Endalok Vinstri grænna birtust í sjónvarpinu á mánudagskvöld þegar formenn flokka Alþingis voru spurðir með hverjum þeir vildu mynda ríkisstjórn eftir kosningar og Svandís Svavarsdóttir svaraði því til að hún þyrfti bara að ná inn á þing. „Mitt verkefni númer eitt, tvö og þrjú er að komast inn á þing. Ég er að mælast með fylgi sem er undir fimm prósentum, þannig að okkar viðfangsefni núna er að komast með þingflokk inn á þing við kosningar,“ sagði hún.
Í svarinu lá uppgjöf. Hún bætti því svo við að ef til samstarfs kæmi væri það á félagslegum grunni, „snúist um samfélag en ekki sérgæsku og einstaklingshyggju“ en það var of seint. Hún var búin að missa salinn. Hún virkaði buguð eftir misheppnaða tilraun til að rísa loks upp gegn Sjálfstæðisflokknum í beinni útsendingu.
„Formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, getur ekki einn stýrt framvindunni og tekið ákvörðun um að slíta hérna ríkisstjórnarsamstarfi og talið svo að í framhaldinu hafi hann öll spil á hendi,“ hafði hún sagt fyrr í þættinum og lagt til að skipuð yrði ný ríkisstjórn með Sigurð Inga Jóhannsson í forsætisráðuneytinu. „Ég er bara að segja að þingflokkur VG hefur tekið þá ákvörðun að taka ekki þátt í ríkisstjórnarsamstarfi sem sem Bjarni Benediktsson leiðir.“
Tillagan virtist vera illa undirbúin. Rökfærsla Svandísar var ósannfærandi, en vísað hefur verið til trúnaðarbrests sem fólst í því að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu án samráðs við samstarfsflokkana. En það er eðli sambanda að hver sem er getur slitið þeim, hvenær sem er. Bjarni tók bara af skarið og gerði það sem hún sjálf hafði boðað, að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu. Fyrir vikið virtist henni vera illa misboðið. Hún gaf líka óþarfa höggstað á sér með því að tala um nýja ríkisstjórn sem starfsstjórn, Bjarni hjó í orðalagið og hékk á því til að undirstrika að þarna væri kona á ferð sem vissi ekki um hvað hún væri að tala. Hafi Svandís verið búin að komast að samkomulagi við Sigurð Inga fyrir útsendinguna snerist hann gegn henni á staðnum og talaði með afgerandi hætti gegn tillögunni, eðlilegast væri að mynda starfsstjórn fram að kosningum. Sama gerðu allir aðrir í salnum.
Eftir sat Bjarni með rjóðar kinnar af reiði, en öll spil á hendi. Eins og hann hafði ætlað sér.
Of lítið og of seint
Fyrir þá sem hafa deilt þeirri sýn að mikilvægt sé að eiga málsvara friðar, kvenfrelsis og náttúru á Alþingi, var útspil Svandísar of lítið og of seint. Það að taka ekki sæti í starfsstjórn með Sjálfstæðisflokki mun ekki duga til að endurheimta trúverðugleika Vinstri grænna, flokksins sem reisti Sjálfstæðisflokkinn við og kom honum aftur til valda fyrir sjö árum síðan. Og hefur á þessum sjö árum allt of oft undirgengist ákvarðanir og gjörðir sem ganga þvert gegn grunngildum Vinstri grænna til að hægt sé að trúa því að héðan í frá muni flokksforystan vinna út frá yfirlýstum hugsjónum.
Vinstri græn töpuðu trúverðugleika strax í kosningabaráttunni 2017 og hafa haldið áfram að sökkva síðan. Hér að neðan er upprifjun á nokkrum málum sem hafa laskað Vinstri græna, en listinn er langt í frá því tæmandi:
Höfuðandstæðingar saman í stjórn
„Það er alvanalegt í aðdraganda kosninga að miðjuflokkar reyni að setja af stað orðróm um að vinstri flokkurinn á hverjum tíma ætli að taka upp samstarf við Sjálfstæðisflokkinn. Slík herferð er nú farin af stað,“ skrifaði Svandís í október 2016. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var þá nýfallin í kjölfar uppljóstrunar um aflandsfélög ráðherra.
