Síðustu misserin hef ég svolítið verið að leita langt yfir skammt eftir alls kyns ráðum til að takast á við áskoranir sem ég hef staðið frammi fyrir. Í kjölfarið lét gamall kvíði á sér kræla, eftir rúmlega tuttugu ára hlé. Þegar ég var tvítug og á hápunkti kvíðans, var hugtakið kvíði mjög nýtt fyrir mér. Það var lítið talað um kvíða eða geðheilbrigði um aldamótin. Engin fræðsla. Mig skorti orðaforða um þessi mál og talaði lengi vel bara um að ég væri „stressuð“, „vandræðaleg“ eða „óörugg“. Ég komst ekki að því fyrr en ég var loksins komin til sálfræðings að þetta sem hrjáði mig kallaðist „félagskvíði“.
Ég hafði farið í símaskrána til að finna sálfræðing. Árið 2001 voru líflínurnar tvær: símaskráin eða bókasafnið. Enginn í kringum mig gat mælt með sálfræðingi vegna þess að það fór enginn til sálfræðings – eða fólk fór þá a.m.k. mjög leynt með það. Þetta var feimnismál. Svörin bjuggu semsagt í símaskránni og þar fann ég sálfræðing sem sérhæfði sig í kvíða, depurð og þráhyggju. Það hljómaði vel. Ég var kvíðin, svo mikið vissi ég. Að fara til sálfræðings var mikilvægt fyrsta skref en til að gera mjög langa sögu stutta var það á endanum listin og sköpunin sem bjargaði mér – kvíðinn hvarf eins og dögg fyrir sólu. Það var í alvöru talað svo einfalt. Sköpunin var ekki flóttaleið, heldur leið að sjálfri mér sem hafði verið stífluð og lokuð með tilheyrandi óþægindum. Þarna var ég loksins búin að finna tjáningarleiðina sem mig hafði vantað – mína samskiptaleið við heiminn.
„Árið 2001 voru líflínurnar tvær: símaskráin eða bókasafnið“
Nú, rétt rúmum tuttugu árum síðar, eru aðstæður í samfélaginu svo gjörólíkar að ég veit eiginlega ekki hvar skal byrja. Í fyrsta lagi er hluturinn símaskrá ekki lengur til en það er allt í lagi því hún er sem betur fer ekki lengur eina svarið. Í stað símaskrár eru komnar ótal fleiri leiðir til að sækja sér ráð og fræðslu. Aldrei í veraldarsögunni hefur verið jafnmikið framboð á skoðunum og ráðum. Þau flæða um allt, hvort sem maður er að leita að þeim eða ekki; á samfélagsmiðlum, þar sem þau berast á milli á ljóshraða, á Youtube og internetinu öllu, í sjónvarpi, útvarpi, dagblöðum, bókum, hljóðbókum og hlaðvörpum – og náttúrlega í samtölum við fólkið sem við umgöngumst. Þið þekkið þetta. Lærðir og leikmenn gefa ráð um hvernig sé best að hreyfa sig, hvað sé best að borða, hvaða bætiefni séu ómissandi og hvernig sé best að tækla hverja einustu tilfinningu og kvilla undir sólinni og svo mætti lengi, lengi telja. Ein allsherjar vitundarvakning um allt, á sama tíma. Og kvíðinn er á allra vörum. Sumt hefur auðvitað reynst mér gagnlegt og ég hef lært eitthvað nýtt en það er líka mjög auðvelt að týna sér í ráðum annarra, flækja hlutina að óþörfu og missa tenginguna við sinn innbyggða áttavita – hætta að treysta honum – þrátt fyrir að hann viti yfirleitt best. Þess vegna getur verið varasamt að nota sinn innbyggða áttavita til að vísa öðrum veginn, þar sem hann er sérstaklega hannaður fyrir þig. Það sem þinn innbyggði áttaviti segir að sé hánorður er kannski austur í mínum innbyggða áttavita.
