Öll okkar sem til þekkja – og þau eru ófá – vita að Eiríkur Guðmundsson heitinn var útvarpslistamaður sem átti engan sinn líkan. Hann var einn skarpasti samfélagsrýnir sem samfélagið hefur alið af sér og engum líkur. Ljóðrænn, ögrandi, listrænn og beittur, því meira sem hann flæddi því skeleggari varð hann. Í honum ólgaði músík ekki síður en í Björk eða Víkingi Heiðari – eða já, David Bowie. Og penninn hans var alls ekki síðri en penni José Saramago.
Enginn getur skrifað eins og Eiríkur skrifaði.
Af þessari hnífskörpu tilfinningu.
Það breytir ekki því að við getum öll gert gloríur.
En gloría á ekki að eyða lífsstarfi okkar né rýra minningu vina og ættmenna um magnaða manneskju. Góður vinur minn hefur það fyrir viðkvæði að minnast eigi fólks fyrir það besta sem það gerði fremur en það versta. Nokkuð sem er ekki alltaf ofan á.
Aftur á móti er fólki frjálst að ræða upplifun sína af hugsanlegri gloríu annarra – að þeim lifandi og líka gengnum.
Við vorum heimskari árið 2015
Árið 2015 þegar Hallgrímur Helgason steig fram og skrifaði bæði í skáldsögu og talaði um að hann væri þolandi nauðgunar, að ókunnugur karlmaður hefði nauðgað sér og það litað líf hans, þá var það áður en vitundarvakning Metoo hafði skekið samfélagið. Bæði meðvitund okkar og innsýn í ofbeldismál sem þessi var ábótavant og töluvert skertari en í dag – þó að enn megi miklu betur gera.
Við vorum heimskari árið 2015.
Bara árið 2015 var sá hugsunarháttur meira ríkjandi að þöggun og það að orða ekki vandamál eyddi því. Að það væri jafnvel hlægilegt að hafa orð á sári. Vesen fyrir umhverfið að tjá sig um ofbeldi annarra.
Viðkvæðið: Ég hef nú lent í þessu og ...! – og ekki kveinkaði ég mér! Ekki var ég að búa til vesen í kringum mig.
Þegiðu!
Árið 2017 skrifaði ég pistil eftir samtal við stjúpdóttur mína – sem var reyndar líka stjúpdóttir Eiríks. Við höfðum verið í göngutúr í Berlín og hún var að segja mér frá einhverju sem vinkona hennar hafði lent í og væri að tjá sig um.
„Æ, guð, þarf hún nú ekki bara að slaka – við höfum nú allar lent í því,“ eitthvað svoleiðis muldraði ég og fann að ég stirðnaði aðeins, um leið og ég fann fyrir svo óútskýrðum pirringi að ég gekk næstum í veg fyrir hjól.
Þá sagði hún eitthvað á þessa leið að þessi orð mín væru þekkt fyrirbæri. Vandamál. Nefnilega orð kvenna á mínum aldri sem leituðust við að þagga niður í yngri konum því þær hefðu sjálfar lent svo illa í því en þyldu illa að heyra yngri konur orða vandann. Þá væri betra að hæðast að ungu konunum! Frekar en að feisa hvað kona lét yfir sig ganga sjálf. Pirrast og segja þeim yngri að þegja ef þær ætluðu ekki að gera sig að fífli. Þegiðu!
Ekki nógu karlmannlegt að vera þolandi
En síðan árið 2015 hefur okkur líka orðið betur ljós áhrif áfalla. Hvers konar áföll eru viðurkenndari en áður, jafnt sem áfalladrifið atferli, og eins það að viðbrögð annarra við tjáningu á áfalli geta haft áhrif bæði til góðs og ills. Jafnvel hrundið manneskju aftur í áfall séu þau dræm eða geri lítið úr upplifuninni. Þá var heldur ekki eins víðtæk meðvitund um að áföll geta búið í okkur og við orðið andsetin af þeim við áreiti.
Kannski var Hallgrímur álíka græskulaus og mörg okkar um margt þegar hann skrifaði um þegar honum var nauðgað í skáldsögunni Sjóveikur í München. Stuttorður gerði hann þessu skil á einni eða tveimur síðum. Raunar rifjaði hann upp í viðtali í Heimildinni um daginn að yfirlesarar hafi þá bent honum á að lýsingin bæri með sér að hann veigraði sér við að fara inn í sársaukann.
En við vissum öll aðeins minna – árið 2015.
Og sársaukinn bjó í honum.
Aðrir geta ekki gert sér hugarlund þennan sársauka. Niðurbrot. Eða líðan. Eftir nauðgun. Upplifunin er aðeins hans.
Þarna var karlmaður að sýna það hugrekki að segja frá kynferðislegu ofbeldi. Nokkuð sem margir karlmenn veigra sér við eins og það sé einhvern veginn ekki nógu karlmannlegt að vera þolandi.