Ári síðar, eftir að ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar féll vegna leyndarhyggju í kynferðisbrotamáli, hóf formaður Vinstri grænna stjórnarmyndunarviðræður við Sjálfstæðisflokkinn aðeins tveimur vikum eftir kosningar. „Það hefur ekkert breyst í því að við erum, að okkar mati, höfuðandstæðingar Sjálfstæðisflokksins í íslenskum stjórnmálum og við viljum beita okkur fyrir annars konar vinnubrögðum,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna þá.
Röksemdafærslan snerist um að vinstristefnan snerist ekki um að skilgreina sig út frá Sjálfstæðisflokknum og því að vera á móti honum, heldur um að leggja á borðið annars konar sýn um hvernig hægt væri að gera samfélagið betra. „Þá þarf að þora að standa við stóru orðin.“
Uppreist æru
Fyrir kosningar 2017 hafði Svandís beitt sér í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd vegna uppreist æru málsins. „Þarna er allt of mörgum spurningum ósvarað,“ sagði Svandís. Lögin ættu að endurspegla kröfu samfélagsins um gagnsæi og það ætti að vera skýrt á hverju ákvörðun stjórnvalds væri byggð. „Þar er látið að því liggja að ráðherra og forseti á hverjum tíma standi frammi fyrir orðnum hlut. Ég hef efasemdir um að svo sé.“ Brýnt væri að bæta skilning kerfisins á afleiðingum kynferðisbrota. „Við viljum betra samfélag.“
Forsætisráðherra, dómsmálaráðherra og þingmenn Sjálfstæðisflokksins héldu upplýsingum leyndum vegna málsins og ríkisstjórnarsamstarfinu var slitið vegna trúnaðarbrests þegar afhjúpað var að faðir forsætisráðherra væri einn af þeim sem skrifuðu meðmæli með uppreist æru barnaníðings. Við stjórnarslit þagnaði öll umræða um uppreist æru málið.
Katrín kom aðeins aftur inn á þetta eftir kosningar: „Ég nefni sem dæmi það mál sem varð til þess að síðasta ríkisstjórn sprakk, réttarstaða brotaþola kynferðisbrota, hvað getum við gert í því? Eigum við að dvelja við þau mál og hvernig þeim hefur verið háttað eða eigum við að gera það sem ég sagði strax þegar þessi mál komu upp, leggja eitthvað á okkur til að skapa þverpólitíska samstöðu um hvernig við getum gert þetta kerfi betra og tryggt að sú viðhorfsbreyting sem hefur orðið í samfélaginu skili sér inn í allt kerfið?“ sagði Katrín, sem stóð þá í samningaviðræðum við Sjálfstæðisflokkinn. Bætti síðan við: „Það er ekki komin nein lending í nein mál.“
Vörðu Sigríði vantrausti
Í ríkisstjórn Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar settist Sigríður Á. Andersen aftur í dómsmálaráðuneytið, eins og ekkert hefði í skorist, þrátt fyrir að hafa farið á svig við upplýsingalög vegna uppreist æru málsins og skipað Landsrétt með ólögmætum hætti. Fyrir kosningar höfðu þær Katrín og Svandís gagnrýnt þann gjörning mjög harkalega: „Uppnám millidómstigsins er nú algjört, á ábyrgð dómsmálaráðherrans og ríkisstjórnarinnar allar. Enn er ekki séð fyrir endann á málalyktum þessa og gæti svo farið að Landsréttur yrði að glíma við vantraust og skort á trúverðugleika um árabil,“ skrifuðu þær meðal annars.
Eftir að Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að Sigríður hefði brotið lög með skipan dómara við Landsrétt var lögð fram vantrauststillaga á hendur henni á Alþingi. Tillagan var felld með 33 atkvæðum gegn 29, en þar skipti sköpum að níu þingmenn Vinstri grænna vörðu hana vantrausti, þeirra á meðal voru þær Katrín og Svandís.
