Flosi Eiríksson, fyrrverandi bæjarfulltrúi og oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi, ætlar að sækjast eftir oddvitasætinu í Suðvesturkjördæmi, samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar. Þórunn Sveinbjarnardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og Guðmundur Árni Stefánsson, varaformaður Samfylkingarinnar og bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, hafa þegar gefið út að þau muni sækjast eftir sama sæti.
Þórunn leiddi lista Samfylkingarinnar í kjördæminu í síðustu kosningum og var sú eina af lista flokksins í kjördæminu sem náði inn á þing. Ef miðað er við fylgismælingar að undanförnu er útlit fyrir að hagur flokksins muni vænkast og hann bæti við sig þingmönnum í næstu kosningum.
Flosi var bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Kópavogi á árunum 1998 til 2009 og hafði fyrir það verið varamaður í fjögur ár.
Rétt eins og Flosi hyggst gera núna, steig Guðmundur Árni aftur inn í starf Samfylkingarinnar nýlega, þegar hann leiddi lista Samfylkingarinnar í Hafnarfirði í sveitarstjórnarkosningum árið 2022, eftir að hafa verið sendiherra í áratug. Hann hafði áður setið á þingi fyrir Samfylkinguna og Alþýðuflokkinn, verið ráðherra frá 1993 til 1994, og þar áður bæjarstjóri í Hafnarfirði.
Flosi var framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands á árunum 2018 til 2022 en í byrjun síðasta árs bárust fréttir af því að hann hefði hafið störf sem ráðgjafi hjá samskiptafélaginu Aton. Hann hefur áður starfað hjá KPMG og sem húsasmiður. Flosi er í dag formaður knattspyrnudeildar Breiðabliks.
Ekki náðist í Flosa við vinnslu fréttarinnar.
Athugasemdir