Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands lækkaði stýrivexti í fyrsta sinn í rúmt ár. Lækkunin var þó ekki mikil, aðeins 0,25 prósentustig og standa stýrivextir nú í níu prósentum sem þykir enn vera ansi mikið. Á kynningarfundi nefndarinnar í morgun kom fram að rík áhersla væri lögð á að fara varlega af stað í vaxtalækkunarferlinu.
Taldi nefndin enn vera fullt tilefni til þess að gæta varkárni. Innlend eftirspurn væri enn þá mikil og verðbólga og verbólguvæntingar væru sömuleiðis yfir markmiðum bankans.
Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri, sagði á blaðamannafundi að það væri ekki gefið fyrir fram að nefndin lækki vexti aftur á næsta fundi nefndarinnar sem verður 20. nóvember.
Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur greiningardeildar Íslandsbanka, segir í samtali við Heimildina að þrátt fyrir að lækkunin sé hlutfallslega lítil í samanburði það háa vaxtastig sem er við lýði hafi ákvörðun nefndarinnar ýmis óbein áhrif á hagkerfið.
Sterk skilaboð frá Peningastefnunefndinni
„[R]eynslan erlendis hefur sýnt okkur að það hefur veruleg áhrif þegar vaxtalækkunarferlið fer af stað, jafnvel þó að skrefið sé smátt og beinar breytingar á vaxtabyrði eða ávöxtun á sparifé séu ekki miklar. Þetta getur breytt allnokkuð væntingum,“ segir Jón Bjarki og bendir á að heimili og fyrirtæki túlki skilaboðin gjarnan á þá vegu að vaxtabyrði muni taka að léttast jafnt og þétt.
„Það sé þá frekar hægt að fara af stað með fjárfestingar eða ráðast í kaup á íbúðum, bílum eða öðru sem er fjármagnað með lánsfé jafnvel þó að vaxtabyrðin sé há næsta kastið.“
Jón Bjarki tekur þó fram að hann býst ekki við straumhvörfum í hegðun heimila og fyrirtækja, áhrifin af ákvörðun peningastefnunefndarinnar séu þó meiri en marga kynni að gruna.
„Við sjáum það til dæmis að ef við viljum horfa bara á svona opinbera kvarða þá hefur tíðindunum verið tekið fagnandi á hlutabréfamarkaði þar sem verð á bréfum hefur almennt hækkað í dag.“
Þvert á spár viðskiptabankanna
Skömmu áður en að fundur peningastefnunefndarinnar var haldinn höfðu Landsbankinn og Íslandsbanki spáð því að stýrivöxtum yrði haldið óbreyttum.
Í skýrslu Íslandsbanka kom fram að ekki þætti líklegt að peningastefnunefnd myndi snúast hugur eftir að hafa slegið fremur harðan tón á síðasta fundi nefndarinnar í ágúst. Á þeim fundi var lítið talað um hugsanlegar vaxtalækkanir og allir meðlimir nefndarinnar voru í fyrsta sinn á þessu ári sammála um að halda vöxtum óbreyttum. Hins vegar spáði greiningardeild Íslandsbanka því að vaxtalækkunarferlið myndi hefjast í nóvember.
Jón Bjarki segir að honum þyki ákvörðun peningastefnunefndarinnar hafa verið rétt og vel rökstudd.
„Þau auðvitað lögðu á það nokkra áherslu að það væri ekki víst að vextir myndu lækka áfram við næstu vaxtaákvörðun og slógu varfærinn tón sem er í þokkalegu samræmi við mínar væntingar um að þau myndu undirbúa jarðveginn fyrir vaxtalækkun og fara þá kannski heldur stærra skref í nóvember. Þannig á móti er verið að lækka vexti núna og kannski líkur á minna skrefi í nóvember heldur en ella.“
Hvað breyttist frá síðasta fundi?
Á kynningarfundi Seðlabankans sem haldinn var skömmu eftir tilkynnt var um vaxtalækkunina sagði Ásgeir Jónsson Seðlabankastjóri að ekki hafi verið horft til stakra einskiptisliða sem höfðu mikil áhrif þá verðbólguhjöðnun sem mældist í síðasta mánuði við ákvörðunartöku nefndarinnar. Einskiptisliðirnir sem vísað er til eru aðgerðir á borð við niðurfellingu skólagjalda í stökum háskólum og niðurgreiðsla ríkis og sveitarfélaga á skólamáltíðum í grunnskólum.
