„Ég horfi fyrst og fremst á þetta sem tækifæri fyrir þjóðina,“ segir Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar í samtali við Heimildina, spurð út í endalok ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar og komandi kosningar.
„Við erum að horfa til þess að bjóða fólki upp á nýtt upphaf,“ segir hún einnig í samtali við blaðamann, en Samfylkingin hefur farið með himinskautum í skoðanakönnunum undanfarið rúmt ár og mælst langsamlega stærsti flokkur landsins.
Kristrún segir að í ljósi þess skamma tíma sem er fram að kosningum gefist ekki ráðrúm til að fara í leiðtogaprófkjör, eins og hún hafði áður sagt að henni hugnaðist best.
„Það liggur fyrir í þessum aðstæðum að við þurfum að undirbúa okkur hratt. Það liggur beinast við að það verði farið í hreina uppstillingu,“ segir Kristrún um þetta.
Hún leggur hins vegar áherslu á að Samfylkingin sé „mjög tilbúin málefnalega séð“.
Kristrún vildi leiðtogaprófkjör
Fyrr á þessu ári lýsti Kristrún yfir því að hennar vilji væri sá að flokkurinn héldi leiðtogaprófkjör í öllum kjördæmum, en flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar breytti reglum flokksins um val á lista á vordögum.
Þá voru meðal annars sett inn ákvæði um að heimilt yrði að valið yrði á lista með prófkjöri í efsta eða tvö efstu sæti lista og uppröðun í önnu sæti. Jafnframt var ákveðið að í prófkjöri gætu bæði tekið þátt flokksmenn sem og óflokksbundnir, sem lýstu stuðningi við flokkinn.
„Í þessari ákvörðun flokksstjórnar felast skilaboð og ég tel að vel fari á því að almennir flokksfélagar Samfylkingarinnar og stuðningsmenn geti kosið sér forystufólk – oddvita á framboðslistum – í prófkjöri,“ sagði Kristrún í ræðu á fundi flokksins í Reykjavík 1. maí.
Nú er ljóst að svo verður ekki, vegna þess skamma tíma sem er til stefnu fram að kosningum. Það verður því í höndum uppstillingarnefnda Samfylkingarinnar í hverju kjördæmi fyrir sig að raða fólki á lista, frá 1. sæti og niður úr.
Búast má við því að allnokkur ný andlit setjist á þing fyrir Samfylkinguna eftir komandi kosningar. Flokkurinn mældist með ríflega 26 prósent fylgi í síðasta þjóðarpúlsi Gallup, sem skila myndi 19 þingmönnum. Í dag hefur Samfylkingin sex þingmenn, eftir að hafa fengið 9,9 prósent fylgi á landsvísu í kosningunum árið 2021.
Athugasemdir