðan á rannsóknum og hafa gert lista yfir umhverfisvænustu efnin í fatnaði. Ef listar þeirra eru teknir saman má sjá að þar er áhersla á annars vegar lífræn efni úr hör, hamp, bómull, ull og bambus og hins vegar endurunnin efni úr bómull og ull til dæmis. Þá er einnig minnst á efni eins og Monocel, Tencel Lyocell og Tencel Modal sem æskileg.
Ókosturinn við þessa upptalningu er sá að því miður eru flíkur úr mörgum þessara efna ekki mjög aðgengilegar ennþá. Það næstbesta væri þá að velja að minnsta kosti 100% náttúruleg efni og forðast plastefni. Þau endast verr, halda í líkamslykt, brotna ekki niður almennilega og losa örplastagnir í vötn og sjó. Þá eru kaup á þeim stuðningur við olíufyrirtækin þar sem plast er búið til úr olíu.
Plastefni eru til dæmis pólýester, nælon, akrýll og flísefni. Endurunnið pólýester er skárri kostur en nýtt en losar líka öragnir. Einnig er endurunnu pólýester oft blandað saman við aðrar efnategundir og þá hefur framleiðandinn tekið vöru sem er endurvinnanleg (plastflöskuna) og umbreytt henni í óendurvinnanlega vöru. Engin hringrás þar.
Svokölluð náttúruleg efni eru ekki endilega fullkomlega ‘náttúruleg’ en eru úr trefjum sem brotna niður í náttúrunni, anda vel og geta verið endingargóð. Algeng náttúruleg efni eru til dæmis bómull, ull, hör og nú Tencel Lyocell og Modal. Forðast ætti viskós og ólífrænan bambus þar sem vinnsla á þessum efnum losar mikil eiturefni út í umhverfið. Ólífrænn bómull hefur líka mjög hátt vistspor og blessunarlega mikið af verslunum farnar að selja lífrænan bómull. Þá er mikilvægt að velja 100% hrein efni frekar en efnablöndur sem eru óendurvinnanlegar og passa ekki inn í hringrásarhagkerfið.
Þegar flík úr æskilegu efni hefur verið fundin er gott að gera örlitla prófun á henni til að meta hversu endingargóð hún er. Þreifa á efninu, því þykkara og þéttara því betra. Toga smá í saumana og meta styrk þeirra, renna rennilásnum og prófa smellurnar. Hér er málmur betra en plast.
Gott er líka að vera meðvituð um fyrirtækið sem verslað er við, styðja smærri fyrirtæki og hönnuði frekar en tískurisa og auðvitað ekki verra að kaupa íslenskt. Þá er frábært hve mörg fyrirtæki notast nú á tímum við vottanir sem hjálpa viðskiptavininum að gera góð kaup. Sjá töflu.
Eina ódýra flíkin sem þú ættir að kaupa
Eitt af lykilatriðum þess þegar kemur að því að vanda val við kaup á flíkum er að sætta sig við það að framleiðsla á fatnaði er kostnaðarsöm. Flíkur sem eru það ódýrar að við getum hreinlega vitað að einhver fór illa út úr framleiðslunni ættum við að forðast. Föt eiga ekki að kosta það sama og samlokur. Enda er oft á tíðum búið að rækta plöntu (og jafnvel dýr), spinna þráð, vefa, sauma, flytja á milli landa, borga laun, borga húsnæði og svo framvegis og ekkert af þessu á að vera ókeypis. Helst ætti eina óeðlilega ódýra flíkin sem fer inn á heimili okkar að vera notuð flík.
Valdamesta tólið og eina raunverulega tólið sem við höfum til að draga úr offramleiðslu tískuheimsins mun svo alltaf vera að minnka neyslu. Vera ánægð með það sem við höfum og beina hugsunum okkar og orku að öðru en því hvað okkur langar að eignast.
Það er nú einu sinni þannig að jafnvel umhverfisvænustu flíkurnar þurfa líka auðlindir til að verða að veruleika. Endurunnin efni þurfa líka orku og jafnvel mengandi efni til að verða til. Jörðin er lokað kerfi og auðlindirnar sem við höfum aðgang að eru ekki bara handa okkur heldur þurfa að duga komandi kynslóðum. Og hvort sem þær eru endurnýjanlegar eða ekki þá þurfum við að umgangast þær af nærgætni, virðingu og umfram allt nægjusemi. Já, þú neyðist líka til að vera þessi týpa.
Athugasemdir