Þeir voru oft hissa, Rassálfarnir í sögu Astridar Lindgren um Ronju Ræningjadóttur. Akkuru? Akkuru? spurðu þeir. Akkuru gerir hún þetta?
Rassálfarnir sem voru góðir og friðsamir bjuggu ofan í jörðinni og heimurinn fyrir ofan híbýli þeirra og hegðun fólks sem bjó þar kom þeim spánskt fyrir sjónir.
Af hverju fer hún svona að þessu? Af hverju, af hverju?
Á Íslandi býr 11 prósent launafólks við skort á efnislegum gæðum.
Af hverju?
Tæplega tveir af hverjum tíu foreldrum hafa ekki efni á að gefa börnum sínum afmælisgjafir og/eða jólagjafir og lítið lægra hlutfall getur ekki greitt kostnað vegna skipulagðra tómstunda.
Af hverju?
Tæplega sex af hverjum tíu í hópi einhleypra foreldra eiga erfitt með að ná endum saman. Staða einhleypra foreldra er mun verri en sambúðarfólks og hærra hlutfall þeirra hefur ekki efni á grunnþáttum fyrir börnin sín. Helmingur getur ekki mætt óvæntum útgjöldum og tæplega helmingur hefur ekki efni á árlegu fríi með fjölskyldunni. Tæplega fjórðungur hefur ekki efni á kjötmáltíð eða sambærilegri grænmetismáltíð annan hvern dag og sömuleiðis hafa 22,8 prósent ekki efni á bíl. Ríflega einn af hverjum tíu er í vanskilum á leigu eða lánum og tæplega einn af hverjum tíu hefur ekki efni á sjónvarpstæki. 7,5 prósent hafa ekki efni á þvottavél.
Þetta eru nokkrar staðreyndir um stöðu að því er virðist stækkandi hóps í íslensku samfélagi en hér var vísað í niðurstöður könnunar Vörðu – rannsóknarstofnunar vinnumarkaðarins sem lögð var fyrir félaga í aðildarfélögum ASÍ og BSRB. Niðurstöðurnar voru birtar í mars síðastliðnum.
Á sama tíma er hópur fólks sem býr í allt öðrum veruleika en þau sem hafa ekki efni á að gefa börnum sínum afmælisgjafir. Fólk sem veit vart, eða alls ekki aura sinna tal. Fólk sem þarf ekki að kvíða fyrir afmælum barna sinna, jólum eða sumarfríinu.
Gjáin milli ríkra og fátækra er síst að minnka. Það er reyndar ein Helvítisgjá í sögunni um Ronju Ræningjadóttur en látum það liggja milli hluta.
Hvað er svona merkilegt við það …
... að vera dómari, forstjóri eða verðbréfasali? Hvers vegna er búið að ákveða að þessi störf séu svo miklu merkilegri en störf tengd barnagæslu að launamunurinn sé margfaldur?
Á vef Hagstofunnar er sagt frá því að forstjórar og aðalframkvæmdastjórar fyrirtækja og stofnana hafi í fyrra verið með hæstu heildarlaunin, eða um 2,3 milljónir að meðaltali á mánuði. Sérfræðistörf við lækningar, dómarastörf, sérfræðistörf tengd ráðgjöf og sölu verðbréfa voru dæmi um störf þar sem heildarlaun voru að meðaltali hærri en 1,7 milljónir á mánuði. Fyrirsögn þessarar umfjöllunar Hagstofunnar var hins vegar: Lægst meðallaun í störfum tengdum barnagæslu.
Heildarlaun þeirra sem passa börn voru 562 þúsund krónur á mánuði.
Þau sem hugga og styðja. Þau sem umvefja. Þau sem búa til ævintýri, lesa ævintýri sem annað fólk hefur búið til. Af hverju gera þau svona? spurðu rassálfarnir. Af hverju, af hverju fara þau svona að þessu?
Óhamingjan í ójöfnuðinum
Ójöfnuður hefur verið einhvers konar lykilstef í umræðu um hin ýmsu mál að undanförnu. Hans hefur verið getið í umfjöllun um aukna vanlíðan barna og ungmenna, í fréttum um harkalegt ofbeldi í samfélaginu, í aðsendum greinum og umfjöllun fjölmiðla um heilbrigðiskerfið. ,,Hér ríkir ójöfnuður í heilsu,“ sagði Alma Möller landlæknir í viðtali við Heimildina í sumar.
