Jón Arason Hólabiskup var sennilega fæddur um 1483 að Laugalandi í Eyjafirði. Foreldrar hans voru Ari Sigurðsson og Elín Magnúsdóttir bláhosa, sem kölluð var. Ari var ráðsmaður eigna Hólastóls á Miklagarði í Eyjafirði og umboðsmaður allra stólsjarða í Eyjafirði og Þingeyjarsýslu, búsettur á Laugalandi.
Ari hlýtur að hafa verið allstöndugur enda var Sigurður faðir hans príor í Möðruvallaklaustri um það bil er Jón fæddist.
Þarf ekki að orðlengja að bæði biskupsstólarnir og klaustrin voru stórauðug og áttu miklar og verðmætar jarðeignir um landið allt.
Fimmtánda öldin hefur verið nefnd enska öldin í sögu Íslands enda bæði versluðu Englendingar og veiddu fisk við landið og keyptu hér vaðmál og brennistein. Öttu þeir mjög kappi við Þjóðverja sem líka seildust hér til áhrifa. Ísland heyrði þá undir norska konungdæmið en Noregur var þá í raun að færast meira og meira undir Danmörku enda hafði Kalmarsambandi landanna verið komið á 1397.
Athugasemdir