Fjöldi fólks var saman kominn á Hverfisgötu í morgun til að mótmæla yfirvofandi brottvísun Yazans Tamimi, ellefu ára gamals palestínsks drengs með Duchenne. Mótmælin voru fyrir utan skrifstofur forsætisráðuneytisins þar sem ríkisstjórnin fundaði um málið.
Til stóð að Yazan yrði fluttur frá Íslandi til Spánar í gærmorgun en Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra frestaði brottvísuninni að beiðni ráðherra Vinstri grænna sem vildu taka frekari umræðu um málið. Mótmælin hófust upp úr klukkan 8 í morgun, á sama tíma og fundur ríkisstjórnarinnar, og stóðu í fleiri klukkutíma þrátt fyrir nokkuð napurt veður.
„Við erum öll ógeðslega sár og reið í hjörtunum okkar. Þetta er svo ómanneskjulegt og ógeðslegt að manni hryllir við,“ segir Erla Sverrisdóttir, einn mótmælenda við Heimildina.
Henni finnst mál Yazans setja „viðurstyggilegt fordæmi“ og segir að brottvísun hans megi ekki gerast. Spurð hvað henni finnist að ríkisstjórnin ætti gera segir hún að ráðherrar ættu að stíga fram og „sýna kærleika í verki.“
Karl Benediktsson segist vera að mótmæla „þessum fáránlega gjörningi að taka þennan dreng úr landi í gærkvöldi.“ Hann vonar að það verði ekki.
Hvað finnst þér að ætti að gera?
„Að sjálfsögðu að veita þessari fjölskyldu hæli hér,“ segir hann. „Eins og fjölda annarra sem þurfa á því að halda. Það er ekki einleikið hvernig lögum hefur verið breytt til þess að gera kleift svona gjörning eins og var framinn í gærkvöldi.“
Hann segir þetta vera afleiðing stefnu ríkisstjórnarinnar sem honum finnst hafa verið við völd of lengi. Ekki sé nóg að gert í málefnum flóttamanna. „Mér finnst það með ólíkindum hvernig er tekið á móti þessu fólki,“ segir Karl.
Vala Sigþrúðar Jónsdóttir segir brottvísun Yazans ólíðandi. „Ég trúi því ekki að við stöndum hér ennþá að mótmæla. Það er ófyrirgefanlegt ef ríkisstjórnin vísar Yazan úr landi.“ Hún nefnir að búið sé verið að mótmæla brottvísun drengsins síðan í sumar, hún trúir ekki að það þurfi að halda því áfram.
„Maður er síðan í gærmorgun ekki einu sinni búinn að hugsa heila hugsun. Það var ekki hægt að fara að sofa í gær því maður vissi ekki hvort að Yazan var öruggur.“
Vala segir aðgerðir ríkisstjórnarinnar ekki vera nægar ennþá. „Ég ætla að trúa því að það komi í ljós að þau hafi tekið rétta ákvörðun eftir stutta stund.“
Athugasemdir