Ég er því komin í litlar, sjálfskipaðar æfingabúðir – eða endurhæfingu – að einfalda hlutina og sækja ráðin og viskuna meira til sjálfrar mín og minnst til hugans, þess sem hefur viðað að sér ráð og þekkingu í gegnum Youtube, hlaðvörp og hljóðbækur, heldur frekar til líkamans. Ég byrja á litlu hlutunum sem eru samt ekki svo litlir: Hvað og hvernig vil ég borða? Hvernig vil ég hreyfa mig? o.s.frv. Og kannski, ef maður hlustar gaumgæfilega á það sem líkaminn kallar á í þessum efnum, í stað þess að fylgja gömlum vana eða því sem aðrir segja að sé best fyrir mann, þá styrkir maður um leið sambandið við sjálfan sig, eigin skýrleika og innsæi – sinn áttavita.
„Það hljómar kannski svolítið eins og ég sé að segja að hugurinn sé vondur en líkaminn góður. Ég meina það ekki. Bæði æði.“
„Skynsemi“ er hugtak sem mér finnst eins og hugurinn og rökhugsunin hafi svolítið eignað sér. Við tökum vel ígrundaðar og „skynsamar“ ákvarðanir með huganum. Ákvarðanir sem við getum rökstutt – með hjálp hugans. Ég er hins vegar á því núna, að þegar komi að ákvörðunum sem snúa alfarið að sjálfri mér sé skynsamast fyrir mig að taka þær ekki með huganum eins og um skákleik sé að ræða, heldur með líkamanum og öllum þeim skynfærum sem þar er að finna og eru sérstaklega til þess gerð að vernda mig og hjálpa mér að velja rétt. Skynsemi hlýtur aðallega að reiða sig á skynjun. Við skynjum svo margt sem við skiljum ekki og eigum ekki auðvelt með að útskýra. Og oft finnst mér mesti sannleikurinn felast í þessu sem við eigum erfitt með að rökstyðja eða útskýra með orðum.
Það hljómar kannski svolítið eins og ég sé að segja að hugurinn sé vondur en líkaminn góður. Ég meina það ekki. Bæði æði. Hugurinn er auðvitað mjög gagnlegur til að ráða sig fram úr prjónauppskriftum, leysa stærðfræðijöfnur og ná sér í lögfræðigráðu eða til að hanna og smíða mannvirki, vélar og tæki af hugvitssemi. Og til að orða hlutina. En hann getur líka verið kjörin kvíðaræktunarstöð og þegar kemur að því að taka ákvarðanir sem snúa að okkar hjartans málum og lífi þá held ég að hugurinn megi alveg taka sér síestu. Leyfa sér að segja „ég veit það ekki“ (mikið gáfumerki), í stað þess að verða alltaf að hafa svör á reiðum höndum. Bara einhver svör, einhverjar skoðanir. Eitthvað til að halda sér í. Taka ekki sífellt að sér fararstjórahlutverkið, án þess að rata. Líkaminn er svo klár – og skynsamur – hann hjálpar okkur að skynja og tengja en tenging er nú eiginlega grunnforsenda þess að njóta nokkurs skapaðs hlutar. Tenging við sjálfan þig, annað fólk, umhverfið og augnablikið. Ef tengingin er ekki til staðar, þá erum við bara eins og raftæki sem hefur verið tekið úr sambandi – algjörlega tilgangslaust nema því sé stungið í samband. Ég reyni því að hlúa að tengingunni – vera sítengd – sem hefur ekkert með WiFi eða 5G að gera. Að sjá til þess að móttökuskilyrðin séu opin þannig að ég sé fær um að taka á móti augnablikunum, gjöfunum og tækifærunum til að gefa á móti. Og þá er sko eins gott að viðhalda mýktinni, því mýktin er móttækilegri en harðneskjan.
Jæja, þá er ég búin að skrifa pistil um það sem ég hef lært. Þetta þurftum við sko aldeilis öll að heyra! Heyr, heyr!
P.s. Ef ég mætti gefa bara eitt ráð sem fellur aldrei úr gildi. Eitt sígilt og gott sem ég held að geti fallið að innbyggðum átttavitum flestra: Að vera blíð og góð við náungann er það minnsta sem við getum gert en um leið það áhrifamesta, vegna þess að það hefur margföldunaráhrif í allar áttir. Svo hljóðar mitt eina, óumbeðna ráð.
Athugasemdir