Afstaða þingmannanna skaut skökku við í ljósi þess að réttlætingin fyrir stjórnarsamstarfinu var að innleiða annars konar vinnubrögð. Þetta með að „þora að standa við stóru orðin“.
„Dómsmálaráðherra braut lög sem eiga að koma í veg fyrir að spilling ráði för við skipan dómara. Það er ólíðandi að vinnubrögð af hendi ráðamanns í lýðræðissamfélagi sem bera vott um spillingu hafi engar afleiðingar í för með sér þrátt fyrir dómsúrskurð,“ sagði í yfirlýsingum frá Ung vinstri grænum sem hvöttu þingmenn til þess að kjósa með vantrausti. Vilji þjóðarinnar var skýr. Samkvæmt skoðanakönnun vildu 72,5 prósent Íslendinga að Sigríður myndi segja af sér sem ráðherra.
En aðrar ástæður lágu að baki afstöðu þingmanna Vinstri grænna: „Níu þingmenn Vinstri grænna meta það svo að ríkisstjórnarsamstarfið sé undir ef vantraust verður samþykkt,“ útskýrði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. „Ég vil ekki fórna góðri forystu Katrínar Jakobsdóttur.“
Sigríður sagði loks af sér ári síðar, eftir að Mannréttindadómstóll Evrópu komst að svipaðri niðurstöðu og Hæstiréttur, sem varð til þess að Landsréttur varð óstarfhæfur um tíma. Á meðal þeirra sem þoldu verst að mál þeirra væru sett á bið voru brotaþolar kynferðisbrota, sá hópur sem Vinstri græn höfðu sérstaklega talað um að þyrfti að verja.
Sóttvarnareglur brotnar í samkvæmi
Í miðjum heimsfaraldri varð fjármála- og efnahagsráðherrann, Bjarni Benediktsson, uppvís að því að brjóta sóttvarnarreglur með þátttöku í samkvæmi í Ásmundarsal á Þorláksmessu. Í ljósi aðstæðna vakti málið mikla reiði í samfélaginu, ekki síst af því að stífar samkomutakmarkanir höfðu verið við lýði. Forsætisráðherra gerði athugasemd við það en ekki kröfu um afsögn, líkt og stjórnarandstaðan. „Svona atvik skaða traustið,“ sagði Katrín en „ég tel okkur hafa náð miklum árangri í því sem við erum að vinna að. Við munum því halda ótrauð áfram.“
Bjarni brást reiður við gagnrýninni og sagði „ótrúlegt“ að stjórnarandstaðan hefði kallað eftir þingfundi „til að ræða samkomu í húsi hér í bæ“. Þegar árið var gert upp í Kryddsíldinni hélt hann áfram: „Aum er þeirra pólitík.“ Í bakgrunni mátti sjá mótmælendur halda á skiltum sem á stóð: Bless BjarN1.
Síðar kom í ljós að á aðfangadag hafði lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu fengið tvö símtöl frá dómsmálaráðherra Sjálfstæðisflokksins vegna málsins. Vegna þess var dómsmálaráðherra, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, kölluð á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar en málið hafði ekki frekari afleiðingar í för með sér.
Í ríkisstjórnartíð þessara flokka áttu eftir að koma upp fleiri mál þar sem almenningi misbauð vinnubrögðin en Vinstri græn gerðu ekkert, nema rétta fram sáttarhönd til Sjálfstæðisflokksins.
En þegar á reyndi var slíkur vilji til samstöðu ekki gagnkvæmur.
