Veturinn 1702–1703 var gert manntal á Íslandi. Manntalið er elsta varðveitta manntal í veröldinni sem nær til allra íbúa í heilu landi. Svo markvert þykir manntalið að það er á lista Unesco, Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, yfir minni heimsins.
Árið 1703 voru Íslendingar brautryðjendur í skrásetningu upplýsinga. En það er af sem áður var.
Ferðamaður lést á Breiðamerkurjökli í síðasta mánuði þegar íshellir hrundi. Hátt í 200 viðbragðsaðilar leituðu tveggja ferðamanna til viðbótar sem talið var að væru fastir undir ísfarginu. Eftir umfangsmikla leit við erfiðar aðstæður kom hins vegar í ljós að um misskilning hefði verið að ræða. Færri höfðu verið í íshellaferðinni en talið var í fyrstu. „Ljóst virðist að skráning í ferðina og utanumhald hafi ekki verið nákvæmt“, sagði í tilkynningu lögreglu.
En það er ekki aðeins í ferðaþjónustu sem skrásetning er vanrækt.
Auður Björgvinsdóttir, læsisfræðingur og aðjunkt við Háskóla Íslands, sagði í samtali við Morgunblaðið í vikunni að þeim börnum fjölgaði hratt sem ekki næðu lestrarviðmiðum í 1. bekk grunnskóla. Hún gagnrýndi að fyrsta lesfimiprófið væri ekki lagt fyrir nemendur fyrr en þegar 1. bekkur væri hálfnaður. „Hvernig ætlum við að bregðast við ef barn les sex orð á mínútu?“ spurði hún.
Verðmæt vitneskja
Í skóla barnanna minna í London þar sem ég bý er haldin ítarleg skrá yfir alla þætti skólastarfsins. Námsárangur í helstu fögum er mældur og borinn saman við árangur í skólum á landsvísu. Jafnframt eru framfarir hvers nemanda metnar með prófi við upphaf skólaárs og lok þess. Sérstaklega er skráð frammistaða nemenda með sérþarfir og þeirra sem búa við félagslegar og hagrænar áskoranir. Tölfræði er til um einelti þar sem eðli hvers tilviks er tiltekið.
Einhverjum kann að virðast slík upplýsingaöflun einskis virði. Árið 2014 hafnaði til að mynda skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar tillögu Sjálfstæðisflokksins um að aflétta leynd af frammistöðu reykvískra grunnskóla í hinni alþjóðlegu PISA-könnun frá árinu 2012 með þeim orðum að tillagan bæri vott um „gamaldags sýn þeirra sem telja skólastarf vera keppnisíþrótt“. En í tölum sem þessum leynist hins vegar verðmæt vitneskja.
Í Heimildinni í vikunni var sagt frá því að árið 2022 hefði verið skipuð nefnd sem skilgreina átti hvaða fjölsóttu ferðamannastaðir gætu ógnað öryggi fólks. Sú vinna varð að engu þegar í ljós kom að engin skrá hefði verið haldin um slys eða dauðsföll ferðamanna. Að mati verkefnastjóra var því ekki hægt „að skilgreina með tæmandi hætti hvaða ferðamannastaðir eru til þess fallnir að ógna öryggi almennings umfram aðra við vissar kringumstæður“.
Ekki var hægt að bjarga mannslífum.
Stórkostleg mistök
Auður Björgvinsdóttir segir lestrarhæfni í fyrstu bekkjum forsendu þess að börn geti lesið flóknari texta síðar. „Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að ef börn hafa ekki náð nægilegri færni í 3. bekk þá næst hún sjaldnast.“ Hún segir þörf á heildstæðu samræmdu námsmati í grunnskólum landsins og telur skólayfirvöld hafa gert „stórkostleg mistök“ með því að haga málum þannig að ekkert slíkt mat sé við lýði í dag.
„Hvenær varð þjóðin sem bjó til manntalið 1703 svona talnafælin?“
Í skóla barnanna minna í London gerir ítarleg skráning upplýsinga stjórnendum kleift að gera úrbætur þar sem við á. Tölfræðin nýtist jafnframt stjórn skólans við að leggja mat á frammistöðu skólastjórans, en stjórnin ræður og rekur skólastjóra og eiga fulltrúar foreldra sæti í henni. Upplýsingar um árangur hvers skóla eru opinberar og geta foreldrar haft þær til hliðsjónar þegar þeir velja í hvaða skóla þeir senda barnið sitt.
Nýverið sendi Viðskiptaráð mennta- og barnamálaráðuneytinu upplýsingabeiðni þar sem óskað var eftir einkunnum úr nýjustu PISA-könnuninni, niðurstöðum samræmdra könnunarprófa og skólaeinkunnum sundurgreindum eftir grunnskólum. Að sögn ráðsins var fyrirspurnin send vegna áforma ráðuneytisins „um að birta ekki niðurstöður samræmds námsmats sundurgreindar eftir skólum“.
Áratug eftir að skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar kallaði ósk um tölulegt gagnsæi „gamaldags sýn“ hefur lítið breyst. En það er leyndarhyggjan sem er gamaldags.
Hvenær varð þjóðin sem bjó til manntalið 1703 svona talnafælin?
Athugasemdir (3)