Það er gleðilegt að sjá að Volodómír Selenskí, forseti Úkraínu, hafi séð sér fært að koma til Íslands á fund allra forsætisráðherra Norðurlandanna á Norðurlandaráðsþingi. Það var líka gott að sjá samstöðu leiðtoga Norðurlandanna með Úkraínumönnum. Skilaboðin voru skýr: Norðurlöndin standa áfram þétt við bakið á Úkraínu. Alltof margt fólk hefur látið lífið í ólöglegri innrás Rússa inn í Úkraínu sem hefur nú staðið yfir í rúm tvö ár og í kjölfarið hafa átt sér stað fjölmennustu fólksflutningar í heiminum frá seinni heimsstyrjöld. Alls hafa 10 milljónir Úkraínumanna flúið heimili sín vegna stríðsins, bæði innan Úkraínu en líka til Evrópuríkja.
Ísland hefur stutt veglega við Úkraínubúa með mannúðaraðstoð og diplómatískum stuðningi og við höfum tekið vel á móti saklausu fólki frá Úkraínu sem hefur neyðst til að rífa upp rætur sínar til að flýja stríðið. Ísland hefur tekið á móti um fimm þúsund manns frá Úkraínu, mestmegnis konum og börnum. Mannúðaraðstoð af því tagi þarfnast góðs skipulags og vilja stjórnvalda til að útfæra móttökuna vel og það hefur tekist að langmestu leyti, þó að það hafi búið til mikinn þrýsting á móttökukerfi okkar, húsnæðiskerfi og skóla. Enda ekki skrýtið.
Almenningur á Íslandi hefur líka sýnt stuðning sinn við flóttafólk frá Úkraínu í verki með beinum eða óbeinum hætti; hvort sem er með gjöfum eða óeigingjarnri sjálfboðamennsku.
En fólk er á flótta annars staðar í heiminum. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna áætlar að á síðasta ári hafi 126 milljónir verið á flótta. Tæplega átta milljónir manna hafa flúið heimili sín vegna stríðsins í Súdan og næstum þrjár milljónir manna hafa nú flúið heimili sín vegna innrásar Ísraela inn á Gaza og á Líbanon. Tugþúsundir hafa látið lífið í grimmilegum árásum Ísraelshers á saklaust fólk á Gaza. Konur, börn og karlar. Og mannfallið í Líbanon hleypur á hundruðum. Stríðsátök eru meginástæða þess að saklaust fólk tekur sig upp og yfirgefur heimili sín, samfélagið sitt, yfirgefur jafnvel fjölskyldur og vini. Langflest þeirra sem flýja vegna stríðsátaka eru konur og börn samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna. Stríð umturnar lífi fólks og langflest þeirra sem hafa búið við stríð verða aldrei söm eftir þá lífsreynslu.
Viðbrögð okkar við stríðinu í Úkraínu eiga að vera leiðarljós
Viðbrögð okkar Íslendinga, í samvinnu við aðrar líkt þenkjandi þjóðir, við innrás Rússa inn í Úkraínu og stuðningur og aðstoð við úkraínsku þjóðina eiga að vera okkur fyrirmynd og leiðarljós þegar við sýnum öðrum þjóðum stuðning vegna ólöglegra innrása og stríðsátaka gagnvart saklausu fólki. Hvar sem það býr, hvaða trú sem það aðhyllist eða hvernig það lítur út. Við viljum öll frið og við eigum ekki að gera upp á milli fólks sem flýr stríð. Við þurfum að standa alltaf skýrt með friði og forystufólk þjóðarinnar þarf ávallt að boða í hvívetna friðsamlegar lausnir á vopnuðum deilum og stríðum. Friðarstefnan hefur nefnilega verið almennt leiðarstef í íslenskri utanríkisstefnu og henni eigum við að fylgja áfram í heimi vaxandi stríðsátaka og spennu. Þá skiptir meira máli en nokkru sinni fyrr að nýta rödd okkar og áhrif til að tala fyrir friði.