Sumt fólk hefur reyndar minnst á snjallsímana og skjátímann þegar rætt er um aukna vanlíðan barna og ungmenna. Elísabet Jökulsdóttir rithöfundur skrifaði á Facebook á dögunum að hún héldi að ójöfnuður væri meiri ástæða fyrir óhamingju en snjallsímanotkun, „6000 fátæk börn á Íslandi og stjórnmálamenn halda áfram að ræða snjallsímanotkun. Einu sinni var það útvarpið, þar á undan sjónvarpið, nú snjallsíminn.“
Í rannsókn, sem Kolbeinn H. Stefánsson, dósent við félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands, gerði og birt var í byrjun þess árs segir að lágtekjufólk sé að nokkru leyti aðskilið frá bæði milli- og hátekjufólki í búsetu innan Reykjavíkur. Þessi aðskilnaður hefur samkvæmt rannsókninni aukist milli áranna 2000 og 2020. Niðurstöður rannsóknarinnar benda enn fremur til vaxandi einangrunar lágtekjufólks á áðurnefndu tímabili og að ójöfnuður á milli skólahverfa hafi aukist frá árinu 2012. Samkvæmt þessu hefur aðskilnaður milli hópa eftir tekjum aukist í Reykjavík, einangrun lágtekjufólks er orðin meiri en hún var og þegar sjónum er beint að skólahverfum sérstaklega hefur ójöfnuður aukist síðustu tólf ár.
Hrædd um að börnin erfi fátæktina og sorgina
Fyrir um tveimur árum stigu nokkrar fátækar mæður fram í Stundinni rétt fyrir jól og töluðu um líf sitt í samfélagi allsnægta. Ein þeirra sagðist til dæmis hafa þurft að neita sér um að fara til tannlæknis því börnin gengju fyrir. „Það var ansi oft sem það var þröngt í búi og ég sleppti því að borða til þess að börnin gætu borðað. Ég borðaði þá afgangana ef einhverjir voru. Þetta kom mjög oft fyrir. Ég man vel eftir því að ég skildi ekki af hverju ég væri svona þreytt og sljó en fattaði svo að ég var ekki búin að borða neitt sem gæti talist næringarríkt, heldur hafði ég nartað í kexkökur og drukkið kaffi í fjóra eða fimm daga.“
Önnur sagðist fara í klippingu á hárgreiðslustofu þriðja hvert ár.
„Á snyrtistofur hef ég ekki farið í mörg ár. Skemmtanir eins og bíóferðir snerust í kringum krakkana og fóru þau sárasjaldan í bíó sökum þess hve dýrt það er; undantekningarnar voru árin sem Harry Potter-myndirnar voru í bíó en þá var farið án undantekninga. Ef það var góður mánuður þá bauð ég þeim einu sinni á kaffihús eða pantaði pitsu. Ég gat ekki verið með eitthvert verðlaunakerfi þar sem þau ynnu sér inn vasapeninga vegna þess að það var ekki til peningur.“
Þá sagðist ein vera hrædd um að börnin hennar myndu „erfa þessa stöðu og þessa sorg“.
Áhyggjufullt ævikvöld
En það er ekki aðeins láglaunafólk, einstæðir foreldrar, öryrkjar og fleiri sem verða fyrir barðinu á ójöfnuði.
Þröstur Guðlaugsson, 69 ára fyrrverandi bakari og ljósmyndari, auglýsti á Facebook fyrr í þessum mánuði eftir „svartri vinnu“. Hann hafði misst vinnuna í Covid, fór á ellilífeyri og náði ekki endum saman í kjölfarið. Þröstur sagði við Vísi að hann fengi skertar húsnæðisbætur vegna þess að „þeir segja að ég sé með svo háar tekjur á lífeyrinum. Samt er þetta undir fátækramörkum sem ég er að fá. Það er alltaf skert eitthvað á móti þegar annað er hækkað, eins og húsaleigubæturnar í vor,“ sagði Þröstur. Hann sagðist líka hafa einangrast eftir að hann hætti að vinna.