Hugarburður – eða?
Á augnablikinu sem Hallgrímur hélt á fyrsta eintakinu af téðri skáldsögu hefur hann líklega ekki órað fyrir foraðinu sem hann var kominn út á. Viðbrögðum annarra karlmanna við afhjúpun hans.
Kollegi hans, Guðbergur Bergsson, sem átti óumdeilanlega merkt lífsstarf, skrifaði svo ógeðfelldan og hæðinn pistil í DV að í pistli sem ég skrifaði um þetta um daginn – og var stuttorð vegna umbrots – gat ég þó ekki haft nema eina setningu eftir honum, mér leið eins og ég væri að enduróma ofbeldi ef ég birti meira úr þessum pistli.
Skrif hans vöktu hörð viðbrögð og hótanir um bókabrennur. Þá brást Eiríkur Guðmundsson, þáttarstjórnandi menningarþáttarins Víðsjár á RÚV, þannig við að hann kynti undir hæðninni í nafni bókmenntanna, í eins konar málsvörn fyrir skáldskapinn og um leið Guðberg. Í þessum pistli vitnaði hann af helberri tilviljun í undirritaða með þessum orðum: „„Lífið er okkar eigin hugarburður,“ sagði Auður Jónsdóttir rithöfundur í viðtali hér í Víðsjá í fyrradag.““
Viðbrögð annarra geta verið skaðleg
Nú samsinni ég eigin orðum í orðum Eiríks. Já, lífið er hugarburður og bæti við: Og algjör óreiða!
En það breytir ekki sársaukanum. Sársauki er sársauki.
Sársauki minn, sársauki Eiríks, sársauki Hallgríms. Sársauki þinn! Sársauki okkar allra. Hann er sannur – þegar hann er. Mitt í öllum hugarburðinum. Og hvort sem við erum keyrð áfram af samlíðan eða meðvirkni þá getum við aldrei upplifað sársauka annarra til fulls. En við getum aukið á hann með ógætilegum orðum. Viðbrögð annarra við því þegar þú segir frá ofbeldi sem þú hefur verið beitt/ur geta verið eins skaðleg og ofbeldið sjálft. Og jafnvel skaðlegri.
Þegar við dóum lifandi
En skrif Eiríks áttu, að ég hef heyrt, eftir að valda honum sjálfum sársauka. Hann baðst afsökunar, í útsendingu síðar og á Facebook, en við þannig kringumstæður og með þeim hætti að Hallgrímur upplifði það snautlegt. Á því getur fólk haft alls konar skoðanir. En skoðanir þess breyta engu um hvað Hallgrímur lifði.
Þegar Metoo-bylgjan reis sem hæst þyrlaði málið þeim báðum á myrkan stað. Skrif Eiríks á Facebook að sýna konum stuðning tendruðu óþægindi í Hallgrími. Og það er ekkert skrýtið. Áföll búa í okkur og orð annarra geta endurvakið þau. Hrint okkur í hið liðna, líkt og við séum þar enn þá. Verðum þar alltaf, í augnablikinu þegar við dóum lifandi.
Óvitar gærdagsins
Nákvæma málavexti getur fólk kynnt sér með smáræðis gúggli. Pistlana og skrifin á Facebook.
Rétt eins og það getur gúgglað mig þegar ég hrinti hugsanlegum konum í áfall með óvarlegum skrifum um notkun á orðinu ofbeldi á Facebook fyrir nokkrum árum og það eftir Metoo-byltingu.
Við erum öll óvitar gærdagsins.
Hugarburður og sársauki að berjast fyrir narratívu eigin lífs. Tilverurétti. Mörkum. Að vera ekki sett niður þegar við berjumt fyrir sjálfum okkar. Með orðum. Og stundum: Í skrifum.
Hættulega kúl
Ég get mér til að málið hafi valdið Eiríki sársauka því ég veit að eftir brátt andlát hans bjó stunga hugsunarleysis í orðum einhverra sem áfelldust Hallgrím fyrir andlát hans. Að lifa með slíkum ásökunum, jafnvel þó að þær berist aðeins með vængjaslætti slúðursins, er meira en að segja það. Endalaust eitthvað sem rífur í ofbeldisverknaðinn sem varð kveikjan að eitraðri umræðu á Íslandi löngu síðar. Þegar verknaðurinn hafði dvalið í tilurð sinni eins og ófreskja í hyldýpi sem skapar endalausar árur þegar hún skýtur loksins upp kollinum. Eins raunverulegt og þegar það gerðist.
Og hvað hafði Hallgrímur gert? Jú, hann brást við hæðnislegum viðbrögðum annarra við því að stíga fram sem þolandi. Særður, ringlaður, skilningsvana.
Ugglaust áttuðu sig margir á mörgu við viðbrögð hans. Líka Eiríkur. Við vorum jú heimskari og hættulega kúl árið 2015.
Það var óþægilegt að átta sig.
Smá fyndið að karlmanni sé nauðgað?