Tökum á móti öfgahægrinu og pópulismanum
En það eru blikur á lofti og spenna á alþjóðasviðinu. Aukin þjóðernishyggja og útlendingaandúð í Evrópu, Bandaríkjunum og hér á landi er ógnvænleg. Hún býr til og elur á ótta hjá fólki og klýfur samfélög. Afraksturinn af þessari einangrunarstefnu og andúð birtist svo í vaxandi hernaðarhyggju með tilheyrandi spennu, stríðsátökum og mannfalli. Undanfarið hefur því miður alltof margt stjórnmálafólk á Íslandi daðrað við eða upphafið útlendingaandúð í miklu meira mæli en áður. Sama stjórnmálafólk gerir lítið úr eða grefur undan alþjóðastofnunum og alþjóðlegum sáttmálum. Allt í popúlískum tilgangi sem þjónar því eina markmiði að sundra grunngildum um mannréttindi og mannúð sem alþjóðleg sátt hefur verið um í kjölfar hryllings seinni heimsstyrjaldarinnar.
Við svona aðstæður reynir á mótstöðu þeirra sem vilja standa vörð um mannréttindi, mannúð og frið. Þá ríður á að sem flest tali og beiti sér skýrt gegn popúlisma og öfgahægrinu. Það gerum við með því að vinna gegn einangrunarstefnu, sundrungu og klofningi og leggja áherslu á opin og fjölbreytt samfélög. Leggja áherslu á inngildingu fólks en ekki útilokun og á samvinnu okkar allra og samstöðu. Á mannúð og mannréttindi. Og það reynir ekki síst á að tala stöðugt fyrir friði og vinna af öllum mætti gegn stríðsátökum.
Eini íslenski stjórnmálaflokkurinn sem hefur haft skýra friðarhyggju í sinni grunnstefnu frá stofnun er Vinstri hreyfingin – grænt framboð. Til að öfgahægrinu og popúlismanum sé mætt og að friðarstefnan heyrist almennilega og sé áfram á dagskrá í íslenskum stjórnmálum og hafi vægi á Alþingi þurfa kjósendur að kjósa VG í næstu þingkosningum.
Rósa Björk Brynjólfsdóttir skipar 2. sætið á lista VG í Reykjavík norður.
Sem langflestir þa varð eg orðlaus yfir ákvörðun Bjarnan Benediktssonar um að greiða einhverja milljarða í hergagnakaupasjoð Nató til að senda Úkraníu vopn.
Eg hefði viljað sjá að við aðhefðumst eitthvað annað. Hér á landi starfar eitt virtasta fyrirtæki í framleiðslu gervilima, Össur. Hefði ríkisstjórnin eða öllu heldur það sem eftir er af henni tekið þá ákvörðun að kaupa gervilimi hjá Össuri og senda stríuðsþjáðum löndum, þá hefðum við sýnt öðrum þjóðum gott fordæmi. Mikil þörf er fyrir gervilimi ekki aðeins í Úkraníu heldur einnig Rússlandi, á Gazasvæðinu og jafnvel Ísrael sem ættu að huga að nýjum kosningum og koma þessum stríðsglaða forsætisráðherra sínm frá völdum.
Hergögn koma fyrst og fremst framleiðendum þeirra að gagni en ekki þeim þjáðu og sjúku.
Um þetta ritaði eg grein sem birtist í Morgunblaðinu fyrr á þessu ári: Grimmdin og græðgin sem birtist 8. október. Greinin hljóðar svo:
Grimmdin og græðgin
Þegar Eisenhower forseti BNA kvaddi Hvíta húsið 17. janúar 1961 flutti hann af því tilefni mjög magnaða kveðjuræðu. Þar varar hann bandarísku þjóðin og þar með heimsbyggðina alla við sívaxandi umsvifum og áhrifum hergagnaiðnaðarins. Það er ótrúlegt að herforingi sem fór með æðsta vald herliðs BNA í Evrópu hafði mikla tortryggni gagnvart hergagnaframleiðendum. Síðan þá allar götur síðan hafa hergagnaframleiðendur sífellt verið að færa sig upp á skaftið, hafa náð hreðjartökum á stjórnmálamönnum sem þeir hafa meira og minna í vasanum og skipa þeim fyrir hvers vænst er af þeim. Allt til þess gert að skara betur að sínum hagsmunum að framleiða meira af hergögnum af margskonar tagi.
