Í nýrri prentmiðlakönnun Gallups sem kom út í dag er staðfest að Heimildin hefur sérstaka styrkleika í lestri hjá konum, yngra fólki, háskólamenntuðum, tekjuháum og höfuðborgarbúum.
Þrátt fyrir að lestur prentmiðla hafi í heildina minnkað á síðustu tveimur áratugum hefur lestur Heimildarinnar til lengri tíma aukist frá því henni var breytt í vikublað í apríl í fyrra eftir að útgáfu fríblaðsins Fréttablaðsins var hætt.
Heimildin hefur þannig náð að verða leiðandi í lestri hjá tilteknum hópum. Hún mælist mest lesni prentmiðillinn á landinu hjá háskólamenntuðum konum (18,1%), en munurinn er afgerandi þegar litið er eingöngu til Reykjavíkur (21,2%) eða höfuðborgarsvæðisins alls (20,3%).
Heimildin mælist með 14,7% lestur á landsvísu að meðaltali á þriðja ársfjórðungi 2024, en landfræðilega er mestur er lestur hennar í Reykjavík norður, þar sem hún er mest lesin allra prentmiðla.
Á heimilum yngra fólks mælist Heimildin sterk. Í aldurshópnum 30 til 50 ára í Reykjavík (18,7%) og á höfuðborgarsvæðinu öllu (14,2%) lesa fleiri Heimildina en nokkurn annan prentmiðil.
Helst skilur á milli prentmiðla í lestri hjá elsta aldurshópnum, frá 60 til 80 ára, en þar mælist Morgunblaðið (42,2%) töluvert hærra í lestrarmælingu en Heimildin (24,9%). Lestur Morgunblaðsins jókst heilt yfir eftir að Fréttablaðið hætti útgáfu en hann er nú sá sami og árið 2020, eftir skart fall í lestri fram að þeim tíma. Lestur Heimildarinnar hefur sveiflast frá 13,8 til 15,6% frá 2023.
Neysla á fjölmiðlum hefur tekið miklum stakkaskiptum síðustu árin samhliða tilkomu fleiri miðla. Áhorf á línulega sjónvarpsdagskrá í heiminum hefur ekki síður lækkað en lestur prentmiðla. Nú horfa um 24% landsmanna á sjónvarpsfréttir RÚV og liðlega 16% á veðurfréttir.
Fyrirvari um hagsmuni: Í greininni er fjallað um Heimildina.
Athugasemdir