Yazan Tamimi, ellefu ára hælisleitandi frá Palestínu, og foreldrar hans fengu í dag alþjóðlega vernd á Íslandi á grundvelli sjónarmiða um viðbótarvernd. Þetta segir Albert Björn Lúðvígsson, lögfræðingur fjölskyldunnar, í samtali við Heimildina.
Albert segir að þetta þýði að fjölskyldan fái tveggja ára dvalarleyfi á Íslandi sem þau geti síðan endurnýjað. „Það þýðir að þau eru örugg á Íslandi.“
Spurð hvernig fjölskyldan hafi það segir Albert að þau séu bæði hrærð og glöð. „Þetta er búið að vera svolítið erfiður tími og þau eru þreytt. En það að fyrsta sem Mohsen [faðir Yazans] sagði var að hann vildi skrifa bréf til allra Íslendinga sem hefðu aðstöðað þau. Ég geri ráð fyrir því að ég fari að hjálpa honum við það fljótlega.“
Mál Yazans hefur vakið talsverða athygli undanfarið. Drengurinn er með vöðvarýrunarsjúkdóminn Duchenne og notast við hjólastól. Gerð var tilraun til að flytja fjölskylduna úr landi í síðasta mánuði, en lögregla sótti drenginn þar sem hann lá inni á Landspítalanum og flutti á Keflavíkurflugvöll. Brottvísuninni var mótmælt harðlega á samfélagsmiðlum og boðað var til mótmæla.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra fór fram á að hætt yrði við brottflutning Yazans eftir að ráðherrar Vinstri grænna báðu um að málið yrði rætt í ríkisstjórn.
Yazan þarf mikla sérhæfða heilbrigðisþjónustu vegna sjúkdóms síns. „Nú gengur hann inn í sama kerfi og Íslendingar búa við,“ segir Albert. Hann mun því geta fengið þá heilbrigðisþjónustu sem hann þarf.
Albert bætir við að kerfið hafi tekið vel við sér eftir að reynt var að brottvísa fjölskyldunni. „Kærunefnd opnaði málið mjög fljótt. Útlendingastofnun boðaði þau hratt í viðtal. Það má hrósa þeim stofnunum – hvað þau hafa unnið þetta hratt síðustu tvær vikur. Það hefur létt á óvissu og komið ákveðinni festu í þetta mál.“
Athugasemdir (1)