Þetta er ógnvænleg þróun sem hefur verið á kostnað mannréttinda og allrar skynsemi við málefni alls heimsins. Þessa ræðu Eisenhowers má víða finna enda er oft til hennar vitnað af þeim sem vilja efla frið meðal þkjóða. Hér er líklega ein af betri heimasíðunum: https://www.archives.gov/milestone-documents/president-dwight-d-eisenhowers-farewell-address
Þessi ræða ætti að vera skyldulesning allra þeirra sem fást við stjórnmál og fjölmiðlun enda fer þessi fyrrum forseti BNA ákaflega nálægt því sem lýsir vel verstu meinbugum heimsbyggðarinnar. Í huga hergagnaframleiðenda er allt friðartal sem ógn fyrirfrekari gróðavon sem ætti að vera næg fyrir. Heimsbyggðin hefur sífellt mátt þola ofbeldi af mörgu tagi undir ýmsum forsendum.
Þegar þjóðarleiðtogi finnur til öryggisleysis síns í heimalandi sínu, finnur að baklandið verði veikara með hverjum deginum sem líður þá freistast þeir stundum til að fara út í stríðsaðgerðir. Þetta á vel við bæði þá stríðsfélagana Wladimir Pútín og Benjamin Natanyaho. Fyrir hvorugum þeirra eru sjúkrahús, skólar og heimili almennra vopnlausra borgara ósköp vnjuleg skotmörk sem þeim sé frjálst að ráðast á til að vekja sem mesta ógn. Grimmdin virðist vera óseðjandi í huga þessara stríðherra að minnir ískyggilega á verstu stríðsglæpi nasista á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar. Þegar mannréttindum og lýðræðinu er vikið til hliðar þá er veruleg hætta á ferðum, samfélagið þróast inn í afarslæma bindgötu sem torvelt er að finna skynsamlega og friðsamlega leið til baka.
Viið Íslendingar höfum alltaf verið vopnlaus þjóð og höfum aldrei haft okkar eigin her. Slíkt er enda mjög kostnaðarsamt og höfum við meira en nóg að gera við opinbera fjármuni að reka heilbrigðisþjónustuna okkar, skóla,og byggja nýtt og nytsamlegt. Þá er reynst mjög dýrt að leggja nýja vegi og viðhalda vegakerfinu okkar. Við búum í erfiðu landi þar sem sumarið er stutt en veturinn þess lengri og er umhleypingasamari en þekkist í flestum löndum. Við erum heppin að vera fjarri þessum hrikalegu átakasvæðum þar sem grimmdin er ríkjandi.
Fyrir nokkrum vikum bárust þær fréttir að ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar hafi orðið við tilmælum sem væntanlega eru frá hergagnaframeliðendum að leggja gríðarlega mikið fé til NATO í þeim tilgangi að kaupa vopn. Þetta verður að teljast mjög ámælisverð ákvörðun ríkisstjórnar sem veit ekkert hvað hún vill. Þjóðin er ekki innt umsagnar um það er eins og þetta gríðarlega mikla skref að taka þátt í hernaði langt uti i löndum komi okkur friðsamri þjóð ekki við. Hefði ekki verð hyggilegra að senda þessum stríðandi þjóðum það sem meiri þörf er fyrir: vistir af ýmsu tagi sem koma að gagni og við framleiðum og getum lagt af mörkum öðrum til góðs fordæmis. Eg vil sérstaklega nefna gervilimi sem Össur hefur framleitt undanfarna áratugi og koma þeim sem hafa misst fót eða hönd að góðu gagni. Þetta ætti að senda til beggja aðila, Rússlands, Úkraníu, til Palestínumanna og Ísraela. Ætli sé ekki nóg af vopnum fyrir sem ekki þarf að fjölga? En það eru hundruðir þúsunda sem hafa orið fyrir hernaðarógninni og það þarf fremur að bæta hag þeirra en stríðsherranna.