Helsta baráttumál Vinstri grænna fellt
„Þjóðgarður á miðhálendi Íslands hefur verið draumur okkar margra,“ skrifaði þáverandi umhverfisráðherra Vinstri grænna, Guðmundur Ingi Guðbrandsson. „Miklar andstæður er að finna á miðhálendinu – svarta sanda, jökulbreiður, einstakar gróðurvinjar og fjölda sérstæðra jarðmyndana sem finnast hvergi í heiminum á einu og sama svæðinu. Svo er það kyrrðin, öræfakyrrðin. Hálendisþjóðgarður mun marka straumhvörf í náttúruvernd á Íslandi.“
Í stjórnarsáttmálanum var kveðið á um stofnun þjóðgarðsins og ráðherrann hóf strax undirbúning þess, enda var um eitt stærsta baráttumál Vinstri grænna að ræða. En þegar þjóðgarðurinn færðist nær veruleika kom babb í bátinn, þar sem samstarfsflokkarnir í ríkisstjórn voru óánægðir með frumvarpið, ekki síst íbúar í uppsveitum á Suðurlandi, þangað sem þessir flokkar sækja mikið fylgi. „Viljum þetta ekki,“ voru skilaboðin sem þingmaður Sjálfstæðisflokksins á Suðurlandi færði frá Aratungu eftir að þar fór fram fundur um hálendisþjóðgarð. Því næst gerðu þingflokkarnir fyrirvara við samþykkt frumvarpsins.
„Á einhver örlítill grenjandi minnihluti að hafa neitunarvald um það að þjóðin megi stofna þennan þjóðgarð á sínu eigin landi?“ spurði Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, þingmaður og fyrrverandi formaður Vinstri grænna. Orð hans komu af stað mótmælaöldu á meðal íslenskra fjallamanna og 11 þúsund skrifuðu undir undirskriftarlista gegn áformum ráðherra. „Það er skandall að forseti Alþingis láti svona út úr sér,“ sagði einn af þeim sem stóð að baki mótmælunum.
Samstaða náðist ekki um málið á milli stjórnarflokkanna. Þvert á móti þurfti ráðherrann að svara fyrir ásakanir þingmanna Sjálfstæðisflokksins um siðleysi og lögbrot vegna friðlýsinga. „Þeir eru greinilega að vinna leynt og ljóst gegn náttúruvernd,“ svaraði Guðmundur Ingi.
Gáfu frá sér umhverfisráðuneytið
Guðmundur Ingi Guðbrandsson var faglega skipaður ráðherra. Eftir fyrra kjörtímabilið gaf hann frá sér umhverfisráðuneytið til Sjálfstæðismanna, flokksins sem hann hafði skömmu áður sagt að væri leynt og ljóst að vinna gegn náttúruvernd. Horfið var frá áformum um hálendisþjóðgarð og orkumálin voru færð undir nýjan umhverfisráðherra, Guðlaug Þór Þórðarson. Yfirlýst markmið hans var að „rjúfa kyrrstöðuna í orkumálum“ og koma framkvæmdum sem fyrst og víðast af stað. „Því fyrr sem menn fara af stað, því betra,“ sagði hann og hreykti sér síðan af næststærsta framkvæmdaári Landsvirkjunar.
Á meðan Vinstri græn hafa setið í ríkisstjórn hefur sjókvíaeldi vaxið hratt, hraðar hér en á heimsvísu. Auk þess sem fyrirhugað er að reisa vindorkuver um allt land. Það var nú öll náttúruverndin.
Kvenfyrirlitning í dómsmálaráðuneytinu
Við dómsmálaráðuneytinu tók sjálfstæðismaður í íhaldssamari kantinum. Aðstoðarmaður hans var af Alþingi kominn, lögmaður sem þvertók fyrir að hafa starfað fyrir nektarstaðinn Bóhem og að upplýsingum þess efnis hefði verið „plantað í gagnagrunn“ Google. Í bréfi til borgarinnar skrifaði hann þó undir sem lögmaður fyrir hönd staðarins. Seinna sagði hann Stígamót hafa sannfært konu í vændi um að hún væri fórnarlamb: „Taktu bara ábyrgð á sjálfri þér.“ Sakaði síðan konur sem greina frá kynferðisofbeldi um að eyðileggja líf manna. Þetta var fólkið sem stýrði dómsmálaráðuneytinu í ríkisstjórnartíð kvenfrelsisflokks Vinstri grænna.
Megináhersla dómsmálaráðherra lá þó annars staðar. Eftir margra ára deilur var útlendingafrumvarp hans samþykkt á Alþingi, með stuðningi Vinstri grænna. Með nýja frumvarpinu voru umsækjendur um alþjóðlega vernd sviptir öllum réttindum 30 dögum eftir endanlega niðurstöðu um brottvísun. „Í dag stöndum við frammi fyrir fordæmalausum vanda þegar kemur að því að taka á móti öllum sem leita hér til okkar sem flóttamenn og leita eftir vernd. … Ég þakka nefndinni og sérstaklega meirihlutanum fyrir góða og vandaða vinnu,“ sagði ráðherrann. „Sorgardagur,“ sagði stjórnarandstaðan.
