„Ég er að mótmæla ummælum borgarstjóra um starf sem ég er búin að sinna í 30 ár. Þar sem er sagt að ég geri allt til að forðast það að vinna með börnunum og að ég sé með alltof mikinn veikindarétt og undirbúningstíma sem fer meira og minna í fundarhöld,“ segir Edda Kristín Hauksdóttir, kennari í Hagaskóla, við Heimildina.
Blaðamaður náði tali af Eddu á mótmælum Kennarafélags Reykjavíkur við Ráðhúsið í dag. Þar var fjöldi kennara saman kominn til að mótmæla orðum Einars Þorsteinssonar borgarstjóra, sem hann lét falla á fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga fyrr í vikunni.
Einar sagði á ráðstefnunni að öll tölfræði benti til þess að væri verið að gera eitthvað „algjörlega vitlaust“ í skólunum. Kennararnir væru að biðja um það að fá að vera minna með börnunum, „en eru samt veikari en nokkru sinni fyrr og kenna minna og fleiri einhverjir undirbúningstímar.“
Edda Kristín segir að orð Einars séu til marks um algjört skilningsleysi hans á starfi kennara. „Ég held að hann ætti bara að koma og kenna aðeins. Hann hefði bara gott af því. Ég hugsa að hann þyrfti ekki marga daga til að skilja þetta betur.“
Aðspurð segir hún að hún vilji að Einar biðjist afsökunar. „Og jafnvel bara segi af sér. Þegar hann hefur þetta viðhorf hefur hann ekkert að gera í þetta starf.“
Vilja ekki vera minna með nemendum
Einar brást við gagnrýninni í garð ummæla sinna með aðsendri grein á Vísi í gærkvöldi.
Atli Kristinsson, annar kennari við Hagaskóla, segir að Einar geti ekki tekið ábyrgð á móðguninni sem hafi verið sýnd kennurum með þessum orðum. „Hann beindi þessu til okkar eins og við værum að misskilja. Það var ekki mjög herramannlegt af honum,“ segir Atli. Hann segir að hann vilji að Einar biðjist almennilega afsökunar og hlusti á kennara. „Læri af sínum mistökum.“
Mikael Marinó Rivera, kennari í Rimaskóla, segir ummælin „ömurleg og óafsakanleg.“ Hann segir það ekki hægt að túlka þau á annan hátt en þau birtust.
Aðspurður segist Mikael vilja að Einar viðurkenni mistök sín. Þá mætti hann kynna sér málin betur. „Ég hef unnið sem kennari í 15 ár og það hefur aldrei snúist um það að vera minna og minna með nemendum. Ég veit ekki alveg hvaðan hann grípur þetta.“
Einn kollegi þinn vildi afsögn – ert þú þar líka?
Ég er nú ekki alveg kominn þangað, batnandi mönnum er best að lifa. Þetta er aðallega bara að hann taki þetta til sín og kynni sér málin. Svo verður hann bara að gera upp við sig hvað hann vilji gera,“ segir Mikael.
Mótmælendurnir fóru inn í Ráðhúsið og ræddu þar við Dag B. Eggertsson, forseta borgarstjórnar, en Einar er staddur á ráðstefnu í útlöndum og var því ekki við. Dagur bað kennarana afsökunar fyrir hönd borgarstjórnar. „Ég veit að þið eigið erindi við núverandi borgarstjóra. Hann er því miður ekki á borgarstjórnarfundinum heldur er ég er hér í afleysingum. Ég veit að hann hefði viljað vera hérna til þess að tala við ykkur,“ sagði Dagur.
Athugasemdir