„Síðan er ég með pínu krabbamein sem er nú í góðu, þó það sé helvítis kostnaður líka. En það er mikilvægt að vekja athygli á þessari stöðu sem margir virðast vera í. Fólk er bara að láta þetta yfir sig ganga.“
Áhyggjulaust ævikvöld
Í forsíðugrein Heimildarinnar í dag er fjallað um allt annan veruleika en þann sem Þröstur og margt annað fólk á eftirlaunum býr við og getur ekki annað.
Þar kemur fram að yfir tuttugu hæstaréttardómarar séu nú á fullum launum, þrátt fyrir að einungis sjö séu starfandi í réttinum. Hinir eru hættir, mörgum árum fyrir hefðbundinn eftirlaunaaldur. Ástæðan er umdeild túlkun á stjórnarskrá. Fyrir vikið er í raun betra fyrir þá að hætta í réttinum 65 ára en að sitja til sjötugs og þiggja venjuleg eftirlaun. Laun þeirra eru í kringum 2,2 milljónir á mánuði. „Ég hefði setið lengur ef ekki hefði verið fyrir þetta ákvæði, það er bara einfaldlega þannig,“ segir Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi dómari við réttinn, í Heimildinni í dag. Hann hætti þar árið 2012, eftir átta ára setu. „Ég tel að þetta sé óeðlilegur arfur einhverra gamalla tíma, þar sem aðstæður voru allt öðruvísi og tilgangurinn annar en þessi.“
Er hinn mikli munur á launum í landinu og þar með stöðu fólks og líðan líka óeðlilegur arfur gamalla tíma?
Hvar er öryggisnetið?
„Ísland best í heimi?“ er yfirskrift meistararitgerðar í viðskiptasiðfræði sem Jósef Gunnar Sigþórsson skrifaði við Háskóla Íslands fyrir tveimur árum þar sem hann fjallar um réttindi og skyldur innan íslenska ellilífeyriskerfisins.
Hugmyndina fékk Jósef vegna þess að áratug áður hafði töluvert af fólki úr hans nærumhverfi hafið töku eftirlauna. „Þetta var fólk af báðum kynjum, en þó fleiri karlmenn, úr ólíkum starfsstéttum en öll höfðu þau svipaða sögu að segja. Eftir að hafa greitt í lífeyrissjóði í marga áratugi þá kom það öllum mjög á óvart hversu litlu sú sjóðsöfnun skilaði aukreitis þegar kom að útborguðum raunlífeyri. Margir voru feimnir við að tjá sig um þetta opinberlega, virtust jafnvel skammast sín fyrir að hafa ekki vitað betur, en viðurkenndu að hin mikla skerðing á greiðslum frá almannatryggingum vegna uppsafnaðra réttinda hjá sjóðunum væri það sem kæmi mest á óvart og flestum nánast í opna skjöldu.“
Jósef bendir á að í velferðarsamfélagi sé almannatryggingakerfið hugsað sem öryggisnetið sem sér „til þess að tiltekin grundvallar- eða frumgæði séu til staðar fyrir alla, ekki síst þá sem lakast standa efnahagslega. Með því má segja að ríkið sé að tryggja einstaklingunum nægilega sterka grunnstoð til að sinna frumþörfum á borð við þær að brauðfæða sig og hafa þak yfir höfuðið.“
Þá segir Jósef: „Íslenska lífeyriskerfinu hefur töluvert verið hampað erlendis og skorað svo hátt á sumum mælikvörðum að það hefur talist eitt það besta, ef ekki það besta í heimi. Þetta er kannski ekki ósvipað þeirri mynd af íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu sem stundum hefur verið dregin upp í útlöndum?“
Þau sem búa hér á Íslandi vita að það ríkir allt annað en sátt um þetta fiskveiðistjórnunarkerfi þegar kemur að þeim hagnaði sem fæst af auðlindinni. Þeir sem selja kvótann eða fá hann í arf eru áberandi á toppi hátekjulista Heimildarinnar 2023, sem sýnir tekjuhæsta 1 prósent landsmanna, og reyndar líka árin þar á undan. Yfirburðir þessara kerfa, íslenska ellilífeyriskerfisins og fiskveiðistjórnunarkerfisins, eru því annaðhvort lygi, misskilningur eða hvoru tveggja. Ísland best í heimi?
Athugasemdir (2)