Hvernig var í skólanum?“ spurði ég átta ára son minn. „Slay,“ svaraði hann. Þegar ég tjáði honum að það væri pista í kvöldmatinn hrópaði hann upp yfir sig af gleði: „Sigma!“
Undirtektirnar voru hins vegar ólundarlegar þegar ég bað hann um að taka til í herberginu sínu. „Skibidi Ohio,“ muldraði hann í barminn.
Fyrir nokkru fór ég að velta fyrir mér hvort sonur minn væri andsetinn. Upp úr honum hrukku tilefnislaus hljóð eins og hiksti sem virtust ekki hafa nokkra merkingu. Sigma!
Gíatt! Söss! Hvað gekk eiginlega á?
„Hinir fullorðnu vita ekki hvort þeir eiga að kalla til málfarsráðunaut eða særingamann
Við eftirgrennslan kom í ljós að um var að ræða nýtt slangur sem fór eins og eldur um sinu á skólalóðum í London þar sem við búum.
Tískubylgjan hefur nú náð Íslandsströndum þar sem ungmenni reka sí og æ upp umrædd bofs svo að hinir fullorðnu vita ekki hvort þeir eiga að kalla til málfarsráðunaut eða særingamann. Það eru þó ekki aðeins börnin sem taka um þessar mundir upp undarlega málfarskæki frá útlöndum.
Alltaf að neita
Í síðustu viku fór ég á frumsýningu kvikmyndarinnar „The Apprentice“. Myndin er sannsöguleg og fjallar um Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, og umdeildan lögmann, Roy Cohn, sem var lærimeistari Trumps við upphaf viðskiptaferils hans.
Cohn innrætti Trump þrjár lífsreglur. Til að ná árangri skyldi hann alltaf vera í árásarham, ávallt neita öllu og aldrei játa sig sigraðan. Trump fylgdi reglunum vægðarlaust í viðskiptum. Það var hins vegar ekki fyrr en þær urðu honum leiðarljós í stjórnmálum að heimsbyggðin öll varð fyrir barðinu á þeim.
Við upphaf árs voru sagðar fréttir af því að 2024 kæmi til með að vera mesta kosningaár sögunnar er tæpur helmingur íbúa jarðar gengi að kjörborðinu í um sjötíu kosningum um heim allan. Fyrr í mánuðinum fjölgaði kosningunum enn þegar Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sleit óvænt stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna.
Tveim dögum eftir ákvörðun Bjarna bárust fréttastofu Vísis ábendingar um að Svandís Svavarsdóttir, formaður Vg, væri byrjuð að pakka niður á skrifstofu sinni í innviðaráðuneytinu. Þótti það benda til þess að þingflokkur Vg hygðist ekki taka þátt í starfsstjórn eftir að Bjarni bæðist lausnar fyrir sig og ríkisstjórn sína.
Fréttastofan hringdi í aðstoðarmenn Svandísar til að kanna málið. Kváðu þau ekkert hæft í fullyrðingunni. Sagði annar aðstoðarmannanna um „þvælu“ og „falsfrétt“ að ræða.
Stuttu síðar stóð skrifstofan tóm.
Þótt ásetning skorti
Í gær hófst vika fjölmiðla- og upplýsingalæsis á vegum Sameinuðu þjóðanna. Er átakinu ætlað að vekja fólk til meðvitundar um „mikilvægi þess að það þrói með sér leikni í gagnrýninni hugsun í hinu stafræna vistkerfi sem við búum við í dag“.
„Ég geri það til að gera ykkur tortryggileg og til að lítillækka ykkur“
Roy Cohn lést árið 1986, þremur árum áður en veraldarvefurinn var fundinn upp. Engu að síður á hann stóran þátt í því ástandi sem kallar á átakið. Því það er ekki aðeins miðillinn sem skapar vandann á stafrænni öld heldur liggur sökin jafnt hjá þeim sem flytur boðskapinn.
Donald Trump fylgir enn lífsreglum Roys Cohn. Mislíki honum fréttaflutningur ræðst hann á fjölmiðilinn og hrópar „falsfrétt“. Fréttakona spurði hann eitt sinn hvers vegna hann stundaði slíkar árásir. „Ég geri það til að gera ykkur tortryggileg og til að lítillækka ykkur svo að enginn trúi ykkur þegar þið skrifið neikvæðar fréttir um mig.“
Sonur minn hefur ekki hugmynd um hvers vegna hann segir í sífellu „slay“ og „sigma“. Hann gerir það einfaldlega af því að þannig tala hinir krakkarnir á leikvellinum.
Reyndi Bjarni Benediktsson að lítillækka ríkismiðilinn þegar hann byrsti sig í Silfrinu?
Reyndi aðstoðarmaðurinn í innviðaráðuneytinu sem hrópaði „falsfrétt“ að gera vefmiðilinn Vísi tortryggilegan? Reyndi Bjarni Benediktsson að lítillækka ríkismiðilinn þegar hann byrsti sig í Silfrinu og kvað það „ekki boðlegt að Ríkisútvarpið tali um starfsstjórn með nýjum forsætisráðherra“ þegar hugmyndin var ekki runnin undan rifjum RÚV heldur formanns Vg?
Vel má vera að enginn sérstakur ásetningur hafi legið að baki orðanotkuninni; að um hafi verið að ræða merkingarlausan kæk sem viðkomandi tileinkuðu sér ómeðvitað við að fylgjast með hinum krökkunum á pólitíska leikvellinum.
En þótt ásetning skorti er skaðinn sá sami. Óskandi er að komandi kosningabarátta verði ekki háð undir Trumpískum áhrifum eftir reglum Roys Cohn.
Athugasemdir