Í kjölfarið bárust tilkynningar um að matarkortum barnafjölskyldna hefði verið lokað og þeim vísað úr húsnæði. Myndskeið birtust af þolendum mansals liggja vonlausar og hágrátandi úti á götu. „Ég veit ekki hvað ég á að gera,“ sagði önnur þeirra. „Ég er aðeins 24 ára gömul. Ég vil ekki selja mig aftur.“ Nú síðast var barn sótt inn á salerni til að vísa því úr landi.
„Þeir þurfa einfaldlega að fara,“ sagði Bjarni. Í nafni mannúðar og kvenfrelsis Vinstri grænna.
Rafbyssur urðu að rafvarnarvopnum
Auk þess að herða útlendingalögin og hlaða vopnum á lögreglu, sniðgekk ráðherrann góða stjórnsýsluhætti þegar hann heimilaði lögreglu að bera rafbyssur án þess að bera málið upp í ríkisstjórn og virti að vettugi ósk forsætisráðherra. Um leið var merkingu orðanna breytt og farið var að tala um rafbyssur sem rafvarnarvopn.
Það hafði ekki frekar en annað áhrif á afstöðu Vinstri grænna gagnvart stjórnarsamstarfinu.
Líkt og annar dómsmálaráðherra var Jón Gunnarsson varinn vantrausti á Alþingi. Fram kom að megn óánægja væri innan þingflokks Vinstri grænna með störf hans, en þar væri ekki vilji til að fórna ríkisstjórnarsamstarfinu. Áfram var farið með möntruna um að styðja ætti ríkisstjórnina til góðra verka.
Sá hinn sami neitaði þó að verja ráðherra Vinstri grænna vantrausti þegar á reyndi og sat hjá við atkvæðagreiðslu á Alþingi. Ástæðan fyrir því að hann greiddi ekki atkvæði með tillögunni var að hann ætlaði að ná fram frekari breytingum á útlendingalögum. „Fyrri breytingar hafa haft í för með sér mjög mikla fækkun í umsóknum í vernd og hér kemur inn nýr kafli í lögunum sem mun styðja enn frekar við það af miklum krafti.“
Bjarna skorti hæfi
Boðað var til blaðamannafundar þar sem tilkynnt var um afsögn fjármálaráðherra. Bjarni skýrði ákvörðun sína með vísan í álit frá umboðsmanni Alþingis, sem sagði að Bjarna hefði brostið hæfi þegar hann samþykkti tillögu Bankasýslunnar um sölu á Íslandsbanka, í ljósi þess að faðir hans var á meðal kaupenda.
Katrín lýsti ánægju með þróun mála: „Mér finnst þetta ákvörðun sem er mjög virðingaverð.“ Ekki yrði boðað til kosninga vegna málsins. „Það hefur ekkert gerst sem kallar á það, allavega að sinni.“
Samkvæmt skoðanakönnun vildu sjötíu prósent þjóðarinnar að Bjarni hætti alfarið í ríkisstjórn en hann færði sig bara yfir í utanríkisráðuneytið.
Skipaði aðstoðarkonu sem sendiherra
Á meðan Bjarni sat í utanríkisráðuneytinu notaði hann tækifærið til þess að skipa fyrrverandi aðstoðarkonu sína sem sendiherra Íslands í Bandaríkjunum. „Það er virkilega búið að lækka þröskuldinn fyrir sendiherratign með ráðningu Svanhildar Hólm en hennar upphefð í þessum efnum er mjög fágæt,“ sagði stjórnsýslufræðingur.
Þegar árásirnar á Palestínu hófust einkenndust viðbrögð stjórnvalda fyrst og fremst af aðgerðaleysi. Þrátt fyrir ákall forsætisráðherra um mannúðarhlé sat Ísland hjá í atkvæðagreiðslu Sameinuðu þjóðanna um vopnahlé Ísraela og Hamas. Enn var ríkistjórnarsamstarfið ekki að leiðarlokum komið.