Hallgrímur er karlmaður og sterkur listamaður, einhvern veginn var eins og ýmsir skynjuðu hann svo sterkan að hann gæti ekki verið viðkvæmur. Skildu ekki eðli málsins. Sárið í ofbeldinu sem hann var að bisast við að segja frá, nauðguninni. Bara eins og það væri smá fyndið að karlmanni hefði verið nauðgað.
Undanfarna daga hafa verið nokkur viðbrögð við viðtali mínu við Hallgrím hér í Heimildinni. Margir hafa hrósað því sem þar kemur fram en eins hefur líka verið hringt í mig og ég fengið skilaboð frá fólki að segja að nú sé kominn tími til að Hallgrímur taki afsökunarbeiðni Eiríks gilda. Eða segir: Hvað á það að þýða að opna þetta sár? Bara hræðilegt að leyfa ekki kyrru að liggja.
Ég hef líka fengið send skjáskot af afsökunarbeiðni Eiríks á Facebook, þar sem hann ítrekar afsökunarbeiðni sína um leið og eitthvað fólk ræðst að honum.
En ég fékk líka færslu af orðum Hallgríms þar sem hann reynir að taka afsökunarbeiðnina gilda, um leið og orð hans bera með sér vanlíðan.
Ekki hægt að krefjast fyrirgefningar
Raunar er svo oft gerð krafa á brotaþola að þeir leggi allt að baki sér. Að nú sé þetta orðið gott og tími til kominn að halda áfram. En það er ekki hægt að krefja aðra um að fyrirgefa eitthvað. Við getum ekki krafist þess að annar fyrirgefi það sem hefur sært hann eða hana. Eða hvenær tími sé til þess kominn!
Eða segja viðkomandi að hann megi ekki tala um hitt eða þetta – af því það sé óþægilegt fyrir aðra.
Í þessu viðtali var Hallgrímur auk þess að segja frá viðbrögðum við frásögn hans sem hann hafði ekki sagt frá áður, nefnilega að raddir hafi sagt að hann bæri ábyrgð á dauða Eiríks. Nokkuð sem átti sér eðli málsins samkvæmt stað eftir andlátið.
Einn um sína upplifun
Í öllu þessu máli býr sársauki en líka múgæsing.
En Hallgrímur er einn um sína upplifun. Enginn getur sett sig í spor hans. Og hann hefur fullan rétt á því að segja frá áhrifum þessa atburða á sig, líkt og hann gerði hér í síðustu viku í viðtali við mig í Heimildinni. Hann hefur líka fullan rétt á að skilja afsökunarbeiðnina sínum skilningi. Honum ber ekki skylda til neins. Hallgrímur má segja það sem hann þarf að segja.
Eitrið í umræðunni er eftiralda sjálfs verknaðarins en í henni býr umbreytingarmáttur. Í raun gjöf. Gjöf fyrir samfélag að fálma eftir skilningi í gegnum þessa tvo menn, tvo helstu samfélagsrýna sína. Um leið og þeir reyndu báðir að skilja eitthvað upp á nýtt – í átökum og samtali sem reyndi á þá báða.
Eitthvað sem við erum enn þann dag í dag að reyna að skilja.
Betur.
Mál þetta hefur jú mun breiðari skírskotun fyrir almenning. Það spyr: Hvernig tökum við karlmönnum sem stíga fram sem þolendur?
Og hvernig geta viðbrögð okkar skipt sköpum?
Ekki vanvirðing að hafa sært einhvern
Engin ástæða er til þess að áfellast Hallgrím, hvorki undir rós eins og sumir né með látum. Eiginlega er það fáránlegt. Hvað þá að heimta að hann geri eitt eða neitt. Því síður litar þetta mál merkt lífsstarf Eiríks og allt það sem hann gaf samfélaginu. Við eru öll ófullkomin og stundum ... já, stundum særum við aðra. Þannig er það ekki vanvirðing við látinn mann að rifja upp að hann hafi sært annan í tilteknu máli. Því síður er það skilgreining á honum eða verkum hans.
Að álíta það vanvirðingu er meðvirkni. Því jú, við vorum öll aðeins vitlausari fyrir nokkrum árum.
En mál þetta er til marks um hvernig við getum misstigið okkur þegar við erum á valdi orðanna. Allir sem eru sískrifandi á útopnu, hvort sem það er Hallgrímur, Eiríkur, Guðbergur eða ég sjálf skrifa stundum eitthvað miður gott. Og annað betra daginn eftir. Aðrir líka! En það að lesa hugsanir annarra er tækifæri til að spegla sínar. Eins að hlusta á rökræður annarra. Nokkuð sem samfélagið þarf til að þróast og skerpa á gildum sínum. Við erum í stöðugum átökum til að finna sem besta leið fram á veginn. Til að skilja það sem við skildum ekki áður.
Fálmum eftir skilningi. Með orðum.
Athugasemdir (1)