Kvikmyndin Lærlingurinn („The Apprentice“) var frumsýnd í Bandaríkjunum um síðustu helgi. Myndin fjallar um Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, og samband hans við Roy Cohn, umdeildan lögmann sem var lærimeistari Trumps við upphaf ferils hans.
Kvikmyndin hlaut átta mínútna standandi lófatak á kvikmyndahátíðinni í Cannes fyrr á árinu. Minnstu munaði þó að hún kæmi aldrei fyrir augu almennings.
Leikarinn Jeremy Strong greindi frá því í viðtali við dagblaðið The Sunday Times að ekki eitt einasta fyrirtæki í Hollywood hefði viljað annast dreifingu myndarinnar. Sagði hann ástæðu áhugaleysisins ótta fólks í Hollywood við Trump og málsókn. „Hringdu í mig ef Trump tapar kosningunum,“ sagði frægur kvikmyndaframleiðandi við handritshöfund myndarinnar.
„Hollywood hefur aldrei verið helsta varnarvirki hugrekkis“
Strong, sem margir þekkja sem Kendall úr sjónvarpsþáttunum „Succession“, kvað viðbrögð kvikmyndabransans hafa fyllt hann óhug. „Hollywood hefur aldrei verið helsta varnarvirki hugrekkis,“ sagði Strong. „En þetta olli mér vonbrigðum.“
En það er ekki aðeins í kvikmyndaiðnaðinum sem slíkt hugleysi er ríkjandi.
Í heilbrigðu lýðræði
Nýverið fóru fram réttarhöld fyrir dómstól í London þar sem mál Samherja gegn listamanninum Oddi Eysteini Friðrikssyni var tekið fyrir.
Samherji stefndi listamanninum fyrir að skopstæla fyrirtækið þegar hann birti skáldaða afsökunarbeiðni í nafni þess á vefsíðunni samherji.co.uk. Listamaðurinn heldur því hins vegar fram að um réttmætan listgjörning sé að ræða sem ætlað sé að vekja umræðu um meintar mútugreiðslur Samherja í Namibíu.
„Í heilbrigðu lýðræði er tjáningarfrelsið ekki álitin ógn heldur samtal sem við njótum öll góðs af“
Tuttugu og sjö alþjóðleg samtök sem berjast fyrir tjáningarfrelsinu hafa kallað eftir því að Samherji felli niður málið gegn Oddi. Segir í yfirlýsingu þeirra að listrænt frelsi á sviði kvikmyndagerðar, bókmennta og myndlistar sé „nauðsynlegt heilbrigðu lýðræði“. Háskólinn í Bergen, þar sem Oddur stundar framhaldsnám, tekur einnig einarða afstöðu með nemanda sínum. „Í heilbrigðu lýðræði er tjáningarfrelsið ekki álitin ógn heldur samtal sem við njótum öll góðs af,“ segir í bréfi sem skólinn sendi Samherja.
Heima við er slíkum stuðningi hins vegar ekki fyrir að fara.
Stjórn Listaháskóla Íslands ákvað að taka ekki opinbera afstöðu í máli Samherja gegn Oddi. Var þó listaverkið útskriftarverkefni Odds við skólann. Rektor Listaháskólans, Kristín Eysteinsdóttir, kvað skólann engu að síður styðja „við tjáningarfrelsi listamanna og listarinnar hundrað prósent“.
Hegðun í harðstjórnarríki
Það tókst með herkjum að fá Lærlinginn sýndan í völdum bíóhúsum í Bandaríkjunum. Kvikmyndagagnrýnanda tímaritsins Variety fannst um að ræða ágætis bíómynd. Hann kvað atburðarás myndarinnar hins vegar blikna í samanburði við atburðarásina bak við tjöldin. „Þrátt fyrir allt kjaftæðið og hræðsluna sem ég hef orðið vitni að innan kvikmyndaiðnaðarins (hræðslu við að mistakast, hræðslu við að taka rangar ákvarðanir, hræðslu við að upphefja list á kostnað formúlu og viðskipta), hafði ég aldrei séð neitt í líkingu við þetta. Svo að ég orði það umbúðalaust: Fólk var nú þegar farið að hugsa og hegða sér eins og það lifði í harðstjórnarríki.“
Í viðtali sem ég tók við Odd Eystein Friðriksson að málflutningnum í London loknum, og lesa má í sérblaði um menningu sem fylgir Heimildinni í dag, spurði ég hann hvort afstaða Listaháskóla Íslands ylli honum vonbrigðum.
Hann hugsaði sig um. „Þetta gæti verið merki um það sem ég nefni í vörninni minni um svokallað „chilling effect“,“ svaraði hann.
Oddur sagðist sannfærður um að málsókn Samherja væri ætlað að kæfa opinbera umræðu. Hann óttaðist að hún myndi leiða til „kælingaráhrifa“ – „chilling effect“ – og hræða aðra frá því að tjá sig um fyrirtækið af ótta við að vera stefnt fyrir dómstóla.
Í viðtalinu velti hann fyrir sér hvort afleiddra afleiðinga dómsmáls Samherja væri þegar farið að gæta; hvort svo væri komið að „mögulega geti stofnanir ekki tjáð sig um eitthvað vegna þess að þær eiga líka á hættu að verða kærðar“.
Handritshöfundur Lærlingsins segist vera dapur yfir háttsemi kvikmyndaiðnaðarins. Hann sakar Hollywood um að þykjast hafa sannleiksást að leiðarljósi en þora svo ekki að koma nálægt mynd um Trump því bransinn búi sig undir nýja valdatíð hans.
Oddur Eysteinn Friðriksson bíður enn niðurstöðu dómarans í London. Mesta ógnin við tjáningarfrelsið er þó ekki dómurinn sjálfur. Mesta ógnin er heldur ekki hótanir fólks í valdastöðum og fyrirtækja með fjárhagslega yfirburði. Mesta ógnin við tjáningarfrelsið er heigullinn.
Stuðningur við tjáningarfrelsið er einskis virði ef hann er aðeins í orði en ekki á borði.
Athugasemdir (13)