Ekki heldur þegar Bjarni lýsti því yfir að greiðslur yrðu frystar til Palestínuflóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNRWA, sem sinnti neyðaraðstoð við íbúa á Gaza.
Eða þegar Bjarni neitaði að nota orðið árás um loftárás Ísraela á flóttamannabúðir í Palestínu, þrátt fyrir að Ísraelsher hefði sjálfur staðfest árásirnar. „Ef þú biður mig um viðbrögð við árás á flóttamannabúðir þá ertu að fullyrða að það hafi verið gerð árás á flóttamannabúðir,“ sagði Bjarni. „Eins og ég sé það þá eru átök í gangi gegn hryðjuverkamönnum.“
Friðaráherslur Vinstri grænna ristu ekki dýpra en svo.
11.355 palestínsk börn hafa fallið í átökunum.
Á meðan utanríkisráðherra flækti málið fyrir sér hér heima sátu fjölskyldur fastar á átakasvæði, fjölskyldur sem höfðu þegar fengið dvalarleyfi á Íslandi, án þess að nokkuð væri aðhafst. Það var ekki fyrr en íslenskar konur fóru út á eigin vegum til að flytja fólk yfir landamærin sem ríkisstjórnin tók við sér. Í millitíðinni missti palestínskur maður sem staddur er hér á landi alla fjölskylduna.
Þegar faðirinn og aðrir í sömu stöðu slógu upp tjaldbúðum á Austurvelli brást utanríkisráðherra við með því að tala um þær sem „hörmung“. Og lýsa því yfir að tilefni væri til þess að auka eftirlit á landamærum og styrkja lögregluna með auknum heimildum í baráttu gegn „alþjóðlegri brotastarfsemi“.
Afhentu aftur lyklana
„Skilaðu lyklunum,“ krafðist Bjarni af fyrrverandi forsætisráðherra Samfylkingarinnar. Þrátt fyrir andstöðu um 80 prósent þjóðarinnar voru það á endanum Vinstri græn sem afhentu Bjarna Benediktssyni aftur lyklana að forsætisráðuneytinu.
Nýr formaður Vinstri grænna situr eftir með Svarta Pétur, því spá fyrrverandi flokksmanns Vinstri grænna, sem kvaddi flokkinn í upphafi samstarfsins, hefur ræst: „Sá stjórnarsáttmáli sem kemur út úr viðræðunum verður án efa mjög góður ... Eftir stendur að við höfum gengist inn á viðræður við Sjálfstæðisflokkinn um myndun ríkisstjórnar og sú afdrifaríka ákvörðun er tekin. Við munum ekki breyta Sjálfstæðisflokknum. Innviðir hans eru spilltir og fullir kvenfyrirlitningar og að halda að við breytum honum er meðvirkni í hæsta máta.“
Sjálfstæðismenn myndu fagna stjórnarsáttmála, fara inn í sín ráðuneyti og haga sér nákvæmlega eins og valdastofnunin hafi alltaf hagað sér. „Við og við vellur gröfturinn upp í formi frændhygli, innherjaviðskipta, skattaskjóla, auðvaldsdekurs, útlendingaandúðar eða skjaldborgar um ofbeldismenn. Þá verður VG í þeirri stöðu að verja samstarfsflokkinn og mörkin munu sífellt færast til í samstarfinu líkt og í ofbeldissambandi. Þetta verður eins og að éta skít í heilt kjörtímabil, ef stjórnin endist svo lengi. Með ákvörðuninni um stjórnarviðræður setti flokkinn niður, trúverðugleikinn laskaðist verulega og vinstrið á Íslandi mun eiga erfitt uppdráttar næstu árin og áratugina.“
Ríkisstjórnin hélt lengur en spáin sagði til um. Annað ekki. Og nú þarf Svandís að sannfæra þjóðina um að Vinstri græn eigi enn erindi – og þá á hvaða forsendum.
Athugasemdir (3)