Nú vita það ekki margir, helst þá konan mín blessuð, en ég er óttalegur kverúlant og þá einkum þegar ég kem á stað, veitingastað, kaffihús, bakarí ... þar sem engin íslenska er í boði, þar sem ætlast er til þess að samskipti, þjónustan fari öll fram á ensku. Á því hefi ég ímugust og óþol í hæsta máta. Þá kann ég á tíðum að verða hvefsinn.
Ég hefi þó, góðu heilli, að mestu látið af þeim ósið enda beinist þá ergelsið oftar en ekki að röngum aðila. Ergelsið ætti með rentu að beinast að þeim sem rekur staðinn. Svona oftast nær allavega, án þess að farið sé nánar út í þá sálma. Í mínum huga er samasemmerki á milli þess að íslenska sé ekki í boði og lélegrar þjónustu, það að bjóða ekki upp á íslensku er léleg þjónusta.
Að sjálfsögðu brýt ég samt aldrei nokkurn tímann odd af oflæti mínu og skipti aldrei yfir, ekki undir neinum kringumstæðum, á ensku. Frekar tala ég króatísku en það arga mál auðvaldshyggju og heimsyfirráða (máski færi ég ögn í stílinn hér). Ég fer enda ekki ofan af því að það er argasta ósvífni að viðhafa slíka tilætlunarsemi. Og hananú!
Fyrir fólk sem talar ekki ensku, fyrir fólk sem hefir engan hug á ensku, kæmi það á sama stað niður yrði pólska brúkuð eður eitthvað annað mál. Raunar kysi ég það fremur en ensku. Ekkert á móti ensku per se. Ég er bara á móti því hve enskan er dóminerandi.
En stóra vandamálið er samt ekki mín gremja, stóra vandamálið er ekki að ég fái te þegar ég panta kaffi, stóra vandamálið er ekki mínar andvökunætur hvar ensku-grýlan vomir yfir mér með sínar illúðlegu glyrnur ... ónei! Stóra vandamálið er að þegar þetta gerist:
-Góðan daginn
-Sorry I don't speak any Icelandic.
Með þessu er verið að ræna það fólk sem vill læra málið, sem hefir áhuga á því, sem þarf hvata til að læra málið, tækifærum til að nota það og ná framförum. Þeir sem læra málið, eru að byrja að læra það, hafa oftlega ekki annað aðgengi að íslensku en þegar þeir panta sér kaffi og snúð (gott til að æfa þolfall og spjalla smá), þegar þeir fara í búð, á bar, á veitingastað o.s.frv. Sé það tekið frá fólki er fokið í flest skjól og hvatanum að miklu leyti kippt undan fólki. Það er stóra vandamálið.
Og síðan skapast aðgreining, fjöldamorð og fasismi. Er það ekki augljóst?
Höfundur er verkefnastjóri átaksins Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag
Athugasemdir