„Þetta er svona stórukalla dramapólitík,“ sagði Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, um ákvörðun Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu. Þetta sagði hann í Pressu á Heimildinni í dag. Kannski hafi Bjarni viljað taka stjórnina eftir ályktun Vinstri grænna um að flýta kosningum til vorsins. „Svandís svona stillti honum upp við vegg varðandi vorkosningar, þá kannski fannst honum hann þyrfti að taka stjórnina aftur.“
Björn Leví ræddi stjórnarslitin í Pressu ásamt Lilju Dögg Alfreðsdóttur, varaformanni Framsóknar og ráðherra, og Orra Páli Jóhannssyni, þingflokksformanni Vinstri grænna. Þáttinn má sjá í heild sinni hér.
Björn Leví hefur lengi kallað eftir að stjórnarflokkarnir slíti samstarfinu og boði til kosninga. En nóvember er óheppilegur tími fyrir kosningar.
„Tvímælalaust,“ sagði hann og benti á að árið 2021 þótti of seint að kjósa í október en nú er stefnt að kosningum í lok nóvember.
„Kosningunum 2021 var flýtt um mánuð. Þær áttu að vera í október en var flýtt fram í september. Út af veðravá og ýmislegt svoleiðis var notað sem rök fyrir því að færa kosningarnar mánuði fyrr. Nú erum við að koma mánuði seinna í miklu erfiðara ástand. Mér finnst þetta óábyrgt, eins og hefur verið notað hérna, að vera með kosningar á þessum tíma en lýðræðið er lýðræði þegar allt kemur til alls og skiptir miklu meira máli. Maður verður bara að sætta sig við það.“
Kosningar með svona skömmum fyrirvari geri líka þeim sem hafa áhuga á þingframboði erfitt fyrir. „Að boða til kosninga með svona skömmum fyrirvara í rauninni útilokar ný framboð,“ sagði hann. Píratar stefna á prófkjör til að velja fólk á lista á meðan flestir aðrir flokkar stefna á uppstillingu.
Athugasemdir