Við hjá Ljósmæðrafélagi Íslands undirrituðum kjarasamning við ríkið til fjögurra ára í júlí síðastliðnum. Ljósmæður eins og aðrar vaktavinnustéttir eiga alltaf erfitt með að semja um kaup og kjör þar sem mótaðilar okkar horfa til heildarlauna og segja þau svo há.
Þegar ég sé hátt launað heilbrigðisstarfsfólk hugsa ég alltaf um það hvað liggi að baki þessum launum. Hversu margar klukkustundir í vinnu, hversu margar vaktir þar sem þau gátu ekki sinnt frumhvötum eins og að nærast eða fara á salernið? Hversu lengi var viðkomandi á bakvöktum að sinna stóru landsvæði einn síns liðs?
Ljósmæður eins og aðrar vaktavinnustéttir hafa vissulega margar há heildarlaun. Á bak við þessi heildarlaun eru ekki há grunnlaun heldur gífurlegt vinnuálag og yfirvinna sem skapast vegna undirmönnunar í heilbrigðiskerfinu.
Á bak við þessi laun liggur helgarálag, það að vinna um helgar í stað þess að hvíla sig. Það er næturvaktarálag, að mæta til vinnu og standa vaktina oft við krefjandi aðstæður alla nóttina og sem margar rannsóknir sýnt fram á að er óhollt og styttir lífaldur okkar. Það er stórhátíðarálag, að vera í vinnu um jólin, áramótin, páskana og aðra stórhátíðardaga frá fjölskyldu og vinum. Kvöldálag fyrir að vinna á kvöldin og síðast en ekki síst allir yfirvinnutímarnir.
„Að hafa setið undanfarna mánuði að karpa um kaup okkar og kjör hefur virkilega tekið á“
Margir líta á möguleikann á því að geta unnið yfirvinnu sem ákveðin lífsgæði. Það gefur möguleika á að hækka launin. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að það er ekki svo í augum ljósmæðra. Yfirvinnan er að valda okkur miklu álagi og endalausar beiðnir frá vinnustöðum um að taka aukavaktir eða yfirvinnu sem við svo vinnum til að skilja ekki samstarfsfólk okkar eftir við óviðunandi aðstæður. Ljósmæður myndu gjarnan vilja vera í fríi þegar þær eiga frí en, eins og aðrar heilbrigðisstéttir, er þeim umhugað um að halda þjónustu heilbrigðiskerfisins gangandi.
Ég vildi óska að þau sem hafa möguleikann á að gera raunhæfar breytingar á stöðunni axli ábyrgð á stöðunni. Að hafa setið undanfarna mánuði að karpa um kaup okkar og kjör hefur virkilega tekið á. Að mæta algjöru skilningsleysi á raunverulegri stöðu heilbrigðiskerfisins og því ómanneskjulega álagi sem er á starfsfólki. Að mæta algjöru viljaleysi til að horfast í augu við vandamálið og finna leiðir til að bæta það er virkilega erfitt.
Við gengum frá samningsborðinu nú í sumar með þá von að við værum eitthvað að leggja af mörkum með okkar samningi til að bæta ástandið í þjóðfélaginu, en nú berast fréttir um að stýrivextir verði áfram óbreyttir enn um sinn.
Stjórnvöld verða að taka höndum saman og fjármagna heilbrigðiskerfið á fullnægjandi máta. Það skiptir okkur öll máli.
Athugasemdir