SSigurður Ingi Jóhannsson fjármála- og efnahagsráðherra sagði í Kastljósi á dögunum að það væri í DNA íslensku þjóðarinnar að „við sættum okkur við hærri verðbólgu, hærra verðbólgustig, eða sækjumst jafnvel eftir því“.
Í ummælunum felst ótrúleg ósvífni gagnvart fjölskyldum sem horfa upp á matarkörfuna, reikningana og greiðslubyrði lána hækka mánuð eftir mánuð án þess að fá neinu um það ráðið.
Almenningur sættir sig hvorki við verðbólguna né sækist eftir henni. Það er ekki heimilum landsins að kenna að ríkisstjórnin hefur kynt undir þenslu og keyrt upp verðbólguvæntingar með ósjálfbærri ríkisfjármála- og efnahagsstefnu.
Ríkisstjórn sem skorast undan ábyrgð sinni á stöðu efnahagsmála er ónýt og verður að pakka saman.
Jafnvægi í ríkisrekstri
Forgangsmál Samfylkingar númer eitt, tvö og þrjú er að endurheimta efnahagslegan stöðugleika og ná niður vöxtum og verðbólgu. Lykillinn að þessu er að auka traust landsmanna gagnvart hagstjórninni og koma jafnvægi á ríkisfjármálin til langs tíma. Til þess þarf þrennt að koma til.
Í fyrsta lagi verðum við að halda áfram að stækka kökuna og byggja undir vöxt háframleiðniatvinnugreina sem skila miklum virðisauka til landsmanna. Þannig eykst hagvöxtur á mann og meira er til skiptanna til að reka sterka opinbera þjónustu.
Í öðru lagi þurfum við að fara betur með opinbera fjármuni. Þetta verður meðal annars gert með aukinni eftirfylgni og innri endurskoðun hjá ríkisaðilum og frekari skrefum til stafvæðingar á opinberri þjónustu og stjórnsýslu.
Í þriðja lagi verðum við að afla aukinna tekna til að styrkja afkomu hins opinbera og standa undir áskorunum næstu ára, meðal annars þeim sem fylgja breyttri aldurssamsetningu, aukinni þjónustuþyngd í velferðarkerfinu og þeirri gríðarlegu innviðaskuld sem hefur safnast upp í tíð núverandi ríkisstjórnar.
Jafnræði í skattheimtu
Þegar kemur að tekjuöflun hins opinbera skiptir jafnræði og sanngirni öllu máli.
Upplýsingarnar sem dregnar eru fram í Hátekjublaði Heimildarinnar eru mikilvæg áminning um grundvallargalla á íslensku skattkerfi, þann afgerandi mun sem er á skattbyrði launa og skattbyrði fjármagns. Hér sker Ísland sig frá hinum Norðurlöndunum.
„Tekjuhæsta 0,1 prósentið á Íslandi greiðir að jafnaði umtalsvert lægra hlutfall tekna sinna í skatt heldur en almennt launafólk“
Ríkasta og tekjuhæsta 0,1 prósentið á Íslandi greiðir að jafnaði umtalsvert lægra hlutfall tekna sinna í skatt heldur en almennt launafólk. Tekjur sem ættu að vera skattlagðar sem atvinnutekjur í hæsta skattþrepi upp á 46 prósent eru greiddar út sem arður úr félögum og bera 22 prósenta fjármagnstekjuskatt, eða samtals 38 prósenta skatt þegar skattur á hagnað lögaðila er talinn með. Þá er hvorki greitt tryggingagjald né framlag í lífeyrissjóð vegna þessara tekna.
Þannig ívilnar skattkerfið fjársterkum minnihluta á kostnað fjöldans.
Skaðleg skattaglufa
Samkvæmt tekjuskattslögum ber einstaklingum sem starfa við eigin atvinnurekstur að reikna sér endurgjald fyrir þá vinnu, ígildi launa sem myndar stofn til skattlagningar og útreiknings á trygginga- og lífeyrisiðgjöldum. Reiknað endurgjald á ekki að vera lægra en launatekjur manns hefðu orðið ef hann hefði unnið fyrir ótengdan eða óskyldan aðila.
Í svari við fyrirspurn sem ég beindi til fjármála- og efnahagsráðherra í upphafi þessa kjörtímabils er í raun viðurkennt að þessar reglur feli í sér óheilbrigða hvata og bjóði upp á misnotkun. Aðilar sem telja fram launatekjur á grundvelli reiknaðs endurgjalds gangi út frá lægstu viðmiðunum sem reglurnar heimila. Persónuleg útgjöld séu ranglega gjaldfærð á rekstur félaga og virðisaukaskattur af einkakostnaði sé gjarnan talinn fram sem innskattur þannig að skil á virðisaukaskatti í ríkissjóð verði lægri sem því nemur.
Hér er þannig um að ræða skattaglufu sem grefur í senn undan mörgum skattstofnum: almennum tekjuskatti, útsvari, tryggingagjaldi og virðisaukaskatti, og jafnframt tekjustreymi í lífeyrissjóði landsmanna. Skattkerfið býður beinlínis hátekjufólki upp á að lágmarka skattgreiðslur sínar með því að telja fram lægri laun og hærri fjármagnstekjur en felst í raun í rekstrinum.
Ríkisstjórnin veit af vandanum en aðhefst ekkert
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gagnrýndi fyrirkomulag reiknaðs endurgjalds í skýrslu árið 2012 og benti á ýmsa veikleika þess, meðal annars að kerfið fæli í sér hvata til að komast hjá tekjuskatti, viðmiðunarfjárhæðir væru of lágar og allt benti til þess að háar fjárhæðir sem gefnar eru upp sem arðgreiðslur væru í raun atvinnutekjur.
Fjallað var aftur um þessa galla í skýrslu frá starfshópi Axels Hall hagfræðings um endurskoðun tekjuskatts og bótakerfa árið 2019 og í úttekt frá hagdeild Alþýðusambands Íslands árið 2021.
Þrátt fyrir að fjármála- og efnahagsráðherra viðurkenni vandann í svarinu við fyrirspurn minni á Alþingi hefur núverandi ríkisstjórn ekki gripið til neinna aðgerða til að taka á honum.
Lítum til Norðurlandanna
Samfylkingin hefur ítrekað kallað eftir og lagt fram tillögur um að girt verði fyrir þennan skaðlega tekjutilflutning. Að ehf-gatinu verði lokað.
Þar væri réttast að líta til aðferða sem beitt er á hinum Norðurlöndunum til aðgreiningar á launum og fjármagnstekjum aðila í eigin rekstri. Þar tíðkast að fjármagnstekjur séu áætlaðar út frá eignum og viðbúinni ávöxtun og það sem eftir stendur sé skattlagt sem laun.
Með slíkum lagabreytingum mætti slá tvær flugur í einu höggi: auka jafnræði í skattheimtu og styrkja tekjustofna hins opinbera.
Þetta er eitt af mörgum skrefum sem verður að stíga til að bæta afkomu hins opinbera og koma jafnvægi á ríkisbúskapinn. Ríkisstjórn Íslands ætti að snúa sér að slíkum verkefnum og gangast við ábyrgð sinni á stöðu efnahagsmála fremur en að skella skuldinni á almenning.
Höfundur er þingmaður Samfylkingarinnar, jafnaðarflokks Íslands
Athugasemdir (1)