Lenya Rún Taha Karim var efst í prófkjöri Pírata í Reykjavíkurkjördæmunum, Björn Leví Gunnarsson í öðru sæti, Halldóra Mogensen í því þriðja og Andrés Ingi Jónsson í fjórða sæti. Lenya er varaþingmaður Pírata og formaður Ungra Pírata en Björn, Halldóra og Andrés eru öll sitjandi þingmenn flokksins.
Í fimmta sæti er Dóra Björg Guðjónsdóttir, oddviti Pírata í Reykjavík, og Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata í Reykjavík, í því sjötta.
Lenya Rún og Björn Leví leiða því hvor sinn listann í Reykjavík. Píratar eru nú með sex þingmenn, þar af fjóra úr Reykjavíkurkjördæmunum.
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingflokksformaður er oddviti í Suðvesturkjördæmi, í öðru sæti er Gísli Rafn Ólafsson sem einnig er sitjandi þingmaður flokksins, og í þriðja sæti er Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi.
Píratar eru nú með tvo þingmenn úr Suðvesturkjördæmi, þau Þórhildi Sunnu og Gísla Rafn.
Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, kynjafræðingur og sérfræðingur í málefnum hinsegin fólks, leiðir listann í Norðvesturkjördæmi, Sunna Einarsdóttir er í öðru sæti og Pétur Óli Þorvaldsson í því þriðja.
Týr Þórarinsson, oft kallaður Mummi og var kenndur við Götusmiðjuna, er nýr oddviti Pírata í Suðurkjördæmi en Álfheiður Eymarsdóttir, bæjarfulltrúi í Árborg og varaþingmaður, er í öðru sæti. Bergþór H. Þórðarson, fyrrverandi varaformaður ÖBÍ - réttindasamtaka er í því þriðja.
Theodór Ingi Ólafsson er oddviti Pírata í Norðausturkjördæmi, Adda Steina í öðru sæti og Viktor Traustason, fyrrverandi forsetaframbjóðandi, er í því þriðja.
Prófkjöri Pírata vegna alþingiskosninga 2024 lauk klukkan 16:00 í dag en Píratar eru eini flokkurinn sem heldur prófkjör í aðdraganda alþingiskosninganna.
Niðurstöðurnar voru kynntar í Petersen svítunni klukkan 17. Tilkynnt var um niðurstöður í bindandi sætum í öllum kjördæmum en það eru 4 efstu sæti í Norðvesturkjördæmi, 5 efstu í Suður- og Norðausturkjördæmi, 7 efstu í Suðvestur- og 12 efstu í Reykjavíkurkjördæmunum.
Upplýsingar um frambjóðendur má nálgast í kosningakerfi Pírata en alls voru 69 manns í framboði.
Píratar stefna að því að kynna endanlega lista í öllum kjördæmum á næstu dögum.
Athugasemdir