Nefndin hefði fremur litið til ýmissa annarra mælikvarða sem bentu til minnkandi spennu í hagkerfinu. Til að mynda minnkandi vinnuaflseftirspurn og niðurstöður viðhorfskannana sem bentu til aukinnar svartsýni meðal heimila og fyrirtækja í landinu.
Í samtali segir Jón Bjarki ekki vera alveg sammála seðlabankastjóra um að horfi eigi fram hjá áhrifum tilfærsluaðgerða stjórnvalda.
„Það var einmitt ætlunin með því að gera skólamáltíðir gjaldfrjálsar að minnka útgjöld heimilanna og lækka verðþrýsting að þessu leytinu. Þannig þar er bara að raungerast það sem var hliðarskilyrði, eða að minnsta kosti var sett á stjórnvöld til að hjálpa til við að greiða fyrir kjarasamningum,“ segir hann.
Tilraunastarfsemi Peningastefnunefndar
Á kynningarfundinum virtust Seðlabankastjóri og varaseðlabankastjóri ekki vera á sömu skoðun um hvort að staðan í efnahagsmálum hafi breyst mikið frá síðasta fundi. Á fundinu sagði Rannveig Sigurðardóttir ekki mikið hafa breyst frá síðasta fundi og reynslan sýndi að mælingar ættu til að fara í aðra átt en búist væri við.
Þessu var Ásgeir ósammála og sagði margt hafa breyst frá síðasta fundi en tók þó fram að nefndarmenn túlki hina ýmsu áhrifaþætti og mælingar á hagstærðum með ólíkum. Svo virðist sem að lækkun vaxta sé í vissum skilningi tilraun til þess að skera úr um hvort hagkerfið sé að stefna í rétta átt.
Jón Bjarki segist geta tekið undir þá túlkun og bætir við að nefndin hafi áður gefið út að ákvörðun um að hefja lækkunarferli myndi senda nokkuð sterk skilaboð sem geti haft áhrif á væntingar og hegðun í hagkerfinu.
„Þannig að því leytinu eru ágæt rök fyrir því að taka smátt skref og gefa ekki of miklar væntingar um áframhaldið. Hins vegar er það okkar skoðun ef okkar spár um verðbólgu og efnahagsþróun ganga eftir að við séum komin í vaxtalækkunarferli sem muni halda áfram, væntanlega óslitið á næstu fundum,“ segir hann.
Óljóst hvort nefndin hafi litið til vaxtalækkanna erlendis
Seðlabankar víða um heim hafa að undanförnu verið að lækka meginvexti sína ört og mikið. Fyrir tveimur vikum síðan lækkaði bandaríski seðlabankinn stýrivexti sína um hálft prósentustig, úr 5,3 prósentum í 4,8 prósent. Seðlabankinn í Evrópu hefur í tvígang lækkað vexti sína og standa þeir núna 3,5 prósentum. Seðlabankarnir í Danmörku og Svíþjóð hafa einnig lækkað vexti sína á þessu ári.
Á kynningarfundi peningastefnunefndar spurði Jón Bjarki fulltrúa nefndarinnar hvort nefndin hafi litið til vaxtalækkana erlendis og hvort aukin vaxtamunur við helstu viðskiptalönd hafi skipt máli í ákvörðunartökuferlinu. Jón Bjarki segist hafa fengið nokkuð óskýr svör:
„Þau vildu ekki gera mikið úr því að þetta hefði eitt og sér verið áhrifaþáttur. Hins vegar er það svo að á sama tíma benti Ásgeir Jónsson á að seðlabankar hefðu verið tiltölulega samstíga í hækkunarferlinu sem voru viðbrögð við verðbólguskotinu á heimsvísu, árið 2022 og inn í árið 2023. Þannig er þetta á endanum alltaf áhrifaþáttur. Of mikill vaxtamunur við útlönd getur haft óæskilegar afleiðingar.“
Athugasemdir